
Akademgorodok (Akademíski bærinn) skammt frá Novosibirsk, stærstu borg Síberíu,var á tíma Sovétríkjanna kunnur fyrir að þar dafnaði lýðræðisleg hugsun langt í burtu frá skugga alræðisvaldsins í Kremlarkastala.
Mánudaginn 18. apríl segir frá því á norsku vefsíðunni BarentsObserver að þann sama dag hafi birst mótmælaskjal 133 forráðamanna við háskólann í Novosibirsk með þessum upphafsorðum:
„Við námsmenn, kennarar og aðrir starfsmenn Ríkisháskóla Novosibirsk fordæmum harðlega stríðið sem rússneska ríkið hóf gegn Úkraínu 24. febrúar 2022 og lýsum stuðningi við íbúa Úkraínu.“
Þá segir í yfirlýsingunni:
„Engin skynsamleg ástæða er að baki þessu stríði, þúsundir úkraínskra og rússneskra hermanna og almennra borgara í Úkraínu hafa þegar fallið í því, dag hvern fjölgar fórnarlömbum átakanna.“
Af hálfu þeirra sem rita undir yfirlýsinguna er tekið fram að hún sé á þeirra eigin vegum en ekki stjórnvalda Ríkisháskólans í Novosibirsk. Á opinberri vefsíðu háskólans er ekki minnst á yfirlýsinguna. Hennar er ekki heldur getið á vettvangi samfélagsmiðla, Vkontakte.
Af þeim 133 sem styðja yfirlýsinguna skrifa 109 undir með nafni. Sumir eru í Rússnesku vísindaakademíunni. Nöfnum undir textann fjölgar jafnt og þétt, um miðjan mánudag 18. apríl hafði fjöldinn meira en tvöfaldast frá því snemma að morgni dagsins.
Í yfirlýsingunni er hvatt til rannsókna á fjölda stríðsglæpa gegn íbúum Úkraínu.
„Refsa verður þeim sem bera ábyrgð á þessum glæpum,“ segir í skjalinu sem birt er bæði á rússnesku og úkraínsku. Þar segir einnig:
„Rússneska ríkið verður tafarlaust að stöðva stríðið og rússneski herinn verður að yfirgefa landsvæði Úkraínu.“
Bent er á að háskólasamfélagið í Síberíu hafi allt aðra afstöðu en birtist yfirþyrmandi yfirlýsingu Rússneska rektorasambandsins snemma í mars þar sem lýst er stuðningi við aðgerðir Pútins forseta til að „afvopna og afnazistavæða Úkraínu“.
Háskólamennirnir við Ríkisháskólann í Novosibirsk þykja sýna mikið hugrekki með því að ganga fram fyrir skjöldu og mótmæla stríðinu í Úkraínu á þennan hátt. Rússnesk yfirvöld beita hvern þann sem þetta gerir harðræði og haldið er úti nornaveiðum frá Kreml til að kæfa öll andmæli gegn Pútin og stríðinu.
Akademgorodok er 30 km fyrir sunnan Novosibirsk. Þar eru 35 rannsóknarstofnanir ásamt Ríkisháskólanum í Novosibirsk. Sovéska vísindaakademían kom beint að því að reisa vísindaborgina árið 1957.