Home / Fréttir / Hamas-hryðjuverkamenn handteknir í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi

Hamas-hryðjuverkamenn handteknir í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi

Danska lögreglan segir frá handtökum 14. desember.

Talið er að sjö einstaklingar sem danska og þýska öryggislögreglan handtók 14. desember hafi skipulagt hryðjuverkaárás á vegum Hamas-hryðjuverkasamtakanna. Liðsmenn þeirra réðust inn í Ísrael frá Gaza-svæðinu 7. október 2023 og myrtu um 1.200 almenna borgara, einkum konur og börn, á grimmilegan hátt.

Dönsk yfirvöld staðfestu klukkan 13.00 að dönskum tíma (12.00 að ísl. tíma) fimmtudaginn 14. desember að danska öryggislögreglan (PET) hefði handtekið þrjá einstaklinga vegna gruns um brot á ákvæðum hegningarlaganna um hryðjuverk.

Grunur er um að fleiri einstaklingar sem starfa á vegum Hamas séu tengdir hryðjuverkaáformum sem voru afhjúpuð í Danmörku.  Þetta segir ísraelska forsætisráðuneytið við Reuters-fréttastofuna. Danska lögreglan hafi auk þess komið upp um „grunnkerfi Hamas“ í Evrópu.

Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Danmerkur, ræddi við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 síðdegis 14. desember og sagðist hvorki geta játað né neitað nokkru varðandi fréttirnar frá Ísrael um aðgerðir dönsku lögreglunnar.

Danska Ritzau-fréttastofan sagði síðdegis 14. desember að þýski ríkissaksóknarinn staðfesti að fjórir Hamas-liðar hefðu verið handteknir, þrír í Þýskalandi og einn í Hollandi. Þeir eru grunaðir um að vopnaflutninga til Berlínar til árása á samkomustaði gyðinga í Evrópu.

Marco Buschmann, dómsmálaráðherra Þýskalands, sagði í tilefni þessa að undanfarnar vikur hefði hættan á árás á stofnanir gyðinga í Þýskalandi aukist Mætti rekja það til hryllilegrar hryðjuverkaárásar Hamas á almenna ísraelska borgara.

„Við verðum þess vegna að gera allt í okkar valdi til að tryggja að gyðingar í landi okkar þurfi ekki að óttast að nýju um eigið öryggi,“ sagði þýski dómsmálaráðherrann.

Í dönskum fréttum kemur fram að ekkert hafi verið sagt af opinberri hálfu í Danmörku um að lögregla hafi fundið vopn í aðgerðum sínum.

Í fréttum þýskra fjölmiðla um Hamas-liða í Þýskalandi er ekki minnst á nein tengsl þeirra við Danmörku. Engin opinber staðfesting liggur fyrir um slík tengsl en PET hefur þó tekið fram að þræðir séu á milli aðgerðanna í Danmörku og þess sem gerðist erlendis.

 

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …