Home / Fréttir / Heimkomnir vígamenn vinna hryðjuverk í borgum Evrópu

Heimkomnir vígamenn vinna hryðjuverk í borgum Evrópu

 

Vígamenn Daesh sjást hér á æfingu á þessari áróðursmynd samtakanna.
Vígamenn Daesh sjást hér á æfingu á þessari áróðursmynd samtakanna.

Hryðjuverkið í Barcelóna fimmtudaginn 17. ágúst hefur enn orðið til þess að beina athygli manna að ógninni sem steðjar af Daesh (Ríki íslams) sem nú er í dauðateygjunum í Írak og Sýrlandi. Liðsmenn þess hafa hótað að leita hefnda í Evrópu og taka nú á sig ábyrgð á blóðbaðinu í Barcelóna.

Talið er að mill fimm og sex þúsund Evrópumenn hafi gengið til liðs við Daesh í Írak og Sýrlandi á árunum 2011 til 2016. Í skýrslu ESB um þessa menn og hættuna af þeim segir að 1.200 til 3.000 þeirra kunni að snúa aftur til Evrópu og valda öryggisstofunum vanda.

Því er spáð i skýrslunni að vandinn verði mestur í löndunum sem voru áður heimkynni þeirra sem héldu til Sýrlands og Íraks. Í skýrslunni eru stærstu lönd Vestur-Evrópu nefnd til sögunnar: Þýskaland, Spánn, Frakkland, Ítalía og Bretland en auk þeirra Belgía, Holland, Austurríki og Norðurlöndin.

Í skýrslu sem samin var fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings er talið að rúmlega 42.000 útlenskir hryðjuverkamenn frá meira en 120 löndum hafi gengið til liðs við Daesh á árunum 2011 til 2016, þar af rúmlega 5.000 frá Evrópu.

Bent er á að vissulega hafi það gerst áður að útlendingar hafi gengið til liðs við bardagasveitir hryðjuverkasamtaka en hins vegar séu þessar tölur um fjölda útlendra vígamanna mun hærri en áður hafi sést. Erlendir sjálfboðaliðar í heilögum stríðum múslima hafi verið um 20.000 í Afganistan á níunda og tíunda áratugnum; um 2.000 í Bosníu 1992 til 1995; nokkur hundruð í Tjsetjeníu á tíunda áratugnum.

Í skýrslu ESB um Radicalisation Awareness Network (RAN) segir að fjöldi þeirra sem snúi aftur ráðist meðal annars af því hve margar konur og börn verða í hópnum þar sem geti verið 1.200 til 3.000 manns. Sumarið 2017 hafi milli 20 og 30%  erlendra vígamanna snúið aftur til heimlanda sinna, einkum til Danmerkur, Svíþjóðar og Bretlands. Um helmingur þeirra sem þaðan fóru hafi snúið til baka.

Í skýrslunni segir að hryðjuverkin í París 13. nóvember 2015 og í Brussel í mars 2016 hafi verið framin af „endurkomnum“. Bent er á að margir endurkomnir séu ekki virkir hryðjuverkamenn við heimkomuna en hins vegar felist veruleg hætta að þeir verði virkjaðir ef þeir komist í samband við hryðjuverkasamtök eins og Daesh eða Hayat Tahrir al-Cham (al-kaída). Það verði því að fylgjast vel með hverjum og einum.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …