Home / Fréttir / Hálf öld frá sovésku innrásinni í Prag – Rússar haldnir fortíðarþrá

Hálf öld frá sovésku innrásinni í Prag – Rússar haldnir fortíðarþrá

 

Friðsamir borgarar reyndu árangurslaust að stöðva skriðdrekana á götum Prag.
Friðsamir borgarar reyndu árangurslaust að stöðva skriðdrekana á götum Prag.

Meira en þriðjungur Rússa telur að það hafi verið rétt ákvörðun hjá stjórnvöldum Sovétríkjanna að ráðast inn í Tékkóslóvakíu árið 1968 og nær helmingur Rússa segir að hann viti alls ekkert um innrásina. Frá þessu er sagt í breska blaðinu The Guardian en þess er minnst mánudaginn 20. ágúst að 50 ár eru liðin frá því að Sovétmenn kæfðu vorið í Prag eins og frelsisbarátta Tékkóslóvaka var nefnd.

Niðurstöður könnunarinnar verða birtar 20. ágúst og segir Lev Gudov hjá rússnesku Levada-miðstöðinni sem gerði hana að þær sýni endurvakningu á „staðalímyndum sovét-tímans eins og þær birtust í áróðri Brezhnevs-stjórnarinnar“.

Rúm 20% Rússa segja að „undirróður vestrænna ríkja“ hafi splundrað samstöðu kommúnistaríkjanna með því að ýta undir frjálsræðisstefnuna í Tékkóslóvakíu sem leiddi til þess að sovéskur herafli var sendur inn í landið til að stöðva framgang hennar.

Innrásin var gerð í nafni Varsjárbandalagsins og spillti svo mjög áliti Sovétríkjanna í Evrópu að dró til þáttaskila í afstöðu til þeirra. Hennar eru engin skil gerð í rússnesku sjónvarpi og stjórnmálamenn hafa ekki orð á henni.

Andrei Kolesnikov, við Carnegie-stofnunina í Mosksvu, segir: „Almennt talað þá vilja yfirvöldin ekki beina neinni athygli að afmælinu.“

Fortíðarþrá til Sovétríkjanna vex í Rússlandi þar sem menn tengja minninguna um stjórn kommúnista sigrinum á Þýskalandi nazismans í síðari heimsstyrjöldinni og stöðu Sovétríkjanna sem risaveldis. Sérfræðingar segja að dregin sé fjöður yfir svartari skeið í sovéskri sögu eða leitast við að túlka þau í ljósi samsæriskenninga.

Að kvöldi 20. ágústs 1968 fóru skriðdrekar og herafli Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsríkjanna inn í Tékkóslóvakíu til að brjóta umbætur í átt til frjálsyndis á bak aftur en þær voru kallaðar „sósíalismi með mannlegri ásýnd“. Umbótasinnaða kommúnistaleiðtoganum Alexander Dubček var velt úr sessi. Fréttir og myndir af sovéskum skriðdrekum á götum Prag vöktu reiði á og leiddu til þess að nokkrir kommúnistaflokkar á Vesturlöndum slitu tengsl við flokkinn í Moskvu.

Vegna innrásarinnar 1968 féllu á níunda tug manna, margir voru skotnir, aðrir létust af sárum sínum. Frá þessu var sagt í skjölum stjórnvalda í Tékkóslóvakíu sem ekki voru birt fyrr en um 20 árum eftir atburðina þegar valdakerfi kommúnista var í upplausn.

„Það er skipulega unnið að því að fjarlægja þessa atburði úr opinberu minni,“ segir Lev Gudkov, forstjóri Levada-miðstöðvarinnar.

Könnunin sýnir að 36% Rússa telja Sovétstjórnina vissulega eða líklega hafa „gert rétt“ með því að senda herlið inn í Tékkóslóvakíu. Þá segja 45% erfitt að meta hvort Sovétstjórnin hafi gert rétt eða ekki, árið 2003 svöruðu 34% á þennan hátt.

Aðeins 10% aðspurðra á aldrinum 18 til 35 ára segjast vita um vorið í Prag. Gudkov segir að unga fólkið viti ekkert um þetta og vilji ekki vita hvað gerðist.

Hann segir að nýju niðurstöðurnar sýni afstöðu almennings til þess sem Rússar standi frammi fyrir í stjórnmálum á alþjóðavettvangi um þessar mundir, eins og afleiðingum innlimunarinnar á Krímskaga árið 2014. „Ég held að í þessu birtist almenn siðblinda stórveldis sem er nú grundvöllur nýrrar heimsvaldastefnu undir Pútín og stuðningur við innlimun Krímskaga,“ segir Gudkov.

Um fjórðungur Rússa segir að þeir hafi heyrt um mótmælendurna átta sem komu saman á Rauða torginu í Moskvu 1968 til að andmæla innrásinni með spjöldum sem á stóð: „Við töpum bestu vinum okkar“ og „Í þágu okkar frelsis og ykkar“. Mótmælendurnir máttu síðan dúsa árum saman í fangeslum eða á geðveikrahælum.

„Hagsmunir ríkisins eru að fela raunverulegan tilgang sögulegra atvika af þessu tagi. Túlkun þeirra á sögu Rússlands er reist á sögu stjórnsnillinga og herforingja ekki borgaranna,“ segir Kolesnikov.

Hann dregur einnig athygli að því að atburðirnir hafa verið faldir í samsæriskenningu. Árið 2015 var sýnd heimildarmyndin: Varsjárbandalagið: Birting trúnaðarskjala. Þar var gengið svo hart fram við að réttlæta innrásina í Prag að tékkneska utanríkisráðuneytið sá ástæðu til að hreyfa mótmælum. Í myndinni var látið að því liggja að fundist hefðu leynileg vopnabúr, ekkert í þá veru hefur þó verið sannreynt.

Í könnuninni skeltu 21% skuldinni á samsæri Vesturlanda og 23% sögðu að atburðirnir 1968 hefðu orðið vegna valdaránstilraunar andstæðinga sovéskra forystumanna í Tékkóslóvakíu. Um 18% Rússa segja þetta hafa verið „uppreisn gegn ríkisstjórn á vegum Sovétríkjanna“. Árið 2008 voru 31% þessarar skoðunar.

Heimild: The Guardian

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …