Home / Fréttir / Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Emmanuel Macron og Joe Biden funda í París laugardaginn 8. júní 2024.

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með gestgjafa sínum, Emmanuel Macron Frakklandsforseta, ítrekaði hann „öflugan“ stuðning sinn við Úkraínustjórn í átökunum við innrásarher Rússa og sagði að sigruðu Rússar þar myndu þeir ekki láta við það sitja að leggja undir sig Úkraínu.

Biden segir: Rússlandsforseti Vladimir „Pútin lætur ekki staðar numið í Úkraínu … Allri Evrópu verður ógnað. Við munum ekki láta það gerast. Bandaríkin standa öflug við hlið Úkraínu. Við munum ekki – ég segi það einu sinni enn – hverfa á brott.“

Macron sagði við Biden að blaðamönnum viðstöddum: „Ég þakka yður, herra forseti, fyrir að vera forseti ríkis heimsins nr. 1 og koma þar fram af hollustu sem samstarfsmaður sem líkar við Evrópubúa og sýnir þeim virðingu.“

Biden kom til Frakklands fimmtudaginn 6. júní og tók þátt í athöfn við strönd Normandí þar sem minnst var landgöngu bandamanna í stríðinu við Adolf Hitler og nazista fyrir 80 árum.

Volodymys Zelenskíj Úkraínuforseti var einnig í Normandí og þar átti hann fund með Biden, þann fyrsta síðan Bandaríkjaforseti staðfesti lög um 61 milljarðs dollara hernaðarstuðning við Úkraínu. Á fundinum boðaði hann 225 milljón dollara fjárstuðning til kaupa á skotfærum, þar á meðal skotflaugum, sprengjuvörpum, stórskotaliðssprengikúlum og loftvarnaflaugum.

Macron hitti Zelenskíj föstudaginn 7. júní og sagðist vera að ljúka við að kalla saman stóran hóp samstarfsaðila um hernaðarlega fræðslu fyrir Úkraínumenn. Frakklandsforseti sagði að úkraínskir hermenn myndu í sumar hljóta þjálfum til að geta flogið Mirage 2000 orrustuþotum sem yrðu afhentar Úkraínuher.

Fyrir rúmri viku sagði yfirmaður hers Úkraínu að hann hefði ritað undir skjöl sem heimiluðu frönskum herþjálfurum að hefja brátt störf í þjálfunarbúðum Úkraínuhers.

Viðbrögð Rússa

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði miðvikudaginn 5. júní að hann hefði rétt til að láta bandamönnum Rússa í té langdræg vopn til aðgerða gegn vestrænum aðilum. Var þetta svar hans við því að Úkraínuher hefur fengið heimild til að beita vopnum frá NATO-löndum til takmarkaðra árása á skotmörk í Rússlandi.

Sébastian Seibt hjá France 24-fréttastofunni segir í grein föstudaginn 7. júní að á efnahagsráðstefnu í St. Pétursborg hafi Pútin nefnt að Rússar gætu látið stjórnvöldum samstarfsríkja í té langdræg vopn sem beitt yrði gegn hernaðarlegum, vestrænum skotmörkum.

Þessi nýjasta hótun Pútins var svar hans við yfirlýsingum NATO-ríkja, einkum stjórna Bandaríkjanna og Þýskalands, um að þau hefðu breytt um stefnu og heimiluðu nú Úkraínuher að nota vestræn vopn til takmarkaðra árása á skotmörk í Rússlandi.

„Ef þeir telja fært að afhenda slík vopn á vígvöll í því skyni að ráðist verði á okkar svæði og okkur valdið vandræðum, hvers vegna höfum við þá ekki rétt til að senda vopn af sömu gerð til sumra svæða í heiminum þar sem þeim má beita til árása á viðkvæma staði?“ spurði Pútin.

Þegar Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti ávarpaði franska þjóðþingið föstudaginn 7. júní við góðar undirtektir þingmanna færðust Rússar í aukana með ásökunum um að í vestri léku ráðamenn sér að eldi með stuðningi við stjórnina í Kyív.

Upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins sagði 7. júní að frá bandarískum HIMARS-skotpalli hefði verið send flaug sem drap konu og barn í Belgirod, suðurhéraði Rússlands. Stjórnvöld í Moskvu hafa ekki áður sagt Bandaríkjamenn bera ábyrgð á dauða almennra rússneskra borgara.

Í Kreml sökuðu menn einnig Emmanuel Macron Frakklandsforseta um að „magna spennu“ með því að lofa að franskar Mirage-2000-5 orrustuþotur yrðu afhentar Úkraínustjórn.

„Macron veitir stjórninni í Kyív skilyrðislausan stuðning og segir Frakka tilbúna til að taka beinan þátt í hernaðarátökunum,“ sagði Dmitríj Peskov talsmaður Kremlverja. „Við lítum á þessar yfirlýsingar sem mjög, mjög ögrandi, þær magna spennu í álfunni og stuðla ekki að neinu jákvæðu.“

Óljós áform Rússa

Ummæli Pútins um að hann ætli að senda samstarfsríkjum vopn til árása á vestræn ríki þykja óljós. Þó er bent á að Rússar undirbúi flotaæfingar á Karíbahafi með bandamönnum sínum á Kúbu og Venesúela.

Hér hefur verið sagt frá því að fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, kafbátur og freigáta ásamt fylgdarskipum, verði í Havana á Kúbu í næstu viku.

„Rússar vilja hræða vestrið með því að boða dreifingu á vopnum og virðast reyna að stækka átakasvæðið við vestrið,“ segir Jeff Hawn, sérfræðingur í málefnum Rússlands við London School of Economics.

Joseph Moses, herfræðingur hjá International Team for the Study of Security (ITSS), alþjóðateymi um strategískar athuganir í Verona á Ítalíu, segir að málflutningur Pútins sé „enn mjög óljós“ og hann nefni ekki neinar vopnategundir máli sínu til stuðnings.

Hawn segir að markmiðið sé sama og áður „að hræða vestræna leiðtoga og sjá þeim sem aðhyllast viðhorf Pútins til heimsmála og þeim sem vilja skjótan frið í Úkraínu hvað sem hann kostar fyrir röksemdum“. Pútin tali vísvitandi óljóst um það sem hann boðar í von um að snúa almenningsálitinu á Vesturlöndum sér í hag og gefa þeim sem á hann hlusta færi á að túlka hótanir hans í samræmi við þeirra eigin hræðslu.

Hugsanlega kann Pútin að sjá fyrir sér langdræg árásarvopn í ríkjum sunnan Sahara í Afríku þar sem rússneskir hermenn hafa búið um sig. Veronika Poniscjakova, sérfræðingur við Portsmouth-háskóla í alþjóðlegum öryggismálum og stríðinu í Úkraínu, telur þó líklegast að Pútin beini augum sínum til Írans og Norður-Kóreu þegar hann hugar að dreifingu skotflauga sinna. Rússar leggi þessum lið nú þegar við vígvæðingu þeirra en enginn vilji sjá þau eignast fleiri vopn til að ógna vestrinu.

Þá er einræðisherrann í Belarús, Alexander Lukasjenko, nefndur til sögunnar sem dæmigerður „bandamaður“ en hann setji því þó takmörk hve langt hann gangi til að ögra vestrinu. Þótt hann láti eins og hann standi 100% við hliðina á Pútin sé stuðningur hans þó með fyrirvörum.

Þá er bent á að Rússar eigi tæplega mikið af vopnum aflögu til að dreifa hingað og þangað um heiminn. Poniscjakova telur að minnsta kosti ólíklegt að Rússar sendi nokkur „gæðavopn“ frá sér til annarra. Hún segir að þessar hótanir Pútins um gagnaðgerðir séu í raun einskis virði. „Nú eru þetta bara kveinstafir. Þeir minna á bitlaust bjarndýr.“

Skoða einnig

Sögulegt samkomulag í stórþinginu um stórauknar varnir Noregs

Norska stórþingið samþykkti einróma þriðjudaginn 4. júní langtímaáætlun í varnarmálum. Þingmenn eru meðal annars sammála …