Home / Fréttir / Hergögn streyma til Noregs vegna Trident Juncture-æfingarinnar

Hergögn streyma til Noregs vegna Trident Juncture-æfingarinnar

 

Þilfar þýska flutningaskipsins Ark Germania,
Þilfar þýska flutningaskipsins Ark Germania,

Mikið magn hergagna er tekið að streyma til Noregs vegna NATO-heræfingarinnar Trident Juncture sem hefst í næsta mánuði. Varnarmálaráðherrann Frank Bakke-Jensen og dómsmálaráðherrann Tor Mikkel Wara voru báðir í Fredrikstad þegar flutningaskipið Ark Germania kom þangað föstudaginn 7. september. Aldrei fyrr hefur jafnmikið af hergögnum verið flutt til Noregs segir á vefsíðunni ABCNyheter.

Varnarmálaráðherrann sagði að með æfingunni ætti fyrst og fremst að sýna að Norðmenn stæðu vaktina og í henni fælust skýr skilaboð um að þeir vildu vera í friði. „Við æfum til að losna undan að þurfa að beita okkur,“ sagði ráðherrann.

Um borð í Ark Germania voru 250 herbílar og 70 gámar með tækjum sem á flytja landleiðina. Alls verða þetta 16 bílalestir.

Skipið var tvo sólarhringa á siglingu frá Emden í Þýskalandi. Flestir þeirra sem affermdu skipið á nokkrum klukkutímum voru Þjóðverjar. Fyrst er komið með ökutæki sem gegna þjónustu- og aðstoðarhlutverki síðar bætast við hefðbundin hergögn eins og brynvagnar og skriðdrekar.

Það setur á næstunni svip sinn á norskar hafnir, flugvelli, járnbrautir og þjóðvegi að 40.000 manns verða fluttir til landsins vegna æfingarinnar sem hefst 25. október. Alls koma 70 skip til mismunandi norskra hafna áður en æfingin hefst.

Hjá yfirvöldum og almenningi gætir nokkurrar spennu vegna óvissu um hvaða áhrif þessir miklu herflutningar hafa á daglegt líf og umferðina almennt.

Hermenn og annað lið frá 31 landi taka þátt í æfingunni, frá 29 NATO-löndum og auk þess frá Svíþjóð og Finnlandi.

Æfinguna ber hæst 30. október á Byneset fyrir utan Þrándheim. Þá verður styrkleiki liðsaflans á sjó og landi sýndur Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, sendiherrum frá NATO-löndunum og yfirmönnum herja landanna.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …