Home / Fréttir / Hart sótt að Boris frá hægri og vinstri

Hart sótt að Boris frá hægri og vinstri

Nigel Farage (.v. og Boris Johnson.
Nigel Farage (.v. og Boris Johnson.

 

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hefur ekki minnsta áhuga á að mynda kosningabandalag með Brexit-flokknum og Nigel Farage fyrir þingkosningarnar 12. desember 2019. Johnson tók af skarið um þetta í samtali við BBC föstudaginn 1. nóvember. Fyrr sama sag hafði Farage gert Johnson skilyrt tilboð í þessa veru.

Í útvarpsviðtali við Nigel Farage lét Donald Trump Bandaríkjaforseti í ljós stuðning við áform Farage. Tæki hann höndum saman við Johnson yrðu þeir „óstöðvandi afl“.

Hvorki Trump né Farage tókst þó að fá Johnson á sitt band. Hann ræðst harkalega á Farage og flokk hans í höfnun sinni.

„Mér er mjög mikið í mun að segja skýrt og ákveðið að atkvæði greitt einhverjum öðrum flokki en Íhaldsflokknum og ríkisstjórn hans … jafngildir almennt því að kjósa Jeremy Corbyn,“ sagði Johnson á BBC.

Boris Johnson er ekki heldur í neinum vafa hvað það þýðir að kjósa Verkamannaflokkinn og leiðtoga hans, Jeremy Corbyn, brexit-áætlun hans feli aðeins í sér meiri flækjur og seinkanir.

Skilyrðið sem Nigel Farage setti var að Boris Johnson félli frá brexit- samningnum sem hann hefur gert við ESB, þótt forsætisráðherrann hefði lagt sig allan fram um að ná honum og leggja fyrir þingið. Farage hefur áður boðið íhaldsmönnum samstarf og þeir hafa áður hafnað boðinu.

Að þessu sinni hafði Farage einnig í hótunum við íhaldsmenn. Höfnuðu þeir tilboði hans mundi Brexit-flokkurinn stofna til framboða í öllum kjördæmum gegn íhaldsmönnum. Hann sagði einnig að í raun yrði Brexit-flokkurinn eini flokkurinn sem boðaði brexit fyrir kosningarnar að þessu sinni.

The Guardian snýst gegn Boris Johnson

Meðal þeirra sem berjast gegn Íhaldsflokknum og Boris Johnson sérstaklega fyrir kosningarnar nú er mið-vinstra blaðið The Guardian sem sagði í leiðara 1. nóvember að Boris Johnson hefði beitt bleklingum til að ná forsætisráðherraembættinu. Hann hafi gefið loforð og strengt heit um að koma Bretum úr ESB 31. október 2019. Vegna þessa hefðu um 90.000 félagar í Íhaldsflokknum kosið hann til að losna við Theresu May. Þetta hefðu einkum verið hvítir, aldraðir karlar í suðurhluta Englands. Engin innstæða hefi verið fyrir þessum loforðum hans frekar en mörgum áður. Hann hafi eins og May rekist á þann kalda veruleika að þingmenn vilji ekkert óðagot vegna brottfararinnar úr ESB. Í stað þess að gera málamiðlun hefði Johnson nú att þingmönnum út í ótímabærar kosningar.

Þótt Johnson hafi aðeins verið leiðtogi flokks síns í rúma þrjá mánuði hafi hann haft mikil áhrif á flokk sinn, segir The Guardian. Hann hafi breytt Íhaldsflokknum í hægrisinnaðan þjóðernisflokk. Það sem hafi áður verið hreyfing á breiðum mið-hægri grunni sé nú pólitískur sértrúarflokkur, mótaður af einu máli, brexit, sem færi flokkinn af auknum þunga á villuspor sögunnar.

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …