„Á næstu vikum hefja bæði Rússar og NATO mestu heræfingar sínar frá lokum kalda stríðsins. Hundruð þúsunda hermanna, tugir þúsunda farartækja, hundruð flugvéla og tugir herskipa taka þátt í fjölda sýndaraðgerða sem ná frá Kína til Íslands, frá Norður-Atlantshafs til Miðjarðarhafs.“
Á þessum orðum hefst löng grein á bandarísku vefsíðunni Breaking Defense þriðjudaginn 4. september eftir Paul McLeary þar sem hann segir frá Vostok-heræfingu Rússa hinni mestu þar í landi síðan 1981. Undrun vekur að um 300.000 hermenn og 900 skriðdrekar taka þátt í æfingunni. Rússar hafa einnig tryggt þátttöku 3.000 kínverskra hermanna skammt frá landamærum Kína og Mongólíu. Þá boðuðu Rússar skyndilega að efnt yrði til flotaæfingar á Miðjarðarhafi sem vekur grun um að hún sé liður í hernaði þeirra í Sýrlandi.
Í greininni er einnig fjallað um NATO-æfinguna Trident Juncture 2018 sem fer fram í Noregi í október og nóvember, stærstu æfingu NATO frá lokum kalda stríðsins. Svíar og Finnar eru einnig meðal þátttökuþjóða.
Alls taka 40.000 hermenn og aðrir frá öllum NATO-ríkjunum 29 þátt í æfingunni, 70 skip, 150 flugvélar og 10.000 landfarartæki.
Í greininni segir að ekkert hafi heyrst frá Hvíta húsinu í Washington um Trident Juncture. Greinarhöfundur fékk ekki, fyrir birtingu greinarinnar, svör við spurningum sínum til bandaríska varnarmálaráðuneytisins og NATO um kostnað við Trident Juncture eða hve mikið af honum félli í hlut Bandaríkjamanna.
Frá því er skýrt að NATO-æfingin hefjist um miðjan október á Íslandi og er vísað í heimildarmann sem segir að bandarískir landgönguliðar taki þátt í henni þar. Þetta hafi þó ekki fengið staðfest hjá bandarískum eða íslenskum yfirvöldum.
Æfingin verður reist á sviðsmynd sem gerir ráð fyrir að NATO-ríkin virki 5. gr. Atlantshafssáttmálans eftir að erlendur herafli ræðst inn í Noreg. Það er nýmæli að Svíar og Finnar taki þátt í heræfingu sem reist er á skyldu NATO-ríkja til að sýna í verki að árás á eitt þeirra sé árás á þau öll enda standa þjóðirnar utan NATO.