Home / Fréttir / Hegðun Kremlverja eykur mikilvægi GIUK-hliðsins að nýju

Hegðun Kremlverja eykur mikilvægi GIUK-hliðsins að nýju

Dr. Andrew Foxall
Dr. Andrew Foxall

Dr. Andrew Foxall, forstjóri Russia and Eurasia Studies Centre hjá alþjóðlegu hugveitunni Henry Jackson Society, birti grein í breska blaðinu The Daily Telegraph þriðjudaginn 5. nóvember undir fyrirsögninni: Putin is making a power grab for the Arctic. The West needs to wise up – and prepare itself for conflict – Pútin seilist til valda á norðurslóðum. Vestrið þarf að vitkast – og búa sig undir átök.

Í greininni segir:

„Loftslagsfræðilega er norðurskautið eitt kaldasta svæði heims en það er að verða eitt heitasta svæðið í geópólitísku tilliti. Í fyrri viku gerðu Rússar tilraun með að skjóta langdrægri Bulava-flaug meira en 3,100 mílur (eða yfir tíu tímabelti) frá Hvítahafi undan vesturhluta lands síns til Kamtsjaka lengst í austri. Um svipað leyti tilkynntu Norðmenn að þeir hefðu fylgst með tíu kafbátum úr rússneska Norðurflotanum á siglingu frá Norður-Íshafi í átt að Atlantshafi, þar með hófst stærsta aðgerðin af þessu tagi síðan í kalda stríðinu.

Bæði atvikin sýna afdráttarlaust hvaða hernaðarógnun Vesturlöndum stafar af Rússum. Þau draga einnig athygli að stærri mynd – vaxandi stórveldakeppni á komandi áratugum á norðurslóðum.

Frá því um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar hafa Rússar stundað hervæðingu á norðurskautssvæðinu. Árið 2007, sama ár og rússneska fánanum var stungið á botn norðurpólsins, gripu Kremlverjar til sömu aðferða og Sovétmenn á sínum tíma, að fara í langdræga herleiðangra um norðurslóðir. Bandaríska jarðvísindastofnunin, US Geological Survey, sendi ári síðar frá sér það mat að 13% af óunninni olíu heimsins og 30% af óunnu jarðgasi væri að finna á svæðinu. Skömmu síðar kynntu Rússar norðurslóðastefnu þar sem boðað var að um fyrirsjáanlega framtíð yrði svæðið „strategísk auðlindastoð“ þeirra.

Það er því ekkert undarlegt að á síðasta áratug hafi Rússar keppst við að opna að nýju herstöðvar frá sovéttímanum og koma á fót nýjum herstöðvum á norðurslóðum. Í mars 2019 sagði Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, að aðeins frá árinu 2013 hefðu 475 stöðvar verið opnaðar. Á sama tíma hafa Rússar styrkt kjarnorkubúnað sinni í norðri og sýnt tilburði til að efna þar til mikilla heræfinga. Eldflaugaskot Rússa á dögunum og siglingu kafbátanna ber að skoða í þessu ljósi.

Vestrið hefur á hinn bóginn lengi vanrækt norðurslóðir hernaðarlega. Í núverandi grunnstefnu NATO er ekki einu sinn að finna orðið. (Stefnan var samþykkt árið 2010 og er brýnt að uppfæra hana.) Undanfarna tvo áratugi hefur sú skoðun verið ríkjandi í mörgum vestrænum höfuðborgum að norðurslóðir séu ónæmar fyrir geopólitísku spennunni sem sjá má annars staðar. Bandaríkjamenn kölluðu herlið sitt frá Íslandi árið 2006 og árið 2010 lögðu Bretar Nimrod flugflota sínum sem notaður var til eftirlits á höfunum, var það liður í endurskoðun á stefnunni í öryggismálum og á útgjöldum til varnarmála.

Nú er staðan skýr. Bandaríkjamenn eiga aðeins tvo haffæra ísbrjóta sem nota má á Norður-Íshafi, öðrum þeirra hefði átt að leggja fyrir meira en áratug til úreldingar. Rússar eiga 40 ísbrjóta og eru að smíða nýja, vopnaða stýriflaugum.

Rætt var um veikleika vestursins á norðurslóðum á NATO-vinnufundi háttsettra manna sem ég sótti í Noregi í september. Meðal fundarmanna var almenn samstaða um að Rússar líta á norðurslóðir sem vettvang þar sem þeir geti endurheimt stöðu sína sem stórveldi, endurvakið hernaðarmátt sinn og tryggt sess sinn sem orku-risaveldi – og þegar Vladimir Pútin segir að hann ætli að beita rússneska hernum til að verja það sem hann telur þjóðarhagsmuni Rússa á svæðinu er honum full alvara. Niðurstaða fundarins var ekki uppörvandi: þegar ísinn hopar á norðurslóðum er líklegt að aukinn hiti færist í geópólitíska keppni á svæðinu en vestrið burðast við að vinna upp tíma.

3-arctic-1100x437

Þetta er þó ekki það eina heldur steðjar nú einnig hætta að afvopnunarsamningum milli stjórnvalda í Moskvu og Washington. Fyrr á þessu ári sögðu Bandaríkjamenn sig frá samningnum um takmörkun meðaldrægra kjarnorkuvopna sem gerður var í kalda stríðinu, þeir sögðu þetta gert vegna þess hve Rússar hefðu oft brotið samninginn (Bandaríkjastjórn vakti fyrst máls á þessum brotum seint á fyrsta tug aldarinnar er Kremlverjar mótmæltu þeim ásökunum statt og stöðugt). Nýi START-samningurinn sem takmarkar fjölda langdrægra kjarnaodda í flaugum Rússa og Bandaríkjamanna rennur út árið 2021. Eins og málum er háttað virðist hvorugur aðili samningsins hafa áhuga á að endurnýja hann.

Á þessu stigi kann að þykja ólíklegt að til vígbúnaðarkapphlaups komi en óþægilegar spurningar vakna um viðbúnað vestursins vegna hugsanlegra átaka á norðurslóðum ­– og hvert yrði hlutverk Breta í þeim.

Haldi Rússar áfram að hervæða norðurslóðir eykst geóstrategískt mikilvægi Bretlands. Hafsvæðin norðvestur af Skotlandi eru hluti Grænlands-Íslands-Bretlands hliðsins (GIUK-hliðsins), höfuðhindrunarinnar á milli rússneska Norðurflotans á norðurslóðum og strategískra hagsmuna hans á Norður-Atlantshafi. Í kalda stríðinu var líklega ekkert hafsvæði á plánetu okkar betur vaktað en GIUK-hliðið, alþjóðlegt mikilvægi þess minnkaði dramatískt eftir hrun Sovétríkjanna. Nú leiðir hegðun Kremlverja til þess að mikilvægið vex að nýju.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …