
Margir hermanna frá Petsamósvæðinu Kólaskaga sem sendir voru til stríðsátakanna í Úkraínu hafi goldið þess með lífi sínu segir á norsku vefsíðunni Barents Observer fimmtudaginn 18. maí. Þeir hafa týnt lífi í bardögum fyrir norðan bæinn Bakhmut í austurhluta Úkraínu. Undanfarið hafa sprengjuþotur frá Olenja flugherstöðinni fyrir sunnan Múrmansk verið í fararbroddi við flugskeytaárásir á Kyív, höfuðborg Úkraínu.
Á 19 dögum í maí hafa Rússar gert 10 flugskeytaárásir á Kyív. Loftvarnasveitir borgarinnar granda æ fleiri flaugum og drónum Rússa. Aðfaranótt 18. maí sendu Rússar 30 skeyti til skotmarka í Úkraínu og segir herstjórn landsins að tekist hefði að granda 29 þeirra.
Ráðuneytið sagði að langdrægar sprengjuþotur hefðu skotið 22 skeytanna, tvær Tu-160 vélar og átta Tu-95 vélar. Flaugarnar hefðu verið af gerðunum Kh-101 og Kh-555 með 400 kg hefðbundna sprengjuodda.
Kh-555 má skjóta 3.500 km og er því unnt að skjóta þeim á skotmörk í Úkraínu langt frá landamærum landsins.
Rússneska varnarmálaráðuneytið staðfesti fimmtudaginn 18. maí að árásirnar hefðu verið gerðar og sagði að flugskeytunum hefði verið ætlað að granda „geymsluhúsum fyrir vopn og tæki frá útlendum framleiðendum“. Fullyrti ráðuneytið að allar flaugarnar hefðu grandað skotmörkum sínum sem stangast alfarið á við það sem Úkraínumenn segja.
Barents Observer segir að áhugamaður um ferðir rússneskra herflugvéla hafi að kvöldi 17. maí sagt á Twitter að sjö Tu-95 vélar og ein Tu-160 vél hefðu farið á loft frá Olenja flugherstöðinni á Kólaskaga en tvær Tu-95 vélar hefðu farið frá Engels flugherstöðinni áður en stýriflaugaárásin á Úkraínu hófst.
Fréttasíðan Fakty í Úkraínu segir að hver Tu-95 vél geti borið sex stýriflaugar.
Heimildarmaður innan herstjórnarinnar í Kyív sagði að sumar flugvélarnar hefðu verið yfir Kaspíahafi þegar flaugunum var skotið í áttina að borginni.
Í frétt Barents Observer er minnt á að í fyrri viku hafi þar birst frétt [og einnig á vardberg.is] um að flugvöllurinn við Olenja flugherstöðina gæti ekki tekið á móti fleirum langdrægum sprengjuvélum eftir að vélar sem áður voru í Engels stöðinni hefðu verið fluttar þangað til að bjarga þeim undan drónaárásum Úkraínuhers.
Er þetta talið til marks um að Kólaskagi skipti miklu í tilefnislausum hernaði Rússa gegn Úkraínumönnum.
Þúsundir rússneskra hermanna sem áður voru í búðum og stunduðu æfingar skammt frá landamærum Noregs og Finnlands hafa fallið eða særst í Úkraínu. Herskip úr rússneska Norðurflotanum frá hafnarborginni Severomorsk á Kólaskaga hafa tekið virkan þátt í stríðinu undanfarna 15 mánuði.
Rannsóknastofnunin The Insitute for the Study of War sagði í vikunni stórfylkið sem sent var frá Kólaska, 200. vélastórfylkið, hefði hörfað frá stöðvum sínum um sex km fyrir norðvestan Bakhmut. Aðsetur 200. stórfylkisins er í Petsamó skammt frá landamærum Noregs. Áður var Petsamó hafnarborg Finna við Barentshaf.
Heimild: Barents Observer