Home / Fréttir / Hermálanefnd NATO: Síbreytilegar öryggisaðstæður krefjast sveigjanlegra viðbragða

Hermálanefnd NATO: Síbreytilegar öryggisaðstæður krefjast sveigjanlegra viðbragða

Knud Bartels
Knud Bartels

Danski hershöfðinginn Knud Bartels, formaður hermálanefndar NATO, sagði í Brussel miðvikudaginn 20. maí, þegar hann setti fund yfirmanna herafla einstakra aðildarríkja bandalagsins, að hlutverk þeirra og NATO væri að laga sig að öryggisaðstæðum sem tækju stöðugt breytingum.

Hann nefndi tvö nýleg dæmi máli sínu til stuðnings, að átök innan Jemen gætu hæglega breyst í svæðisbundið stríð, og áform Evrópusambandsins vegna straums farandfólks yfir Miðjarðarhaf kölluðu á hernaðarleg viðbrögð.

Þetta er síðasti fundurinn af þessu tagi sem Bartels stjórnar. Hann hverfur til annarra starfa í næsta mánuði og tekur tékkneski hershöfðinginn Peter Pavel við formennsku í hermálanefndinni.

Bartels sagði að á leiðtogafundi NATO í Varsjá á næsta ári yrði nýrri hrað-viðbragðsáætlun NATO hrundið í framkvæmd. Með henni verður NATO tryggður öflugur herafli sem senda má með stuttum fyrirvara þangað sem hans er þörf. Honum er ekki aðeins ætlað að bregðast við hættu frá Rússlandi heldur einnig vegna ástandsins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.

Hluti þess herafla sem um er að ræða er liðsafli sem nefnist Spjótsoddur (Spearhead Force). Það er stórfylki sem senda má á vettvang með 48 stunda fyrirvara. Með því eru sameiginlegar varnir NATO styrktar og markmiðið er að tryggja að NATO ráði yfir „réttum herafla á réttum stað á réttum tíma,“ eins og embættismenn bandalagsins orða það.

Spjótsodds-liðið hefur þegar verið myndað og stundar æfingar á þessu ári.

Bartels sagði að á fundinum nú yrði greint frá því hvernig miðaði við að reisa stjórnstöðvar í Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi, Búlgaríu og Rúmeníu.

Fulltrúar frá Úkraínu og Georgíu hitta NATO-herforingjana í Brussel og ræða við þá um öryggismál landa sinna og hvað NATO geti gert til að auka úthald herafla þeirra.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …