Home / Fréttir / Hamas-hryðjuverkamenn ráðast inn í Ísrael

Hamas-hryðjuverkamenn ráðast inn í Ísrael

Flugskeytum Hamas skotið inn í Ísrael.

Hamas-hryðjuverkahreyfingin á Gazasvæðinu við suður landamæri Ísraels réðst óvænt á Ísrael með mikilli flugskeytahríð aðfaranótt laugardagsins 7. október.

Síðdegis sama dag sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í ávarpi til þjóðarinnar að árás Hamas væri upphaf á langvinnu hörðu stríði. Ísraelski herinn grípi nú til allra ráða til að svipta Hamas öllum mætti.

„Við ætlum að murka úr þeim lífið, við munum hefna þessa dimma dags á eftirminnilegan hátt,“ sagði forsætisráðherrann. „Hamas hefur hafið þetta ófyrirleitna stríð. Við munum sigra en það verður dýrkeypt.“

Ísraelsher segir að Hamas hafi tekið nokkra tugi Ísraela sem gísla, bæði hermenn og almenna borgara. Í ávarpinu sagði Netanyahu að Hamas bæri ábyrgð á velferð gíslanna.

Síðdegis á laugardaginn sögðu ísraelskir fjölmiðar að um 250 ísraelskir ríkisborgarar hefðu fallið í árásum Hamas.

Itamar Ben-Gvir, þjóðaröryggisráðherra Ísraels, sagði að frá og með kvöldi laugardagsins 7. október ríkti neyðarástand í Ísrael.

Þar með fær lögregla landsins heimild til að setja útgöngubann, banna umferð almennra borgara um ákveðin svæði og síðast en ekki síst til að skipa almennum borgurum að veita yfirvöldum afnot af eignum sínum, þar á meðal bifreiðum og vopnum.

Lögreglan hefur meðal annars leyfi til að beita því valdi sem talið er hæfilegt gagnvart almennum borgurum svo að þeir fari að fyrirmælum hennar. Þá er lögreglu heimilt að banna mótmæli og aðrar samkomur.

Eins og áður sagði sendi Hamas þúsundir flugskeyti inn í Ísrael, einkum í suður- og miðhluta landsins. Ísraelsher telur að flugskeytin hafi verið um 2.500.

Samtímis réðust vopnaðir Hamas-liðar á almenna borgara og hermenn í Ísrael, myrtu þá eða tóku sem gísla, talið er að um 50 Ísraelar séu nú í gíslingu.

Sagt er að gíslatakan þjóni þeim tilgangi að Hamas geti knúið fram fangaskipti, fengið Palestínumenn lausa úr ísraelskum fangelsum.

Ísraelsher segir að ráðist hafi verið á Ísrael á sjó, landi og úr lofti. Að kvöldi laugardags var barist á 22 stöðum í Ísrael skammt frá Gaza.

Svo virðist sem árásin hafi komið stríðsvönum Ísraelsmönnum í opna skjöldu. Stjórnvöld Ísraela hafa enga skýringu gefið á því hvers vegna stærsta og best mannaða njósnastofnun Mið-Austurlanda, Mossad, átti sér einskis ills von.

Eins og áður sagði er talið að um 250 hafi fallið í Ísrael og fréttir frá Gaza herma að þar hafi 230 fallið í gagnárásum Ísraela.

Í gagnsókninni hafa Ísraelar ráðist á 17 hersvæði og fjórar af stjórnstöðvum Hamas. Mannfall almennra borgara á Gaza má að sögn Ísraela rekja til þess að Hamas-liðar leiti skjóls á bak við þá.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …