Home / Fréttir / Handtaka á Pútin vegna brottnáms barna

Handtaka á Pútin vegna brottnáms barna

Vladimir Putin og Maria Alekseyevna Lvova-Belova ræða brottnám barna frá Úkraínu í febrúar 2023.

Alþjóðasakamáladómstóllinn (The International Criminal Court (ICC)) í Haag gaf föstudaginn 17. mars út handtökuskipun á Vladimir Pútin, forseta Rússlands, vegna ásakana í garð stjórnvalda í Moskvu um stríðsglæp með nauðungarflutningum á úkraínskum börnum. Kremlverjar urðu ævareiðir vegna skipunar dómstólsins.

Rússnesk stjórnvöld hafa ekki farið leynt með framkvæmd áætlunar sinnar um flutning þúsunda barna frá Úkraínu til Rússlands. Þau segja um mannúðaráætlun sé að ræða til að vernda munaðarlaus börn og börn án umönnunar vegna stríðsins.

Volodymyr Zelesnkíj Úkraínuforseti sagði að í handtökuskipuninni fælist „söguleg yfirlýsing um ábyrgð“. Zelenskíj sagði að í brottflutningi úkraínskra fælist að farið væri ólöglega með þau þúsundum saman á brott og inn í land undir stjórn hryðjuverkamanna. Aðeins Pútin gæti staðið að ákvörðunum um þetta.

„Að skilja börn frá fjölskyldum sínum, svipta þau tækifæri til að hafa samband við skyldmenni sín, að fela börn á rússnesku landsvæði, dreifa þeim um fjarlægðar byggðir – allt má þetta greinlega rekja til stefnu rússneska ríkisins, ákvarðana tekna af ríkinu og illmennsku ríkisins sem á einmitt upphaf sitt í æðsta embættismanni þessa sama ríkis,“ sagði Zelenskíj í reglulegu kvöldávarpi sínu til þjóðarinnar föstudaginn 17. mars.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að ICC hefði tekið „réttmæta“ ákvörðun og Pútin hefði „augljóslega framið stríðsglæpi“.

Ákvörðun sakamáladómstólsins og birtingu hennar var svarað fullum hálsi í Moskvu. Talsmaður Kremlverja, Dmitríj Peskov sagði sjónarmiðin sem ICC kynnti til sögunnar „forkastanleg og óviðunandi“ og allar ákvarðanir dómstólsins væru „markleysa“.

Rússar eiga ekki frekar en Bandaríkjamenn og Kínverjar aðild að ICC.

„Kanar, snertið ekki Pútin!“ sagði Vjatsjeslav Volodin, þingforseti og náinn bandamaður forsetans, á Telegram. „Við lítum á árás á forseta Rússneska sambandsríkisins sem árás á land okkar.“

ICC gaf einnig út skipun um að handtaka Maríu Lvovu-Belovu, umboðsmann barna í Rússlandi, sakir hennar eru taldar þær sömu og Pútins. Vegna handtökuskipunarinnar má svipta forsetann frelsi og senda til Haag ef hann ferðast til einhvers ICC-lands.

Karim Khan, saksóknari ICC, hóf fyrir einu ári að rannsaka hvort dæmi væru um stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð í Úkraínu. Hann sagðist sérstaklega huga að glæpum gegn börnum og grunnvirkjum samfélagsins.

„Nú er Pútin eins og útlagi. Ferðist hann, á hann á hann á hættu að verða handtekinn. Þetta verður aldrei afmáð, Rússar komast ekki hjá refsiaðgerðunum nema þeir hlíti handtöku,“ segir Stephen Rapp, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna með stríðsglæpi sem sérsvið.

Reuters-fréttastofan segir að Moskvubúar hafi lýst vantrú á réttmæti fréttarinnar þegar þeir heyrðu hana. „Pútin! Enginn mun handtaka hann.,“ hefur fréttastofan eftir Daniil, 20 ára.  Maxim sagði: „Við munum vernda hann ­– rússneska þjóðin.“

Á vefsíðunni meduza.io segir 18. mars að Maria Zhakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, hafi sagt handtökuskipun ICC um að sækja skuli til saka þá sem „sýni börnum umhyggju, bjargi þeim og geri að sárum þeirra“ í ætt við þá „framsæknu vestrænu stefnu“ að hætta skuli að tala um „móður og föður“ og þess í stað segja „foreldri A og foreldri B“. Vísar Zhakharova þar til varnaðarorða sem Vladimir Pútin lætur oft falla til að lýsa höfnun vestrænna menningarfrömuða á hefðbundnum gildum.

Formaður rannsóknarnefndar Rússneska sambandsríkisins, Alexander Bastríjkin, gaf starfsmönnum nefndarinnar fyrirmæli um að rannsaka á formlegan hátt hvaða ICC-dómarar bæru ábyrgð á „ólögmætri“ handtökuskipun á Pútin og Lvovu-Belovu.

Margarita Simonyan, aðalritstjóri Russia Today, lagði til á Telegram að rússnesk stjórnvöld gerðu kjarnorkuárás á hvert það ríki sem dirfðist að fara að ósk ICC.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …