Home / Fréttir / Harka færist í lagaþrætu Pólverja og ESB

Harka færist í lagaþrætu Pólverja og ESB

Stjórnlagadómstóll Póllands sagði fimmtudaginn 7. október að nokkur ákvæði sáttmála ESB, grunnskjala samstarfs þjóðanna 27, og nokkrir dómar ESB-dómstólsins brytu í bága við stjórnarskrá Póllands.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lýsti „miklum áhyggjum“ vegna niðurstöðunnar og fól embættismönnum sambandsins í Brussel að bregðast „ítarlega og skjótt“ við afstöðu pólsku dómaranna og gera tillögur um viðbrögð af hálfu framkvæmdastjórnarinnar. Forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, segir stjórn sína ekki vilja segja skilið við ESB.

Von der Leyen sagði að leggja yrði höfuðáherslu á að ekki yrði gengið á rétt pólskra ríkisborgara, þeir yrðu að njóta réttindanna sem ESB-aðildin veitti þeim. Þá yrðu þeir sem stunduðu viðskipti í Póllandi að geta treyst því að þar giltu ESB-reglur, þar á meðal niðurstöður ESB-dómstólsins.

Forseti framkvæmdastjórnarinnar áréttaði að yrði árekstur milli pólskra laga og ESB-laga nytu ESB-lög forgangs, einnig gagnvart pólsku stjórnarskránni.

Forgangur ESB-laga er meðal grunnsjónarmiðanna að baki tilvist Evrópusambandsins. ESB-dómstóllinn staðfesti þessa meginreglu árið 1964 í málinu Costa gegn ENEL. Þar segir að á öllum sviðum þar sem ESB hafi lögsögu hafi lög sambandsins forgang gagnvart landslögum.

Engin ESB-þjóð nýtur hærri styrkja úr sameiginlegum sjóðum ESB en Pólverjar. Eftir að dómurinn féll í Póllandi fóru talsmenn stærstu flokkanna á ESB-þinginu á Twitter og hvöttu framkvæmdastjórn ESB til að frysta greiðslur til Póllands.

Deilur hafa verið milli stofnana ESB í Brussel og ríkisstjórnar Póllands vegna stefnu hennar um beita dómara í Póllandi aga. Framkvæmdastjórn ESB vill að ESB-dómstóllinn leggi dagsettir á pólska ríkið vegna þess að þar sé í raun ekki réttarríki.

Pólska afstaðan

Pólski stjórnlagadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu fimmtudaginn 7. október að stjórnarskrá Póllands hefði forgang við túlkun á öllum alþjóðasamningum, ekkert ákvæði þeirra mætti brjóta gegn stjórnarskránni. Litið er á sáttmála ESB sem alþjóðasamninga milli þjóðríkja.

Pólsku dómararnir litu á tvær greinar í sáttmálum ESB: 1. grein þar sem mælt er fyrir um tilvist Evrópusambandsins og framsal lagasetningarvalds frá aðildarríkjunum og 19. grein þar sem mælt er fyrir um valdsvið ESB-dómstólsins. Honum ber að tryggja að ESB-lög séu virt af öllum aðildarríkjum ESB.

Tveir dómarar af 14 skiluðu séráliti eftir margra mánaða málsmeðferð fyrir dómstólnum. Pólska ríkisstjórnin, forseti Póllands og þing héldu fram því sjónarmiði að pólska stjórnarskráin hefði forgang gagnvart ESB-lögum og að dómar ESB-dómstólsins brytu stundum gegn stjórnlögum Póllands.

Af hálfu ESB er pólski stjórnlagadómstóllinn talinn ólögmætur vegna þess að ríkisstjórnarflokkur Póllands hafi of mikil pólitísk áhrif á skipun sumra dómaranna. Margir dómaranna eru hollir ríkisstjórninni, meðal annarra dómsforsetinn, Julia Przylebska, sem fór fyrir dómurunum sem dæmdu í þessu máli.

Viðbrögð ESB

Í fréttum segir að aldrei áður hafi dómarar í einhverju ESB-aðildarlandanna gengið svo afdráttarlaust og fyrir opnum tjöldum gegn grunnstoðum sambandsins. Þess vegna er talið enn brýnna en ella fyrir stjórnendur ESB að taka þannig á málinu að það rétti hlut sambandsins. Það kann á hinn bóginn að verða tvíbent að sækja pólsk stjórnvöld til saka fyrir ESB-dómstólnum þar sem hann nýtur takmarkaðs trausts innan pólska réttarkerfisins.

Vegna stöðunnar sem við blasir innan ESB eftir pólska dóminn er rifjað upp að í grunninn snýst samstarfið innan ESB um virðingu fyrir lagareglum. Aðildarríkin samþykkja að framselja hluta af lagasetningarvaldi sínu til stofnana sambandsins en innan þeirra verða síðan til lagafrumvörp sem eru afgreidd í Brussel og ber síðan að innleiða í aðildarlöndunum. Öll á þessi löggjöf auk margvíslegra annarra ákvarðana um áætlanir, verkefni og fjármál að stuðla að framgangi sameiginlegra hagsmuna aðildarlandanna.

Samhliða deilunni sem nú kemur til sögunnar milli Pólverja og ráðamanna ESB er óleystur ágreiningur um breytingar á dómstólaskipan í Póllandi sem ESB telur brjóta gegn grunnreglum réttarríkisins.

Helsta ágreiningsefnið snýr að nýjum dómstóli í Póllandi sem getur ákveðið að dómurum og saksóknurum sé refsað vegna dóma sinna og ákvarðana um ákærur.

ESB telur að með þessu refsi- og agavaldi geti nýi aga-dómstóllinn ógnað sjálfstæði dómara og sett á þá pólitískar þvinganir. Pólska stjórnin segir að þessi skipan skapi leið til að uppræta leifar stjórnarhátta kommúnista innan dómskerfisins.

Í júli 2021 setti ESB-dómstóllinn lögbann á nýja aga-dómstólinn og framkvæmd dóma og ákvarðana sem hann hafði tekið. Pólski stjórnlagadómstóllinn hafnaði þessum ESB-dómi og sagði hann brjóta gegn pólsku stjórnarskránni.

Vegna þessarar afstöðu pólsku dómaranna setti framkvæmdastjórn ESB þeim úrslitakosti og veitti pólskum stjórnvöldum frest til 16. ágúst 2021 til að fara að fyrirmælum ESB-dómstólsins og loka aga-dómstólnum. Yrði ekki farið að þessu skyldu dagsektir koma til sögunnar. Þyngri verða refsingar gagnvart ESB-ríkjum ekki fyrir brot á grunnreglum sambandsins.

Aga-dómstólnum hefur ekki verið lokað og framkvæmdastjórn ESB lagði fyrir ESB-dómstólinn að ákvarða dagsektir á Pólverja þar til dómurinn frá í júlí yrði framkvæmdur. ESB-dómurinn skoðar nú kröfu framkvæmdastjórnarinnar og er enn óvíst hvort til dagsektanna kemur.

Um sömu mundir og þetta gerist leggur framkvæmdastjórn ESB mat á hvort styðja eigi 57 milljarða evru endurheimtu- og viðnáms-áætlun Pólverja. Þar þykir nauðsynlegt að skoða vel ýmis vafaatriði sem meðal annars snúa að réttarfarslegum þáttum. Brusselmenn hafa nokkrum sinnum frestað birtingu á matsskýrslu sinni og segjast eiga í viðræðum við pólsk yfirvöld um breytingar til að auðvelda framkvæmdastjórninni að taka ákvörðun sína. Tilkynnt var í Brussel föstudaginn 8. október að styrkumsóknina yrði að rannsaka áfram hvað sem liði síðustu atburðum.

Samhliða þessu undirbýr framkvæmdastjórnin að virkja reglur sem aldrei hefur verið beitt en snúa að því að skilyrða styrkveitingar ESB og fjárhagslegan stuðning með kröfu um að grunnreglur réttarríkisins séu í heiðri hafðar. Þessum reglum verður ekki beitt nema aukinn meirihluti sé fyrir því í ráðherraráði ESB. Stjórnkerfisbreytingar sem ógna sjálfstæði dómstóla eru innan ramma reglnanna sem nota má til að skilyrða fjárhagslegan stuðning úr ESB-sjóðum.

Heimild: Euronews

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …