Home / Fréttir / Henry Kissinger um lyktir stríðs í Úkraínu

Henry Kissinger um lyktir stríðs í Úkraínu

Henry Kissinger

Fyrsta heimsstyrjöldin var einskonar menningarlegt sjálfsmorð sem eyðilagði upphefð Evrópu, segir Henry Kissinger (99 ára) í upphafi greinar í vikuritinu Spectator sem dagsett er 17. desember. Greinin ber fyrirsögnina: Að komast hjá þriðju heimsstyrjöldina.

Kissinger segir að í fyrstu heimsstyrjöldinni hafi Evrópuþjóðirnar valdið hver annarri óbærilegu tjóni vegna þess að þær vissu ekki til fulls hve mikið herir þeirra hefðu styrkst með nýrri tækni. Á árinu 1916 leituðu báðir aðilar stríðsins fyrir sér um frið en þar sem engin hugsanleg málamiðlun gat réttlætt fórnirnar sem þegar höfðu verið færðar og enginn vildi sýna nein merki um veiklyndi hófst ekki formlegt friðarferli milli stríðandi fylkinga. Þá var leitað aðstoðar hjá Bandaríkjastjórn. Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti var fús til að miðla málum en fyrst yrði hann að sigra í forsetakosningum sem stóðu fyrir dyrum í nóvember 1916. Að þeim loknum höfðu tvær milljónir hermanna fallið til viðbótar í sókn Breta við Somme og Þjóðverja við Verdun.

Fyrsta heimsstyrjöldin var háð áfram í tvö ár og kostaði enn milljónir mannslífa. Allt jafnvægi raskaðist í Evrópu, byltingar urðu í Þýskalandi og Rússlandi og Austurríska keisaradæmið leið undir lok.

Kissinger spyr hvort nú á tímum standi heimurinn á sambærilegum tímamótum þegar vetur í Úkraínu geri hlé á meiriháttar hernaðaraðgerðum þar. Hann segist ítrekað hafa lýst stuðningi við hernaðarlega aðstoð bandamanna Úkraínu til að stöðva innrás Rússa. Brátt sé tímabært að taka mið af strategískum breytingum og nýta þær til að ná friði með viðræðum.

Nú hafi Úkraína í fyrsta sinn í nútímasögu orðið meiriháttar ríki í Mið-Evrópu. Með aðstoð bandamanna sinna og innblæstri forseta síns Volodymyrs Zelenskíjs hafi Úkraínumönnum tekist að setja hefðbundnum herafla Rússa skorður en hann hafi hvílt eins og mara á Evrópu frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar. Og alþjóðakerfið – þar með taldir Kínverjar – andmæli hótunum Rússa um að beita kjarnavopnum.

Úkraínumenn ráða nú yfir stærsta og öflugasta landher í Evrópu með búnaði frá Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra, segir Kissinger. Friðarferli hverju nafni sem nefnist eigi að tengja Úkraínu við NATO. Að velja landinu hlutleysi sé ekki lengur kostur, einkum eftir að Finnar og Svíar ganga í NATO.

Kissinger segir að markmið friðarferlis eigi að verða tvíþætt: að tryggja frelsi Úkraínu og skilgreina nýja alþjóðlega skipan, einkum fyrir mið- og austurhluta Evrópu. Rússar muni að lokum finna sér stað innan slíks ramma.

Hann segist ósammála þeim sem vilji að Rússar verði gerðir máttvana í stríðinu. Þeir hafi skipt miklu fyrir hnattrænt jafnvægi og valdajafnvægi í meira en 500 ár. Það eigi ekki að gera lítið úr sögulegu hlutverki þeirra. Hrakfarir Rússa í Úkraínu hafi ekki breytt stöðu þeirra sem hnattræns kjarnorkuveldis. Yrði Rússland brotið upp kæmi til sögunnar risavaxið tómarúm sem spannar 11 tímabelti. Þar vildu ólík samfélög hugsanlega leysa úr ágreiningi sínum með valdbeitingu. Önnur ríki kynnu að láta sig málið varða og beita valdi í þágu eigin hagsmuna. Við allt þetta bættist síðan hættan af þúsundum kjarnavopna sem gera Rússland að öðru stærsta kjarnorkuveldi heims.

Kissinger segir að þegar hugað sé að lyktum þessa stríðs eigi einnig að leiða hugann að áhrifum hátækni og gervigreindar á átökin og hernaðarstefnu til langs tíma. Sjálfstýrð vopn séu þegar fyrir hendi, þau geti greint, metið og miðað á það sem þau sjálf telja hættulegt, þau geti þess vegna sjálf hafið eigið stríð.

Ekki séu enn til neinar hernaðarkenningar sem nái til þess sem kunni að gerast þegar farið sé inn í þennan hátækniheim og tölvur hafi mest um framkvæmd hernaðarstefnunnar að segja. Hvert verður hlutverk leiðtoga þegar tölvur taka af skarið í hernaði á þann veg að maðurinn má sín lítils andspænis þeim? Hvernig er unnt að standa vörð um siðmenninguna við þessar aðstæður? spyr Kissinger.

Hann segir að það sé eins mikilvægt að átta sig á tengslunum milli háþróaðrar tækni og hernaðarkenninga til að hafa stjórn á henni eða jafnvel skilja áhrif hennar til fulls eins og að átta sig á loftslagsbreytingum og til þess þurfi leiðtoga sem hafi bæði þekkingu á tækni og sögu.

Í lok greinar sinnar segir Henry Kissinger að í sókninni eftir friði og reglu skipti tveir þættir máli og stundum sé litið á þá sem andstæður: leitin að því sem tryggir öryggi og skilyrði þess að sættir takist. Náist ekki hvoru tveggja, náist hvorugt. Diplómatíska leiðin kunni að virðast flókin og harðsótt. Ferðin takist ekki nema bæði með glöggskyggni og hugrekki.

 

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …