Home / Fréttir / Helsinki-háskóli lokar Konfúsíusarstofnun

Helsinki-háskóli lokar Konfúsíusarstofnun

Merki Konfíusarstonunarinnar Norðurljósa

Helsinki-háskóli rifti í vikunni samningi um að Konfúsíusarstofnun starfaði innan skólans. Stofnunin sérhæfir sig í að kenna kínversku og miðla fróðleik um kínverska menningu.

Hanna Snellman aðstoðarrektor segir við finnska ríkisútvarpið, YLE, að kínversk stjórnvöld hafi viljað halda áfram að fjármagna starfsemi stofnunarinnar.

„Þeir spurðu hvort við vildum semja um framhald samstarfsins. Við sögðum nei,“ sagði hún.

Stofnuninni hefur verið haldið úti við Helskinki-háskóla í 15 ár en samningurinn um hana rennur út í janúar 2023.

Í frétt YLE segir að fleiri en Finnar hafi ákveðið að segja skilið við Konfúsíusar-samstarfið. Stjórnendur tuga vestrænna háskóla hafi stigið þetta skref vegna grunsemda um að Konfúsíusarstofnanirnar séu áróðurstæki kínverskra stjórnvalda. Svíar og Danir eru meðal þeirra sem slitið hafa þessu samstarfi.

„Við viljum velja kennara okkar sjálf og ráða þá til starfa. Við viljum einnig að kennsla í kínversku sé reist á rannsóknum,“ segir Snellman.

Kínverska sendiráðið hafði samband við stjórnendur Helskinki-háskóla í því skyni að endurnýja samninginn um stofnunina

Snellman segir að háskólayfirvöld hafi þegar ráðið tvo kennara í kínversku.

Hér á landi starfar Konfúsíusarstofnunin Norðurljós sem kynnir sig á þennan hátt á vefsíðu sinni:

„Konfúsíusarstofnunin Norðurljós var stofnuð árið 2008 með samstarfsamningi Háskóla Íslands, Ningbo háskóla og Hanban – síðar Miðstöðvar kínverskukennslu og alþjóðasamvinnu í Beijing.

Tilgangur stofnunarinnar er kínverskukennsla og að stuðla að aukinni fræðslu á meðal Íslendinga um tungu, menningu og samfélag Kína með námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum, kvikmyndasýningum og öðrum viðburðum. Stofnunin er kennd við kínverska heimspekinginn Konfúsíus og norðurljósin, sem þykja einkenna Ísland, en Konfúsíusarstofnanir eru starfræktar víða um heim.“

Í frétt YLE segir að grunsemdir séu um að starfsmenn sem kínverska ríkisstjórnin skipar til starfa í stofnununum flytji áróður í þágu kínverskra stjórnvalda og reyni að gefa Vesturlandabúum ranga mynd af kínversku samfélagi.

Segir YLE að fyrir tveimur árum hafi útvarpsstöðin gert úttekt á Konfúsíusarstofnuninni í Helsinki og þar hafi komið fram að innan stofnunarinnar væri reynt að takmarka umræður um mál sem kínverski kommúnistaflokkurinn vill að séu í þagnargildi eins og t.d. um Tíbet.

Konfúsíusarstofnunin í Helsinki kom til sögunnar 2007. Háskólayfirvöld völdu forstöðumann stofnunarinnar og greiddu laun hans en kínversk stjórnvöld skipuðu og greiddu laun varaforstöðumanns og þriggja tungumálakennara.

YLE segist hafa upplýsingar um að háskólayfirvöld í Helsinki hafi talið hlutverk varaforstöðumannsins utan ramma þess sem hæfi starfsmönnum háskóla auk þess hafi tengslin við kínverska sendiráðið verið of mikil.

 

Skoða einnig

ESB fagnar Úkraínu – skjaldar Litháen

Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna 27 voru einhuga á fundi þriðjudaginn 21. júní um að Úkraína fengi stöðu …