Home / Fréttir / Harðlínumaður og Pútín-gagnrýnandi á bak við lás og slá

Harðlínumaður og Pútín-gagnrýnandi á bak við lás og slá

Igor Strelkov í glerbúri í réttarsal í Moskvu.

Kunnur harðlínuþjóðernissinni sem sakaði Vladimir Pútín Rússlandsforseta um veiklyndi og ráðleysi í Úkraínu var handtekinn föstudaginn 21. júlí sakaður um öfgahyggju. Handtakan er talin til marks um að Kremlverjar ætli nú að beita meiri hörku en til þessa gagnvart herskáum gagnrýnendum sínum í ljósi misheppnaðrar uppreisnar Wagner-málaliðanna í júnímánuði.

Igor Strelkov (raunverulegt ættarnafn hans er Girkin), fyrrverandi starfsmaður öryggislögreglunnar FSB, var í forystu aðskilnaðarsinna með tengsl við Moskvu í austurhluta Úkraínu árið 2014. Hollenskur dómstóll sakfelldi hann fyrir morð vegna aðildar hans að flugskeytaárásinni sem grandaði farþegaflugvél Malaysia Airlines árið 2014. Undanfarið hefur hann sagt að allsherjar herkvaðning sé nauðsynleg í Rússlandi til að sigur vinnist í Úkraínu. Hann veittist að Pútín nýlega og kallaði hann „undirmálsmann“ og „huglausan ónytjung“.

Dómari við Metsjanskíj-héraðsdóminn úrskurðaði Strelkov (52 ára) í tveggja mánaða gæsluvarðhald á meðan rannsakaðar væru ásakanir um að hann hefði hvatt til öfgafullra athafna. Verði hann sakfelldur kann hann að hljóta allt að fimm ára dóm.

Sterlkov er sviptur frelsi tæpum mánuði eftir skammvinna uppreisn málaliðaforingjans Jegevníjs Prígósjíns. Hann fól Wagner-málaliðum sínum að leggja undir sig byggingu herstjórnar Rússa í suðlægu, rússnesku borginni Rostov-við-Don og sendi þá í áttina að til Moskvu. Þeir voru um 200 km frá höfuðborg Rússlands þegar herför þeirra sem sögð var „í nafni réttvísinnar“ var stöðvuð og þeim beint frá þeim ásetningi Prígósjíns að flæma æðstu stjórnendur varnarmálaráðuneytisins og hersins úr embætti. Þetta gerðist dagana 23. til 24. júní og síðan samþykktu Kremlverjar að veita Prígósjín og mönnum hans sakaruppgjöf enda færu þeir til búða í Belarús.

Hafði ekki áður verið vegið á svo alvarlegan hátt að Pútín á árunum 23 sem hann hefur setið við stjórnvölinn í Kreml. Uppreisnin gróf undan trú á alræðisvaldi forsetans og sýndi veikleika stjórnar hans.

Strelkov skipaði sér við hlið Prígósjíns með harðri gagnrýni á herstjórnendur Rússlands og vanmátt þeirra. Hann lét ekki við það sitja heldur hallmælti einnig Wagner-foringjanum og líkti framgöngu hans við landráð og sagði hann ógna rússneska ríkinu á mjög alvarlegan hátt. Illmæli gengu á milli Strelkovs og Prígósjíns. Nú segja stuðningsmenn Strelkovs að hann sæti lögreglurannsókn vegna kæru frá einum úr hópi Wagner-málaliðanna.

Áskrifendur Strelkovs á samfélagsmiðlinum Telegram eru rúmlega 875.000. Nýlega var stofnaður klúbbur með þátttöku hans sem kallar sig Reiða föðurlandsvini. Þegar Strelkov var handtekinn var gefin út yfirlýsing í nafni klúbbsins þar sem frelsissviptingu hans er lýst sem „ögrun“ sem „grafi undan trú almennings á réttarvörslukerfinu“ og „afleiðingarnar verði gífurlega neikvæðar fyrir stöðugleika í landinu“.

Strelkov var í rússneska hernum í stríðinu við aðskilnaðarsinna í Tsjetsjeníu og síðar gekk hann til liðs við æðstu öryggislögregluna í Rússlandi, FSB, þar sem hann varð ofursti.

Eftir að hann lauk þjónustu sinni átti hann aðild að innlimunaraðgerð Rússa á Krímskaga árið 2014 og tók síðan að sér forystu fyrir vígamönnum í austurhluta Úkraínu þegar aðskilnaðarsinnar efndu þar til hernaðar árið 2014.

Í fyrra var hann sakfelldur af hollenskum dómstóli ásamt tveimur öðrum fyrir morð vegna hlutdeildar þeirra í árásinni á flug Malaysia Airlines nr. 17 með rússnesku landflugskeyti sem varð 298 manns að aldurtila þegar Boeing 777 vél splundraðist á leið sinni yfir landsvæði aðskilnaðarsinna í Úkraínu, 17. júlí 2014. Mennirnir þrír, sem voru dæmdir að þeim fjarverandi, voru sakaðir um að flytja Buk-loftvarnarkerfi frá rússneskri herstöð til Úkraínu og setja það í skotstöðu.

Hollensk yfirvöld fylgjast náið með því sem gert er við Strelkov í Rússlandi. Þau sendu frá sér yfirlýsingu vegna handtöku hans og gæsluvarðhalds þar sem þau lýstu áhuga á að Strelkov tæki út ævilanga refsivist sína í Hollandi.  Til hins væri þó að líta að rússnesk yfirvöld framseldu ekki eigin ríkisborgara.

Strelkov hefur lengi lýst skömm sinni á Pútín og sakað hann um dugleysi og undirlægjuhátt gagnvart hagsmunum Vesturlanda. Hann herti á gagnrýni sinni eftir að ráðist var inn í Úkraínu í fyrra. Hann spáði tafarlausum ósigri Rússa af því að Pútín hefði ekki dug í sér til að kveðja alla vopnfæra menn í herinn og gefa fyrirmæli um virkja allt samfélagið í þágu hersins.

„Mikið af innantómum orðum, lágmark aðgerða og algjör skortur á að axla ábyrgð vegna mistaka – svona eru stjórnarhættir Pútins um þessar mundir,“ sagði Strelkov nýlega. „Undirmálsmaður sem hefur tekist að blekkja stóran hluta þjóðarinnar hefur setið við stjórnvöl landsins í 23 ár.“

Hann spáði því að þjóðin mundi ekki lifa af „önnur sex ár undir stjórn þessa huglausa ónytjungs“. Vísaði hann þar til þess að kosið yrði til forseta Rússlands til næstu sex ára í mars 2024.

Tatiana Stanovaja við Carnegie Russia Eurasia Center, Carnegie-miðstöðina um málefni rússnesku Evró-Asíu, sagði að uppreisn Wagner-málaliðanna hefði opnað æðstu herstjórnendum leið til að ná sér niðri á þeim sem gagnrýna þá.

„Strelkov fór út fyrir öll hugsanleg mörk fyrir löngu, það vakti þrá innan öryggiskerfsins – frá FSB til herstjórnenda – til að ná honum,“ sagði hún á Twitter. „Þetta má rekja beint til uppreisnar Prígósjíns: yfirstjórn hersins hefur nú meiri pólitískan þunga en áður til að kveða niður óvini sína á almannavettvangi.“

Hún taldi ólíklegt að efnt yrði til fjöldafangelsana á reiðum föðurlandsvinum, þeir hatrömmustu yrðu teknir fastir hinum til viðvörunar.

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …