Home / Fréttir / Heimsfaraldrar dafna í lokuðum einræðisríkjum

Heimsfaraldrar dafna í lokuðum einræðisríkjum

Anders Fogh Rasmussen
Anders Fogh Rasmussen

Anders Fogh Rasmussen, fyrrv, forsætisráðherra Danmerkur og fyrrv. framkvæmdastjóri NATO, birti þriðjudaginn 24. mars grein á vefsíðu danska blaðisins Jyllands-Posten þar sem hann lýsir skoðun sinni á áhrifum hennar á stöðuna á alþjóðavettvangi. Hér hefur greinin verið lauslega þýdd á íslensku:

Kórónafaraldurinn hófst í Kína. Lokuð einræðisstjórn, þrýstingur á fjölmiðla og hindranir til að útiloka frjálsa miðlun á upplýsingum töfðu fyrir baráttu gegn faraldrinum.

Það nægir að leiða hugann að lækninum sem uppgötvaði þessa nýju veiru og yfirvöldin skipuðu honum að þegja. Þessi hneykslanlega framganga kínverskra yfirvalda ætti að verða til þess að allir átti sig á hættunni af einræðisríkjum – einnig þegar heilbrigði á í hlut. Engu að síður reyna Kínverjar svo að nýta sér kóróna-hættuástandið til að styrkja hnattræn áhrif sín.

Danska ríkisstjórnin hefur stigið áhrifamikil skref til að draga úr útbreiðslu kórónasmits. Danir urðu fyrsta þjóðin í ESB til að taka upp landamæraeftirlit. Það var bráðnauðsynleg ráðstöfun.

Okkur er ófært pólitískt og sálrænt að afla stuðnings við öflugar takmarkanir á frelsi fólks til að hreyfa sig ef við leyfum samtímis frjálsa för yfir landamærin. Íhlutun ríkisstjórnarinnar er fyllilega réttmæt. Ég kann að meta virka forystu forsætisráðherrans við þessar aðstæður – og einnig stuðning stjórnarandstöðunnar við aðgerðirnar.

Þá hefur einörð framganga ríkisstjórnarinnar áréttað máttleysi ESB. Það var ekki fyrr en viku eftir viðbrögð Dana sem leiðtogar ESB-ríkjanna urðu sammála: að loka ytri landamærunum samhliða lokun eða takmörkun umferðar um innri landamæri.

Þetta er einfaldlega of máttlaust og of seint. Hverjum og einum hefði átt að vera ljóst hvað átti að gera og hvað yrði gert. ESB hefði átt að bregðast við með hraði og á virkan hátt. Nú sýndi ESB innri sundrung og máttleysi. Og ágreiningurinn milli ESB og Bandaríkjanna birtist þegar Trump forseti lokaði á allar ferðir frá flestum Evrópuríkjum til Bandaríkjanna – án þess einu sinni að eiga samráð við evrópska leiðtoga.

Það er þessi sundrung meðal frjálsra þjóða heims sem kínverskir kommúnistar eru meistarar í að nýta sér. Með réttu ætti kínverska ríkisstjórnin að sæta ámæli allra þjóða heims fyrir leyndarhyggju sína. Í stað þess er stjórninni hrósað fyrir hörkuna sem hún sýndi til að hindra útbreiðslu veiru í Kína eftir að kerfið seint og um síðir viðurkenndi vandamálið.

Á dögunum rak kínverska stjórnin nokkra bandaríska blaðamenn úr landi. Það leiðir vafalaust til enn meiri leyndar í Kína. Og kommúnistana í Beijing skiptir meiru að halda Tævan utan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en að tileinka sér jákvæða reynslu Tævana af því að takast á við kórónaveiruna.

Við þessar aðstæður hafa Kínverjar vinsamlega boðist til að aðstoða evrópskar þjóðir í neyð. Ítalir þiggja öndunarvélar, grímur og verndarbúnað auk sérfræðinga í heilbrigðismálum. Serbar hafa beðið um aðstoð frá Kína og jafnframt gagnrýnt ESB fyrir að hindra útflutning á lækningatækjum.

Önnur Evrópuríki munu óska eftir aðstoð á næstunni. Það er skiljanlegt við björgun mannslífa. Þetta beinir hins vegar athygli að sundrung Evrópu og Bandaríkjanna og máttleysi.

Sæki kórónaveiran hart gegn Afríkubúum munu Kínverjar vafalaust styrkja stöðu sína sem bjargvættur og frelsari í Afríku. Og þegar hættan er gengin um garð verða margar þjóðir í vandræðum vegna skorts á fjármunum til að ýta úr vör að nýju. Þá verða Kínverjar tilbúnir með strategískar fjárfestingar. Þegar frjálsar þjóðir heims einbeita sér að vanda á heimavettvangi helga Kínverjar sig hnattrænum markmiðum sínum.

Í þessu felst ekki að við eigum að hafna samvinnu við Kínverja. Kórónafaraldurinn hefur þvert á móti sýnt að við þörfnumst aukins alþjóðlegs samstarfs. Við þörfnumst hins vegar einnig bandalags frjálsra lýðræðisþjóða heims sem geta staðið saman, veitt hver annarri aðstoð og skapað nauðsynlegt mótvægi gegn forræðisstjórnum í heiminum.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …