Home / Fréttir / Heimsslitaspá Bidens milduð

Heimsslitaspá Bidens milduð

Vladimir Pútin Rússlandsforseti varð 70 ára föstudaginn 7. október 2022. Myndin er tekinn á útihátíð 30. september.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði fimmtudaginn 6. október á fjáröflunar-kosningafundi demókrata að ekki ætti að taka það „sem grín“ þegar Vladimir Pútin Rússlandsforseti talaði um að hugsanlega yrði vígvallar-kjarnavopnum, sýkla- eða efnavopnum beitt í Úkraínu.

Biden sagði að herliði Rússa „vegnaði illa“ og Bandaríkjamenn reyndu að „ýta Pútin til hliðar“ í stríðinu.

„Við höfum ekki staðið frammi fyrir sambærilegum líkum á Ragnarökum frá því á tíma Kennedys og Kúbu-eldflaugadeilunnar,“ sagði Biden.

Föstudaginn 7. október sagði Karine Jean-Pierre, blaðafulltrúi Bandaríkjaforseta, að ekkert benti til að „Rússar [undirbyggju] tafarlausa beitingu kjarnavopna“. Bandaríkjastjórn sæi ekki ástæðu til að breyta neinu varðandi eigin kjarnavopn, fyrir Biden vekti aðeins að vekja athygli á „hve alvarlega“ hann liti málflutning Pútins.

Jean-Pierre lagði áherslu á bandarískar leyniþjónustustofnanir hefðu ekki breytt mati sínu. Þær hafa um nokkurra vikna skeið sagt að ekki sjáist nein merki um að Pútin ætli að beita kjarnavopnum fyrirvaralaust.

Volodymyr Zelenskíj sat föstudaginn 7. október fyrir svörum hjá Lowy stofnuninni í Ástralíu. Þá var hann spurður hvað NATO ætti að gera til að fæla Rússa frá því að beita kjarnavopnum. Forsetinn sagði að NATO ætti að „gera Rússum ókleift að beita kjarnavopnum“ með „forvarnarárásum svo að þeir viti hvað komi fyrir þá geri þeir það“.

Serhij Nikiforov, talsmaður Zelenskíjs, sagði föstudaginn 7. október að forsetinn mundi aldrei biðja NATO um að beita kjarnavopnum að fyrra bragði gegn Rússum til að hindra þá í að nota eigin kjarnavopn. Hann hefði á hinn bóginn hvatt til frekari refsiaðgerða gegn Rússum eins og hefði átt að gera fyrir innrás Rússa 24. febrúar 2022.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …