
Nýtt kínverskt flugmóðurskip, Shandong, var formlega afhent Xi Jinping Kínaforseta við hátíðlega athöfn í Hainan-héraði þriðjudaginn 17. desember og er nú tilbúið til aðgerða að sögn ríkisfréttastofunar CCTV.
Fyrsta flugmóðurskip sitt, um 30 ára gamla 66.000 lesta skipið Liaoning, keyptu Kínverjar af Rússum. Því var umbreytt af Kínverjum og tekið í notkun árið 2016.
Shandong er að stórum hluta eftirgerð rússneska flugmóðurskipsins en að öllu leyti smíðað í Kína. Smíði þess hófst á árinu 2013 og það var sjósett í maí í fyrra.
Bandaríska hugveitan ChinaPower sem er hluti af Center for Strategic and International Studies (CSIS) ó Washington segir að Kínverjar vinni nú að smíði þriðja flugmóðurskips síns.
Gervitunglamynd frá Jiangnan skipasmíðastöðinni í Shanghai bendir til að þetta flugmóðurskip verði um 85.000 lestir. ChinaPower telur líklegt að það verði fullsmíðað og tilbúið til aðgerða árið 2022.