Home / Fréttir / Helsinki: Íraskir hælisleitendur með áreitni á nýársnótt – lögreglustjórinn í Köln rekinn

Helsinki: Íraskir hælisleitendur með áreitni á nýársnótt – lögreglustjórinn í Köln rekinn

Nýárs-flugeldar í Helsinki.
Nýárs-flugeldar í Helsinki.

Finnska lögreglan skýrði frá því fimmtudaginn 7. janúar að óvenju mikið hefði verið um kynferðislega áreitni í Helsinki á nýársnótt. Lögreglan sagðist einnig hafa fengið ábendingar um að hópar hælisleitenda hefðu áform um að sýna konum kynferðislega áreitni.

„Aldrei fyrr höfum við orðið varir við slíka áreitni á nýársnótt eða raunar í annan tíma… Þetta er algjört nýmæli hér í Helsinki,“ sagði Ilkka Koskimaki, vara-lögreglustjóri í Helsinki, við AFP-fréttastofuna.

Ralf Jäger, innanríkisráðherra Nordrhein-Wesrfalen í Þýskalandi (SPD), rak Wolfgang Albers (60 ára), lögreglustjóra í Köln, úr embætti föstudaginn 8. janúar. „Ákvörðun mín er óhjákvæmileg á þessari stundu til að tryggja traust almennings í garð lögreglunnar í Köln og til að endurheimta starfsfrið hennar – einnig með hliðsjón af næstu stórviðburðum,“ sagði Jäger og vísaði þar til karnivalsins í Köln í byrjun febrúar.

Lögreglustjórinn sætti sívaxandi gagnrýni vegna framgöngu lögreglunnar við brautarstöðina í Köln á nýársnótt. Henriette Reker, borgarstjóri í Köln (utan flokka), hvarf einnig frá stuðningi við yfirstjórn lögreglu borgarinnar föstudaginn 8. janúar. Hún telur að Albers hafi ekki sagt sér rétt frá því sem gerðist í næturátökunum og það hafi leitt til trúnaðarbrests.

Það var ekki fyrr en mánudaginn 4. janúar sem lögreglustjórinn skýrði opinberlega frá því sem gerðist aðfaranótt föstudags 1. janúar þegar hópar ungra manna úr hópi farandfólks efndu til óláta og ofbeldis í 1.000 manna hópi fyrir framan brautarstöðina. Þeir stálu af vegfarendum og beittu konur kynferðislegu ofbeldi.

Albers sagði síðdegis föstudaginn 8. janúar að hann skildi ákvörðun innanríkisráðherrans. Hin opinbera umræða um sig sem lögreglustjóra og viðbrögð sín kynni að íþyngja lögreglunni við störf hennar. Nú skipti mestu að endurheimta traust í garð lögreglunnar.

Lögreglan í Köln handtók tvo menn „innflytjendur að uppruna“ í tengslum við kynferðislega ofbeldið. Annar mannanna hafði á sér bréfmiða þar sem skrifuð voru orð eða setningar á þýsku og arabísku eins og: „Falleg brjóst“, „Ég vil sofa hjá þér“, og „Ég ætla að drepa þig“. Mönnunum var sleppt vegna skorts á sönnunum.

Kölnarlögreglan hefur 31 undir grun og eru 18 þeirra hælisleitendur, segir þýska innanríkisráðuneytið. Þeir eru ekki grunaðir um kynferðislegt ofbeldi heldur líkamsárásir og þjófnað. Í hópnum eru níu Alsísbúar, átta Marokkómenn, fjórir Sýrlendingar, fimm Íranir, tveir Þjóðverjar, Íraki, Serbi og Bandaríkjamaður.

Öryggisverðir sem voru á vakt í Helsinki á nýársnótt sögðu lögreglu að meðal um 20.000 manns sem komu saman til að fagna nýju ári á aðaltorgi borgarinnar hefði mátt sjá mörg dæmi um kynferðislega áreitni.

Tilkynnt var um þrjú kynferðisleg ofbeldisverk í aðaljárnbrautarstöðinni í Helsinki þessa nótt. Þar voru um 1.000 hælisleitendur, einkum frá Írak. Lögreglan segir að tvær tilkynninganna hafa leitt til kæru og rannsóknar. Í yfirlýsingu lögreglunnar sagði: „Hinir grunuðu eru hælisleitendur. Mennirnir þrír voru handteknir á staðnum og settir í varðhald.“

Lögreglan segir að hún hafi gert „sérstakar ráðstafanir“ í Helsinki vegna ábendinga um að hætta væri á ofbeldisverkum á nýársnótt. „Fyrir nýársnótt bárust lögreglunni upplýsingar um að hælisleitendur í höfuðborginni hefðu ef til vill svipað á prjónunum og karlmennirnir sem komu saman við brautarstöðina í Köln voru sagðir hafa,“ sagði lögreglan í yfirlýsingu sinni.

Koskimaki sagði að lögreglan sæi ekki tengsl milli atburðanna í Köln og Helsinki.

Skömmu fyrir nýársdag handtók finnska lögreglan sex Íraka í heimili fyrir hælisleitendur í Kirkkonummi fyrir vestan Helsinki og voru þeir grunaðir um að „hvetja til afbrota á almannafæri“. Þeim var sleppt laugardaginn 2. janúar.

Koskimaki sagði að handtökurnar hefðu tengst upplýsingum sem lögreglan fékk í aðdraganda nýársnætur. Í nóvember sögðu finnsk yfirvöld að um 10 hælisleitendur væru grunaðir um nauðganir – alls voru rúmlega 1.000 nauðganir kærðar til finnsku lögreglunnar árið 2015.

Íbúar Finnland eru 5,4 milljónir. Rúmlega 32.000 leituðu þar hælis árið 2015, einkum Írakar, næstum 10 sinnum fleiri en á árinu 2014.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …