Home / Fréttir / Heræfingar frá Kína til Íslands á næstu vikum

Heræfingar frá Kína til Íslands á næstu vikum

nato

„Á næstu vikum hefja bæði Rússar og NATO mestu heræfingar sínar frá lokum kalda stríðsins. Hundruð þúsunda hermanna, tugir þúsunda farartækja, hundruð flugvéla og tugir herskipa taka þátt í fjölda sýndaraðgerða sem ná frá Kína til Íslands, frá Norður-Atlantshafs til Miðjarðarhafs.“

Á þessum orðum hefst löng grein á bandarísku vefsíðunni Breaking Defense þriðjudaginn 4. september eftir Paul McLeary þar sem hann segir frá Vostok-heræfingu Rússa hinni mestu þar í landi síðan 1981. Undrun vekur að um 300.000 hermenn og 900 skriðdrekar taka þátt í æfingunni. Rússar hafa einnig tryggt þátttöku 3.000 kínverskra hermanna skammt frá landamærum Kína og Mongólíu. Þá boðuðu Rússar skyndilega að efnt yrði til flotaæfingar á Miðjarðarhafi sem vekur grun um að hún sé liður í hernaði þeirra í Sýrlandi.

Í greininni er einnig fjallað um NATO-æfinguna Trident Juncture 2018 sem fer fram í Noregi í október og nóvember, stærstu æfingu NATO frá lokum kalda stríðsins. Svíar og Finnar eru einnig meðal þátttökuþjóða.

Alls taka 40.000 hermenn og aðrir frá öllum NATO-ríkjunum 29 þátt í æfingunni, 70 skip, 150 flugvélar og 10.000 landfarartæki.

Í greininni segir að ekkert hafi heyrst frá Hvíta húsinu í Washington um Trident Juncture. Greinarhöfundur fékk ekki, fyrir birtingu greinarinnar, svör við spurningum sínum til bandaríska varnarmálaráðuneytisins og NATO um kostnað við Trident Juncture eða hve mikið af honum félli í hlut Bandaríkjamanna.

Frá því er skýrt að NATO-æfingin hefjist um miðjan október á Íslandi og er vísað í heimildarmann sem segir að bandarískir landgönguliðar taki þátt í henni þar. Þetta hafi þó ekki fengið staðfest hjá bandarískum eða íslenskum yfirvöldum.

Æfingin verður reist á sviðsmynd sem gerir ráð fyrir að NATO-ríkin virki 5. gr. Atlantshafssáttmálans eftir að erlendur herafli ræðst inn í Noreg. Það er nýmæli að Svíar og Finnar taki þátt í heræfingu sem reist er á skyldu NATO-ríkja til að sýna í verki að árás á eitt þeirra sé árás á þau öll enda standa þjóðirnar utan NATO.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …