
.
Alls hafa 2.899 farand- og flóttamenn drukknað við tilraun til að komast yfir Miðjarðarhaf til Evrópu frá áramótum. Þessar tölur birti International Organiztion for Migration (IOM) föstudaginn 1. júlí en þær sýna að fleiri hafi farist í ár en á sama tíma í fyrra.
Fjölgun dauðsfalla milli ára er um 50%, 2899 í ár í samanburði við 1.838 í fyrra. Árið 2014 fórust 743 á fyrstu sex mánuðum ársins.
Joel Millman, talsmaður IOM, sagði við Thomson Reuters-fréttastofuna að það væri átakanlegt að nærri 3.000 manns hefðu farist í ár.
Hann sagði að engu að síður hefðu áhafnir evrópskra skipa bjargað þúsundum manna á árinu en hinn mikli fjöldi látinna sýndi að enn mætti gera betur.
Millmsan sagðist ekki vænta þess að þeim fækkaði sem reyndu að komast yfir Miðjarðarhaf þar sem ástandið í Líbíu, Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum löndum batnaði líklega ekki á næstu mánuðum.
Alls komu 225.665 aðkomumenn sjóleiðis til Ítalíu, Grikklands, Kýpur og Spánar á fyrri helmingi ársins. Meginstraumurinn var til Ítalíu og flestir fórust á leið þangað, tæplega 2.500 manns.
IOM segir að á þessum tíma í fyrra hafi rétt rúmlega 146.000 manns komið sjóleiðis til Evrópu.
Fimmtudaginn 30. júní fórust 10 konur þegar gúmmíbátur sökk undan strönd Líbíu en ítalskt skip bjargaði hundruð manns sagði ítalska strandgæslan.