Home / Fréttir / Helsinki: ÖSE-þing spillir samskiptum Rússa og Finna

Helsinki: ÖSE-þing spillir samskiptum Rússa og Finna

Sauni Niinistö Finnlandsforseti setur ÖSE-þingið í Helsinki.
Sauni Niinistö Finnlandsforseti setur ÖSE-þingið í Helsinki.

 

Nikolai Kovalev er eini rússneski þingmaðurinn sem situr 40 ára afmælisfund þings Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Helskini sem hófst mánudaginn 6. júlí. Hann kom klukkustund of seint til fundarins og gagnrýndi afgreiðslu finnskra stjórnvalda sem leiddi til að rússneskum þingmönnum, þar á meðal forseta neðri deildar þingsins, Dúmunnar, var bannað að sitja ÖSE-þingið þar sem þeir væru á ferðabannlista ESB. Taldi hann að þetta mundi spilla tengslum Finna og Rússa.

Ferðabann ESB var sett vegna íhlutunar Rússa í málefni Úkraínu. Til að koma til móts við Rússa könnuðu Finnar hvort aflétta mætti banninu vegna þessa fundar en tilmælum um það var hafnað. Kovalev var hinn eini sem kom frá Moskvu. Hann sagðist aðeins ætla að sitja hluta fundarins til að árétta samstöðuvilja með hinum bannfærðu samlöndum sínum.

„Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á samskipti Finna og Rússa,“ sagði Kovalev. „Finnar hafa brotið gegn anda fyrstu ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu fyrir 40 árum og þeim venjum sem þá mótuðust. Þetta er vont fordæmi af því að nú getur hvaða land sem er bannað einhverjum að sækja fundi.“

Finnar lögðu sig mjög fram um að fá að halda þennan fund þar sem rétt 40 ár eru síðan leiðtogafundur CSCE (Conference on Security and Co-operation in Europe) – ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu – var haldin í Helsinki og 35 þjóðarleiðtogar rituðu undir Helsinki-sáttmálann. Síðar varð til OSCE (Organization on Security and Co-operation in Europe), ÖSE, á grundvelli sáttmálans.

Um 300 þingmenn frá rúmlega 50 ríkjum sitja fund ÖSE-þingsins í Helsinki sem síðast var haldið þar árið 1993.

Á vefsíðu alþingis segir að þingmennirnir Elsa Lára Arnardóttir (F) og Guðmundur Steingrímsson (Bf) sitji fundinn í Helsinki.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …