
Pólska ríkisstjórnin hefur sakað Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, um að „ráðast á Pólland“.
Pólski forsætisráðherrann Beata Szydlo sagði mánudaginn 20. nóvember á Twitter: „Með því að nota stöðu sína til að ráðast á pólsku ríkisstjórnina í dag ræðst hann [Tusk] á Pólland.“
Tusk hefur tengt ríkisstjórn Póllands við „áætlun Kremlverja“ án frekari skýringar.
Tusk og Szydlo hafa lengi verið keppinautur í pólskum stjórnmálum.
Flokkur Szydlo, Flokkur laga og réttar (PiS), á í deilum við framkvæmdastjórn ESB um ýmis mál: stjórnin neitar að taka við kvóta-flóttamönnum í samræmi við ESB-kröfur; hún hvetur til þess að tré verði grisjuð í gömlum skógi og hún hefur sett ný lög um fjölmiðla og dómskerfið. Framkvæmdastjórnin sakar PiS um að hafa gildi ESB að engu.
Tusk sagði á pólsku á Twitter sunnudaginn 19. nóvember: „Viðvörun! Alvarlegur ágreiningur við Úkraínu, einangrun innan ESB, fráhvarf frá réttarríkinu og sjálfstæði dómstóla, árás á frjáls samtök og frjálsa fjölmiðla. Er þetta stefna Laga og réttar eða áætlun Kremlverja? Of líkt til að sofa rótt.“
Með því að nefna Kremlverja virðist Tusk vilja tengja PiS við ásakanir um íhlutun Rússa innan ESB og í Úkraínu.
Witold Waszczykowski, utanríkisráðherra Póllands, brást einnig reiður við því sem Tusk sagði á Twitter og sagði orð hans „átakanlegt örvæntingaróp“.
Hann sagði að Tusk hefði mistekist að „skapa sér virkt hlutverk í evrópskum stjórnmálum og reynir því að demba sér að nýju í pólsk stjórnmál“.
ESB-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu þriðjudaginn 21. nóvember að ákvörðun pólsku ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra um að þrefalda grisjun Bialowieza-skógi, elsta skógi Evrópu sem skráður er á heimsminjaskrá UNESCO, væri ólögmæt. Féllst dómstóllinn á kröfur framkvæmdastjórnar ESB í málinu. Hafa pólsk stjórnvöld 15 daga til að stöðva grisjunina eða greiða 100.000 evrur í dagsekt.
Pólska stjórnin segir grisjunina nauðsynlega til að verja skóginn gegn sníkjudýri í berki grenitrjáa. Framkvæmdastjórn ESB segir að með grisjuninni sé vegið að fugla- og dýralífi í skóginum, þar á meðal vísundum. Grisjunina megi aðeins stunda þar sem hætta steðji að almenningi.
Heimild: BBC