Home / Fréttir / Hér verður ekki her­seta á nýj­an leik, segir forsætisráðherra við mbl.is

Hér verður ekki her­seta á nýj­an leik, segir forsætisráðherra við mbl.is

Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók þessa mynd í Ráðherrabústaðnum 11. júní 2019 þegar Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hitti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þar.
Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins, tók þessa mynd í Ráðherrabústaðnum 11. júní 2019 þegar Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hitti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þar.

Vegna þriggja frétta sem ríkisútvarpið birti föstudaginn 21. júní og laugardaginn 22. júní um fjárveitingar Bandaríkjaþings til endurbóta á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (sjá fréttirnar hér á vefsíðunn) ræddi Snorri Másson, blaðamaður mbl.is við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Viðtalið birtist mánudaginn 24. júní og er endurbirt hér í heild:

„Þetta hef­ur legið fyr­ir tölu­vert lengi, al­veg frá því 2016, þegar ís­lensk stjórn­völd og banda­rísk skrifuðu und­ir sam­komu­lag um aukna viðveru Banda­ríkja­manna og síðan frá 2017 þegar tekn­ar voru ákv­arðanir um viðhalds­fram­kvæmd­ir í Kefla­vík,“ seg­ir Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra um áform Banda­ríkja­hers um stór­aukna upp­bygg­ingu sem fyr­ir­huguð er á veg­um hers­ins á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Að því er seg­ir á vef RÚV, sem fjallað hef­ur um málið að und­an­förnu, er um að ræða fyrstu upp­bygg­ing­araðgerðir á veg­um Banda­ríkja­hers á ís­lenskri grundu frá því að herliðið yf­ir­gaf landið árið 2006. Fyr­ir­huguð er meiri hátt­ar upp­bygg­ing, þar sem meðal ann­ars verður sett upp stækkað flug­hlað og einnig byggð upp fær­an­leg aðstaða fyr­ir her­menn. Deili­skipu­lagið á Kefla­vík­ur­flug­velli er í vinnslu.

Í breyttri fjár­mála­áætl­un sem samþykkt var á Alþingi rétt fyr­ir sum­ar­frí var kveðið á um að 300 millj­ón­um yrði varið í upp­bygg­ingu á innviðum í tengsl­um við skuld­bind­ing­ar Íslend­inga í Atlants­hafs­banda­lag­inu. Sú fjár­hæð á að verða eins kon­ar mót­fram­lag við upp­bygg­ingu Banda­ríkja­manna hér á landi. Andrés Ingi Jóns­son og Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þing­menn Vinstri grænna, sátu hjá við af­greiðslu þess hluta fjár­mála­áætl­un­ar­inn­ar en samþykktu síðan áætl­un­ina sem heild.

Auk­in hernaðar­um­svif ættu að vera Íslend­ing­um áhyggju­efni

Banda­ríkja­her ver millj­örðum í Kefla­vík

Hef­urðu áhyggj­ur af því að þetta muni auka sýni­leika hers hér á landi?

„Það er öll­um kunn­ugt um af­stöðu mina og míns flokks í því. Við erum ein flokka and­stæð veru okk­ar í Atlants­hafs­banda­lag­inu og studd­um ein­mitt ekki þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Ísland af þeim sök­um. Auðvitað er það þó svo að hún er ákveðin með lýðræðis­leg­um hætti á Alþingi og hluti af henni eru meðal ann­ars aðild­in að Atlants­hafs­banda­lag­inu og varn­ar­samn­ing­ur­inn við Banda­rík­in,“ seg­ir Katrín.

„Við ákváðum þó þegar við fór­um í þessa rík­is­stjórn að við mynd­um fylgja þess­ari stefnu. Það ligg­ur hins veg­ar fyr­ir að hér verður ekki her­seta á nýj­an leik, þrátt fyr­ir auk­in um­svif nú“ seg­ir hún.

Þó að fær­an­leg her­stöð, sem hef­ur verið rædd í þessu sam­hengi, verði ekki staðsett hér á landi með bein­um hætti, þá ger­ir fyr­ir­huguð upp­bygg­ing henni að ein­hverju leyti kleift að starfa.

„Her­stöðin verður ekki staðsett hér á landi en það ligg­ur fyr­ir að Banda­rík­in eru með víðtæka upp­bygg­ingu víðar í Evr­ópu um þess­ar mund­ir,“ seg­ir Katrín.

Vek­ur það þér ekki ugg í brjósti?

„Auk­in hernaðar­um­svif í Norður­höf­um ættu auðvitað að vera okk­ur Íslend­ing­um áhyggju­efni, ekki síst ef þau fær­ast yfir á norður­slóðir, þar sem hef­ur ríkt ákveðinn skiln­ing­ur á því að hernaðar­um­svif eigi að vera í lág­marki. En ég tel ein­mitt mik­il­vægt að við auk­um op­in­bera umræðu um ör­ygg­is- og varn­ar­mál al­mennt og ræðum þessa þróun. Við Íslend­ing­ar hljót­um að hafa áhyggj­ur af þess­ari þróun,“ seg­ir Katrín.

Reyn­ist þér erfitt flokks þíns vegna að standa við svona skuld­bind­ing­ar, meðal ann­ars vegna óánægju í gras­rót­inni?

„Það lá al­veg fyr­ir þegar við fór­um inn í þetta rík­is­stjórn­ar­sam­starf að úr­sögn úr NATO væri ekki á dag­skrá, ekki frek­ar en síðast þegar við fór­um inn. Þannig að all­ir gengu með opin aug­un inn í það,“ seg­ir Katrín.

Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir og Andrés Ingi Jóns­son þing­menn Vinstri grænna tóku séraf­stöðu í mál­inu. Virðir þú þeirra ákvörðun?

„Þau studdu nú fjár­mála­áætl­un­ina sem heild,“ seg­ir Katrín en Andrés og Rósa Björk gerðu at­huga­semd­ir við ákveðnar til­lög­ur í fjár­mála­áætl­un­inni, þó að á end­an­um hafi þau greitt at­kvæði með áætl­un­inni í heild, þar sem meðal ann­ars var kveðið á um að 300 millj­ón­um yrði varið í upp­bygg­ingu innviða hér á landi vegna skuld­bind­inga Íslands í Atlants­hafs­banda­lag­inu.

Sérðu á eft­ir því að þess­ir fjár­mun­ir fari í þetta frek­ar en aðra mála­flokka, eins og þró­un­ar­sam­vinnu?

„Þó að þetta komi svona út, ligg­ur það fyr­ir og kem­ur fram í meiri­hluta­áliti fjár­laga­nefnd­ar að okk­ar fram­lög til þró­un­ar­sam­vinnu miðast við hlut­fall af lands­fram­leiðslu. Þau fram­lög hafa verið ákvörðuð í þró­un­ar­sam­vinnu á Alþingi og verða upp­færð í takt við hana,“ seg­ir Katrín.

All­ir sátt­mál­ar um kjarn­orku­af­vopn­un í upp­námi

Hvað held­urðu að áform Banda­ríkja­hers um aukna upp­bygg­ingu á Kefla­vík­ur­flug­velli muni hafa í för með sér? Hvað þýðir þetta?

„Eins og ég hef sagt finnst mér mik­il­vægt að auka op­in­bera umræðu um þetta mál. Það hef­ur komið fram að viðvera her­manna hef­ur auk­ist hér á landi. Það er ekki eins og hér séu ekki þegar mann­virki og tölu­verð viðvera her­manna. Hún hef­ur verið mjög mik­il síðustu tvö ár. Þess vegna segi ég að það er mjög brýnt að við auk­um umræðu um þessi mál á op­in­ber­um vett­vangi, enda um­hugs­un­ar­efni fyr­ir okk­ur, sem erum staðsett hér á Norður-Atlants­hafi, þessi auknu hernaðar­um­svif,“ seg­ir Katrín.

Af hverju tel­urðu að Banda­rík­in séu að styrkja stöðu sína enn frek­ar?

„Það ligg­ur fyr­ir á síðasta NATO-fundi sem ég sat síðasta sum­ar var rík áhersla Banda­ríkja­manna á að auka fram­lög, ekki aðeins sín held­ur einnig annarra ríkja, til þess­ara mála. Það er þá greini­lega vax­andi áhuga á Norður­höf­um af þeirra hálfu,“ seg­ir Katrín. Rúss­ar hafa þar verið að sækja í sig veðrið.

Hvað rædduð þið Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri Atlants­hafs­banda­lags­ins, í þess­um efn­um?„Ég hef rætt þessi mál við Stolten­berg og ég og Mike Pom­peo ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna rædd­um þetta einnig. Þar lýsti ég þeirri skoðun ís­lenskra stjórn­valda að það væri mik­il­vægt að halda norður­slóðum sem eins friðsam­legu svæði og unnt væri. Við vild­um sporna gegn víg­væðingu á því svæði. Síðan rædd­um við kjarn­orku­af­vopn­un sér­stak­lega og við Stolten­berg rædd­um þau mál einnig, þar sem sú staða er kom­in upp að nán­ast all­ir sátt­mál­ar um kjarn­orku­af­vopn­un eru í upp­námi. Það eru sann­ar­lega blik­ur á lofti þegar kem­ur að því,“ seg­ir Katrín.

„Grund­vall­ar­stefna ís­lenskra stjórn­valda er að leita friðsam­legra lausna. Það er alltaf það sem við höld­um á lofti í okk­ar öll­um sam­skipt­um,“ seg­ir Katrín loks.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …