Home / Fréttir / Hamas-gagnaver undir netþjónastöð UNRWA á Gaza

Hamas-gagnaver undir netþjónastöð UNRWA á Gaza

Úr gagnvareri Hamas fyrir neðan netþjónastöð UNRWA á Gaza.

Hamas-hryðjuverkasamtökin földu eina mikilvægustu miðstöð sína á Gaza undir höfuðstöðvum UNRWA, umdeildrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínska flóttamenn. Ísraelski herinn upplýsti þetta í liðinni viku.

Hér er um að ræða gagnaver – fullbúið með rafstöðvarrými, rafhlöðubönkum og vistarverum fyrir Hamas-hryðjuverkamenn sem ráku tölvuþjónana. Það var einmitt falið undir þeirri byggingu þar sem talið var að Ísraelar myndu ekki leita að því eða dytti í að gera að skotmarki í loftárás.

Uppljóstrunin um gagnaverið og netþjónana bætist við ásakanir um að UNRWA hafi unnið með eða hylmt yfir hryðjuverkahópa á Gaza. Stofnunin kom til sögunnar eftir landnemastríðið vegna stofnunar Ísraelsríkis 1948 til að aðstoða landlausa Palestínumenn. Skjólstæðingum UNRWA fjölgaði árið 1967 eftir að arabar töpuðu sex daga stríðinu sem þeir hófu gegn Ísraelum undir forystu Nassers Egyptalandsforseta.

Í janúar 2024 sökuðu Ísraelar 12 starfsmenn UNRWA um að hafa tekið þátt í fjöldamorðunum 7. október 2023 undir forystu Hamas. Þeir drápu 1.200 manns og tóku 253 gísla.

Frá því að þessar ásakanir urðu opinberar seint í síðasta mánuði hafa mörg helstu ríki sem veita fé til UNRWA haldið að sér höndum. Fer fram rannsókn á þessum ásökunum á hendur UNRWA.

Fundur gagnaversins undir höfuðstöðvum UNRWA tengist henni ekki og réð tilviljun því að Ísraelsher fann þessa mikilvægu stöð Hamas.

Höfuðstöðvar UNRWA á Gaza eru í glæsilegu Rimal-hverfi Gaza-borgar. Þar hafði Ísraelsher farið um í upphafi innrásarinnar og brotið upp kjarna Hamaz-liða á svæðinu án þess að finna gagnaverið í iðrum jarðar.

Í fréttum segir að rannsókn hertekinna gagna og yfirheyrslur yfir hryðjuverkamönnum hafi komið Ísraelsher á sporið og þess vegna hafi hann snúið að nýju til þessa svæðis og grandskoðað það.

Benny Aharon, ofursti í Ísraelsher, fór með fjölmiðlamenn um göngin og mannvirki Sameinuðu þjóðanna fimmtudaginn 8. febrúar.

Vegna gagna sem Ísraelar hafa aflað sér á sókn sinni suður eftir Gaza-ströndinni hafa þeir sent hermenn til norðurhluta hennar að nýju til að leita af sér grun um leynilega starfsemi Hamas þar, ekki síst neðanjarðar. Þetta eru ekki mannfrekar aðgerðir en krefjast tíma, rannsókna og þolinmæði.

Blaðamenn sáu að aðalinngangur jarðganganna undir mannvirkjum SÞ var undir UNRWA-skóla á svæðinu. Hamas hafði lokað honum fyrir þegar hermenn Ísraels komu á staðinn. Verkfræðideild Ísraelshers fundu grynnsta hluta ganganna þegar þeir höfðu grafið átta metra niður.

Blaðamenn fóru með sérþjálfuðum hermönnum Ísraels í göngin. Þar var hiti og raki þar sem loftræstikerfi Hamas var óvirkt.Var blaðamönnum bent á að fara úr skotheldum vestum sínum til að þola betur hitann.

Í blaðinu Times of Israel er ferð blaðamannanna og því sem fyrir augu bar lýst af nákvæmni og sagt að sama lýsing eigi við önnur göng Hamas undir Gaza sem myndi net sem teygi sig hundruð kílómetra.

Meðfram ganginum voru nokkur herbergi, þar á meðal eldhúskrókur, fundarherbergi með skrifstofustólum, tvö baðherbergi og vistarverur með nokkrum dýnum.

Þessi herbergi eru undir UNRWA-skólanum og bera þess merki að þau hafi verið grafin út á löngum tíma fyrir mikið fé og af miklum ásetningi um að leynast í skjóli bygginga SÞ.

Í göngunum hafa fundist rafskutlur til að komast leiðar sinnar hraðar en fótgangandi í göngunum.

Frá aðalganginum lá 300 metra gangur að gagnaveri og nærliggjandi rafmagnsherbergi. Ofanjarðar eru turnar háhýsa og umferðaræð. Í herberginu eru rafmagnsskápar, aflbreytar og tugir iðnaðarrafhlaðna sem eru ótengdar rafmagnkerfinu.

Nokkra tugi metra frá rafmagnsherberginu er hjarta stöðvarinnar, gagnaver Hamas, netþjónaskápar með tölvum til að stjórna aðgerðum Hamas. Gagnaverið er undir aðalbyggingu UNRWA.

„Við erum núna í hjarta leyndarmálsins… undir aðalbyggingu UNRWA. Hér geymdi Hamas leyniþjónustuþjóna sína,“ sagði ísraelskur herforingi við blaðamennina. Hann sagði að það væri ekki unnt að eyðileggja þessa stöð án þess að senda menn inn í hana í þeim tilgangi.

Ísraelsher telur að Hamas hafi notað netþjónabúið til upplýsingaöflunar, gagnavinnslu og samskipta. Harðir diskar og tölvur hafa verið fluttar til Ísraels til frekari rannsókna. Jarðgöngin sjálf hafa verið eyðilögð með öflugri sprengju.

Eftir að blaðamennirnir höfðu skoðað göngin var þeim ekið í brynvörðu ökutæki að höfuðstöðvum UNRWA. Var það gert því að þeir sem ganga undir beru lofti á þessum stað eru kjörin skotmörk fyrir Hamas-leyniskyttur.

Höfuðstöðvarnar báru annan svip en margar nálægar byggingar sem voru rústir eftir árásir Ísraela, þeir höfðu látið byggingar SÞ í friði.

Þarna stóð UNRWA HQ GAZA til að greina mannvirki frá öðrum. Í garði bygginganna höfðu verkfræðingar Yahalom-einingar Ísraelshers hins vegar opnað stokk niður í rafmagnsherbergi Hamas-gagnaversins.  Um hann var send ljósmyndavél til að kanna aðstæður áður en hermenn voru sendir í göngin.

Í höfuðstöðvum UNRWA sagði herforingi í Ísraelsher að menn  hans hefðu fundið skotfærabirgðir Hamas þegar þeir réðust inn í byggingarnar og tókust á við vopnaða liðsmenn Hamas sem héldu þar uppi vörnum þótt allir starfsmenn SÞ hefðu verið horfnir á brott.

Í sumum skrifstofum UNRWA hefðu hermenn Ísraels fundið búnað og skjöl sem bentu til að skrifstofurnar hefðu einnig verið notaðar af Hamas-hryðjuverkamönnum.

„Það er enginn vafi á því að starfsmenn UNRWA vissu að [Hamas] var að grafa risastór göng undir fótum þeirra,“ sagði herforinginn „Það er steinveggur um lóðina, hlið, myndavélar, við hliðið skrá þeir sig sem koma og fara. Allir sem störfuðu hjá UNRWA vissu vel hverjir fóru um hliðið og fyrir hverja þeir störfuðu þótt þeir þættust ekki gera það.“

„UNRWA veitir Hamas skjól, UNRWA veit nákvæmlega hvað er að gerast neðanjarðar og UNRWA notar fjárveitingar til að fjármagna hluta af herkostnaði Hamas, þetta er alveg á hreinu,“ sagði foringinn.

Í aðalbyggingunni í SÞ-samstæðunni var farið með blaðamennina að netþjónaherbergi UNRWA. Það var beint fyrir ofan neðanjarðar gagnaver Hamas þar sem blaðamennirnir höfðu verið stuttu áður.

Sagði herforinginn að snúrur úr netþjónamiðstöð UNRWA lægju til Hamas og sama mætti segja um rafstrengi úr byggingum SÞ til neðanjarðarbyrgja Hamas.

Netþjónaherbergi UNRWA virtist, ólíkt Hamas-herberginu, að mestu tómt.

„Þeir hreinsuðu út allar tölvur, allar DVR (stafræn myndbandsupptökutæki fyrir eftirlitsmyndavélar), klipptu [flestar] snúrurnar í sundur, aðeins þeir sem hafa eitthvað að fela haga sér svona,“ sagði herforinginn.

Hann taldi að starfsmaður UNRWA, sem ætti að tryggja mannréttindi og velferð Gaza-búa, hefði ekki séð ástæðu til að þurrka út gögn um störf sín með því að klippa á alla víra og fjarlægja allar tölvur við brottför af vinnustað. Þetta gerði aðeins einhver sem vissi að Ísraelsher væri að koma og vildi þess vegna eyða sönnunargögnum með hraði.

Þá var bent á að Hamas hefði ekki fyrir tilviljun valið bólfestu fyrir dýrmætan búnað sinn og lykilstarfsemi á þessum stað. Þar vissu menn að í fyrri hernaðarátökum hefði Ísraelsher ekki talið sig hafa lögheimild til að vega að UNRWA.

Ísraelar hafa ekki aðeins sakað UNRWA um leynimakk með Hamas heldur einnig sagt að þessi stofnun SÞ haldi endalaust lífi í átökum Ísraela og Palestínumanna með því að skilgreina sem flóttamenn milljónir afkomenda þeirra Palestínumanna sem flýðu eða neyddust til að yfirgefa heimili sín við stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þess í stað ættu aðeins þeir sem flýðu 1948 að teljast flóttamenn. Sú regla gildi almennt um flóttamenn um heim allan.

Auk ásakana um samráð þeirra við Hamas, hafa Ísraelar einnig lengi sakað UNRWA um að viðhalda deilum Ísraela og Palestínumanna með því að útvíkka stöðu flóttamanna til milljóna afkomenda Palestínumanna sem flúðu eða voru neyddir til að yfirgefa heimili í Ísrael í dag á þeim tíma sem stofnun gyðingaríkis árið 1948, frekar en að takmarka slíka stöðu aðeins við upprunalega flóttamennina, eins og tíðkast hjá flestum flóttamannahópum um allan heim.

Frakkinn Philippe Lazzarini, forstjóri UNRWA, sagði á X laugardaginn 10. febrúar að hann hefði ekki haft neina hugmynd um gagnver Hamas beint undir höfuðstöðvum UNRWA á Gaza. Hann sagði að lýsingar á því sem þarna væri að finna kölluðu á sérstaka rannsókn. Hún gæti ekki farið fram núna vegna bardaga á Gaza.

Hann sagði starfslið UNRWA hafa yfirgefið stöðina í Gaza 12. október 2023 samkvæmt fyrirmælum Ísraela og þegar sprengjuárásum fjölgaði á svæðinu. „Við höfum ekki notað aðstöðuna síðan við fórum þaðan og vitum ekki um nokkra starfsemi sem kann að hafa farið þar fram.“

(Heimild: Times of Israel)

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …