Home / Fréttir / Her NATO til átaka búinn – höfðað til undirbúnings almennings

Her NATO til átaka búinn – höfðað til undirbúnings almennings

Rob Bauer, flotaforingi, formaður hermálanefndar NATO.

Rob Bauer, formaður hermálanefndar NATO, segir að herafli bandalagsþjóðanna sé til taks verði allsherjarstríð við Rússa. Almennir borgarar verði einnig að búa sig undir hugsanleg átök.

„Við neyðumst til að horfast í augu við að ekki er gefið að það ríki friður. Þess vegna búum við [NATO] okkur undir átök við Rússa,“ sagði Bauer við Sky News, fimmtudaginn 18. janúar.

Hann segir að sænsk yfirvöld hafi gert rétt með því að hvetja íbúa landsins til að búa sig undir stríð.

Vísar hann þá til orða sem Carl-Oskar Bohlin, almannavarnaráðherra Svía, lét falla fyrr í mánuðinum: „Það kann að verða stríð,“ sagði ráðherrann.

Hershöfðinginn Micael Býden, yfirmaður sænska heraflans, tók undir með ráðherranum þegar hann sagði við sjónvarpsstöðina TV4:

„Allir Svíar verða að búa sig undir stríð. Hver og einn verður að undirbúa sig andlega og líta í eigin barm og spyrja hvort hann sé klár og undirbúinn.“

Yfirmenn herafla NATO-ríkjanna, Svíþjóðar og samstarfsríkja í Asíu og annars staðar funduðu í Brussel nú í vikunni. Þar var meðal annars lagt á ráðin um framkvæmd stærstu heræfingar sem NATO hefur skipulagt frá lokum kalda stríðsins. Æfingin hefst í febrúar og stendur út maí. Tilgangur hennar er að sýna Rússum fælingarmátt NATO.

Æfingin ber heitið Steadfast Defender 2024. Hún var kynnt til sögunnar í fyrra en umfang hennar hefur meira en tvöfaldast á undirbúningstímanum og er nú reiknað með þátttöku um 90.000 hermanna, 1.100 bryndreka, 80 flugvéla og 50 skipa. Öll NATO-ríkin 31 taka þátt í æfingunni auk Svíþjóðar.

Minnt er á að mjög hafi gengið á birgðir vopna og skotfæra í NATO-löndunum vegna stríðsins í Úkraínu og það muni taka mörg ár að fylla í skörðin haldist vopnaframleiðsla óbreytt frá því sem nú er.

Rússar hafa þrefaldað útgjöld sín til hermála undanfarin misseri og nema þau nú 40% af fjárútgjöldum ríksins. Þá hafa þeir einnig stóraukið alla hergagnaframleiðslu.

„Við verðum að vera í betri viðbragðsstöðu á öllum sviðum,“ sagði hollenski flotaforinginn Bauer.

„Það verður að vera til staðar kerfi sem virkjar fleira fólk komi til stríðs, hvað svo sem verður. Þá kemur til herkvaðningar, varaliða eða þeirra sem eru undir herskyldu.

Það verður að vera unnt að treysta á iðnað og fyrirtæki sem geta framleitt vopn og skotfæri nógu hratt til að unnt sé að berjast áfram komi til átaka.“

Bauer sagði að landher Rússa hefði farið mjög illa í stríðinu í Úkraínu en geta flotans og flughersins væri „umtalsverð“.

Hann sagði að efnahagslegar refsiaðgerðir Vesturlanda þrengdu að rússneskum stjórnvöldum þegar þau reyndu endurstyrkja herafla sinn en þeim hefði samt tekist að halda áfram framleiðslu á fallbyssuskotfærum og flugskeytum.

Bauer sagði að lítið breyttist á vígvellinum í Úkraínu þrátt fyrir að ákaft væri barist, víglínan hreyfðist „ekki mikið í eina átt eða aðra“.

„Þótt nýlegar árásir Rússa valdi miklu tjóni hafa þær ekki hernaðarlegt gildi,“ sagði Bauer og hvatti þá sem styðja Úkraínu að vera ekki „alltof svartsýna“ þegar þeir mætu framtíð stjórnarinnar í Kyív í stríðinu.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …