
Höfin verða nú að nýju þungamiðja í geostrategíu eða þar sem stjórnmál og landafræði tengjast á þann hátt að snertir lífshagsmuni heimsvelda. Nú er staðan sú eftir nokkurt hlé og í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins að höfin eru að nýju orðin vettvangur þar sem reynir á samskipti voldugra ríkja sem efla til muna herflota sinn, einkum í Asíu. Spennu- eða hugsanleg átakasvæði teygja sig frá Atlantshafi um Indlandshaf til Suður-Kínahafs, þau er að finna í Aden-flóa og á Austur-Miðjarðarhafi. Þá gerðist það undir lok janúar á Rauðahafi að uppreisnarmenn í Jemen hikuðu ekki við að ráðast á freigátu frá Sádí-Arabíu.
Með þessum orðum hefst löng úttekt í franska blaðinu Le Figaro eftir Alain Barluet mánudaginn 27. febrúar um það sem blaðið kallar „einstæða“ endurhervæðingu á höfunum. Þar segir að á undanförnum fjórum árum hafi Kínverjar tekið 80 ný herskip í notkun, þar á meðal eitt flugmóðurskip og þrjá kjarnorkukafbáta. Sé litið á tonnatölu eigi Kínverjar nú annan stærsta herflota heims og þeir ætli að standa jafnfætis Bandaríkjamönnum árið 2025.
Indverjar eiga eitt flugmóðurskip, Vikramaditya, sem þeir fengu árið 2013 frá Rússum og stefna að því að eiga þrjú árið 2030 svo að þeir hafi burði til að halda stöðugt úti einni flotadeild með flugmóðurskipi. Fyrir 20 árum var kafbátafloti Rússa úr sér genginn en hefur gengið í endurnýjun lífdaga og komist í fremstu röð að nýju. Það má rekja til gamallar þekkingar, frábærra flotaskóla og rúmra fjárveitinga.
Um þessar mundir vinna Rússar að smíði þriggja nýrra tegunda kafbáta samtímis.
Þar ber fyrst að nefna langdræga kafbáta af Boreij-gerð, þrír eru þegar á siglingu og fimm til viðbótar í smíðum. Þá skal nefna kjarnorkuknúinn árásarkafbát af Iassen-gerð, Severodvinsk, en ætlunin er að auk hans verði sex eða sjö slíkir bátar smíðaðir. Loks eru svo Kilo-kafbátarnir af hefðbundinni gerð, sex slíkir komu til sögunnar í Svartahafsflotanum á árunum 2014 til 2016. Herskipafloti Rússa eldist á hinn bóginn og efast má um úthald hans.
Alain Barluet segir að hervæðingin hafi leitt til aukinna umsvifa á öllum heimshöfunum. Þessi þróun er í andstöðu við það sem margir spáðu eftir hrun Sovétríkjanna. Það setur svip sinn á andvaraleysi Vesturlanda á þessu sviði, þar töldu margir sérfræðingar, einkum í Bandaríkjunum og Bretlandi, að framvegis yrðu höfin til frjálsrar, hindrunarlausrar og friðsamlegrar farar fyrir alla og ekki væri ástæða til að búa sig undir átök á úthöfunum. Þessi skoðun leiddi meðal annars til þess að Bretar minnkuðu mjög herflotastyrk sinn.
Nú er staðan ekki lengur sú að menn sjái mikinn „ávinning friðar“ á höfunum eins og spáð var að yrði. Kínverjar, Indverjar, Rússar, Japanir, Suður-Kóreumenn og Ástralir færa sér nú, auk annarra, í nyt að hætt var að skilgreina ýmis stór hafsvæði sem hernðaðarlega mikilvæg í lok kalda stríðsins og leitast þjóðirnar við að fylla tómarúm sem myndaðist þá. Mikil og hörð keppni er um ítök á slíkum svæðum þar sem ríki geta reynt kraftana og jafnvel ógnað hvert öðru fjarri sjónvarpsmyndavélum og án þess að valda tjóni á almennum borgurum. Þá blómstra sjóræningjar víða eins og á Guineu-flóa. Þeir þurfa ekki annað en bátkríli og vélbyssu til að mega sín mikils.
Æ oftar sjást herskip frá Asíu á siglingu á Atlantshafi og Miðjarðarhafi. Rússar halda stöðugt úti flota á þessum höfum eins og á tíma kalda stríðsins. Ákvörðun Rússa um að endurreisa flotastöð sína í Tartous í Sýrlandi sýnir að þeir vilja að nýju hafa fótfestu á strategískum stöðum og geta sótt þaðan að mikilvægum siglingaleiðum. Kínverjar hafa nú eignast flotastöðvar við Indlandshaf, í Djiboutií Afríku og í Gwadar í Pakistan. Framganga Kínverja á Suður-Kínahafi og brot þeirra þar á alþjóðalögum ógnar fullveldi ríkja á svæðinu.
Í nýjustu Hvítbók Kínverja (2015) kemur skýrt fram að þeir ætla að leggja höfuðáherslu á breyta sér úr meginlandsveldi í flotaveldi. Þeir hafa sett sér það markmið að árið 2050 veiti kafbátar þeirra og flugmóðurskip þeim styrk til að láta að sér kveða á öllum höfum heims og til að „geta brugðist á hvaða stundu sem er við hvaða ástandi sem er“.
Þessi áform Kínverja um flotavæðingu valda Bandaríkjamönnum áhyggjum þótt floti þeirra sé öflugasti herfloti heims. Bent er á vinsæla skáldsögu, Ghost Fleet, og sagt að þar sé ef til vill að finna lýsingu á framtíðátökum á Kyrrahafi.Þau hefjast með nýrri árás á Pearl Harbor, að þessu sinni með Kínverja í hlutverki Japana árið 1941. Í bandaríska varnarmálaráðuneytinu hafa menn lýst sérstökum áhyggjum af öryggi herstöðva á landi sem gætu orðið skotmörk á svæði sem fellur innan drægni kínverska hersins.
Þessar áhyggjur ýta meðal annars undir óskir um aukinn herflotastyrk og fjölgun flugmóðurskipa sem sem ekki er eins auðvelt að „meðhöndla“ og herstöð á landi. Frakkar velta nú fyrir sér að smíða annað flugmóðurskip við hliðina á Charles de Gaulle, eina flugmóðurskipi þeirra.
Alain Barulet segir að franski herflotinn sé nú talinn skipa annað sæti í samanburði herflota heims og sé þá tekið tillit til aðhliða getu flotans, þekkingar og reynslu innan hans og viðveru skipa úr honum í öllum heimsálfum – umsvifasvæði franska herflotans er stærra en 11 milljónir ferkílómetra.
Frá árinu 1972 hafa Frakkar stöðugt og án rofs haldið úti kafbátum með langdrægum eldflaugum sem sveima um undirdjúp heimshafanna. Til að tryggja þessa samfellu halda Frakkar úti fjórum langdrægum, kjarnorkuknúnum kafbátum.
Í Le Figaro er sagt frá einum þeirra, Le Triomphant, við bryggju á Île-Longue skammt frá Brest á Bretagne-skaga. Báturinn er 14.000 tonn, búinn 16 M 51 eldflaugum með kjarnaodda. Um 100 menn eru í áhöfninni, þeir eru um það bil 70 daga í hverjum leiðangri um heimshöfin á nokkur hundruð metra dýpi. Markmiðið er að ekki sé unnt að fylgjast með ferðum bátsins, þess vegna er hann sambandslaus á ferð sinni nema Frakklandsforseti þurfi að senda honum fyrirmæli um að ræsa eldflaugar sínar.