Home / Fréttir / Hart sótt gegn endurkjöri forseta Alsírs

Hart sótt gegn endurkjöri forseta Alsírs

Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsírs.
Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsírs.

Hundruð lögreglumanna og hermanna voru á verði í Alsírborg, höfuðborg Norður-Afríkuríkisins Alsírs, sunnudaginn 3. mars þegar talið var víst að forseti landsins

mundi tilkynna opinberlega framboð sitt til forseta í fimmta sinn.

Alla vikuna settu mótmælaaðgerðir svip á borgarlífið og staði víðar um landið. Vildu mótmælendur koma í veg fyrir að Bouteflika sæktist enn á ný eftir embættinu. Til átaka hefur komið milli lögreglu og mótmælenda, hefur að minnsta kosti einn úr hópi þeirra týnt lífi.

Námsmenn hafa leitt mótmælin með slagorðum eins og þessu: Farðu Bouteflika! Hann hefur gegnt embætti forseta Alsírs frá 1999. Tvisvar sinnum hefur hann knúið í gegn stjórnarskrárbreytingar svo að hann gæti setið áfram í embættinu. Vegna kosninganna hefur alltaf nema einu sinni verið rætt um brögð í tafli.

Forsetinn sést sjaldan opinberlega. Bouteflika er 82 ára og hefur ekki flutt þjóðinni sjónvarpsávarp síðan í júní 2017. Hann er farinn að heilsu, fékk slag árið 2013. Angela Merkel Þýskalandskanslari aflýsti á sínum tíma heimsókn sinni til hans þar sem hann var sagður með lungnabólgu, Í fyrri viku fór hann til læknis í Sviss. Í The Economist er vitnað til þess að gagnrýnendur hans kalli hann til gamans „lifandi dauða“ forsetann.

Árið 2011 kom til dálítilla mótmæla í Alsír í anda „araba-vorsins“. Ríkisstjórnin greip þá til þess ráðs að leggja fram fé til almennrar launahækkunar í landinu og nýtti til þessw tekjur af olíu og gasi. Tókst að slá á mótmælaaðgerðir á þennan hátt.

Bouteflika tilkynnti 10. febrúar að hann byði sig fram í fimmta skipti. Þá þegar hófust mótmæli á samfélagsmiðlum þar forsetinn var hvattur til að hætta og almenningur til að fara út á götur og torg til að mótmæla. Þess var krafist að myndir af honum yrðu fjarlægðar úr opinberum byggingum og stór veggmynd af honum var rifin af húsvegg í Alsírborg.

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …