Home / Fréttir / Hawaii-búar anda léttar eftir ranga viðvörun um eldflaugaárás

Hawaii-búar anda léttar eftir ranga viðvörun um eldflaugaárás

15hawaii2-master768

Kirstjen Nielsen, ráðherra heimavarna í Bandaríkjunum, sagði sunnudaginn 14. janúar- „óheppilegt“ að röng viðvörun hefði verið gefin laugardaginn 13. janúar um yfirvofandi eldflaugaárás á Kyrrahafseyjuna Hawaii, vestasta ríki Bandaríkjanna. Sagði hún yfirvöld vinna að því að útiloka að slíkt gæti endurtekið sig.

Viðvörunin var fyrir mistök send eftir boðleiðum almannavarna um sjónvarp, hljóðvarp, í tölvubréfum og smáskilaboðum. Þar stóð: LANGDRÆGAR ELDFLAUGAR Á LEIÐ TIL HAWAII. LEITIÐ SKJÓLS ÁN TAFAR. ÞETTA ER EKKI ÆFING.

Aðeins fáeinar vikur eru liðnar frá því að loftvarnaflautur voru settar upp að nýju á Hawaii af ótta við kjarnorkuárás frá Norður-Kóreu.

Yfirvöld segja að um mannleg mistök sé að ræða.

David Ige, ríkisstjóri Hawaii, sagði að ranga eldflauga-viðvörunin hefði skapað ótta meðal íbúa eyjarinnar að morgni laugardagsins og þetta væri „algjörlega ólíðandi“. Hann sagði við blaðamenn að hann væri „reiður og vonsvikinn“ vegna ástandsins. „Fæst okkar munu nokkru sinni gleyma þessum degi – þetta er dagur þegar margir meðal okkar héldu að þeir myndu raunverulega kynnast verstu martröð sinni,“ sagði hann.

Blaðamenn gengu hart að ríkisstjóranum og spurðu hvernig svona mistök gætu gerst. Hann svaraði á þann veg að allt yrði gert til að hindra að þau yrðu endurtekin.

Vern Miyagi, yfirmaður hjá almannavörnum á Hawaii, sagði blaðamönnum að sá sem gerði mistökin tæki þau „mjög nærri sér“. Þegar blaðamenn sögðu Miyagi að í sumum hverfum hefði heyrst í loftvarnaflautum sagðist hann ætla að kanna málið.

Hótelgestum var skipað að leita skjóls í kjallörum en utan hótela leituðu íbúar að öruggasta stað innan heimila sinna. Á myndskeiðum mátti líka sjá einstaklinga opna ræsibrunna til að leita skjóls í holræsum.

Innan 20 mínútna frá því að boðin voru send áttuðum menn sig á mistökunum en það tók yfirvöld ríkisins 38 mínútur að leiðrétta mistökin með smáskilaboðum í síma. Almenningur, fjölmiðlar og stjórnmálamenn gagnrýna þetta sleifarlag.

Ige ríkisstjóri sagði við CNN­-sjónvarpsstöðina að þarna hefðu einfaldega verið um mistök starfsmanns að ræða:

„Þetta voru mistök þegar um venjuleg vaktaskipti var að ræða og starfsmaður ýtti á rangan hnapp.“

Frá Hvíta húsinu í Washington bárust boð um að Bandaríkjaforseti hefði verið upplýstur um málið. Þarna væri um mál á borði yfirvalda á Hawaii að ræða.

Ajit Pai, formaður Fjarskiptaráðs Bandaríkjanna (FCC) sagði á Twitter laugardaginn 13. janúar að ráðið mundi efna til „ítarlegrar rannsóknar“ á atvikinu á Hawaii. FCC hefur eftirlit með neyðarboðunarkerfi Bandaríkjanna.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …