Home / Fréttir / Hættulegra að vera háður kínversku farkerfi en rússnesku gasi

Hættulegra að vera háður kínversku farkerfi en rússnesku gasi

Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Strand Consult hefur rannsakað hlutdeild kínverskra risafyrirtækja eins og Huawei og ZTE í fjarskiptatæknibúnaði í Evrópu. Var sagt frá niðurstöðum í skýrslu fyrirtækisins í Jyllands Posten föstudaginn 30. desember. Þær sýna að kínversku tæknirisarnir hafa skotið rótum og gegna lykilhlutverki við 5G-væðingu farkerfisins í átta ESB-löndum. Þar hafa yfirvöld ákveðið að hafa viðvaranir Bandaríkjastjórnar, njósnastofnana og öryggissérfræðinga að engu.

Í danska blaðinu segir að þar í landi sé litið á kínversku fyrirtækin og búnað frá þeim sem öryggisógn. Þau eru sökuð um nána samvinnu við kínversk stjórnvöld. Þá banna stjórnvöld í Færeyjum og Grænlandi einnig þennan kínverska hátæknibúnað. Kínversku fyrirtækjunum er jafnframt haldið frá Noregi, Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum.

Í frétt ríkisútvarpsins 28. nóvember 2022 sagði að tækni frá Huawei væri víða nýtt hér á landi og netbeinar (e. routerar) frá fyrirtækinu væru algengir hjá íslenskum fjarskiptafélögum. Þá hefði fyrirtækið verið stórtækt í uppbyggingu 5G-innviða hér á landi, bæði fyrir Vodafone og Nova.

„Enn sem komið er höfum við ekki gert neinar breytingar enda ekkert staðfest, njósnir eða lekar eða slíkt. Þannig að við höldum bara áfram því sem við höfum verið að gera, við höfum unnið með Huawei síðustu 15 árin,“ sagði Sigurbjörn Eiríksson, forstöðumaður innviða hjá Sýn, við ríkisútvarpið 28. nóvember.

Hrafnkell V. Gíslason, forstöðumaður Fjarskiptastofu sagði: „Við höfum ekki fengið neinar staðfestar upplýsingar um að svona búnaður sé notaður til hlerana eða ólögmætra athafna.“

Íslensk stjórnvöld fara þannig ekki að fordæmi Dana, Kanadamanna, Breta og Bandaríkjamanna sem banna kínverska búnaðinn hjá sér heldur halla sér að mati þeirra sem sjá ekki ástæðu til þess.

Þjóðverjar, stærsta og valdamesta þjóðin innan ESB, eru til dæmis mjög háðir kínverskri tækni við 5G-væðinguna hjá sér vegna viðskipta Deutsche Telekom og Vodafone við kínversku fyrirtækin.

Jyllands Posten segir að í Þýskalandi sé 59% af loftnetsbúnaði í 5G-fjarskiptamöstrum frá Huawei, búnaðurinn tengir viðskiptavini við farnetið. Í Hollandi er þetta hlutfall 72%, í Austurríki 61% og 51% á Ítalíu.

„Þetta er hættulegra en að vera háður gasi frá Pútin. Það felst meiri ógn í því að vera háður kínversku farneti. Stafræn grunnvirki gegna lykilhlutverki í samfélögum okkar,“ segir John Strand sem starfar við ráðgjafarfyrirtækið að baki rannsókninni.

Hann bendir á að það versta sem gerst geti við að lokað sé fyrir rússneskt gas sé að Evrópumenn fái ekki nægan hita eða verði kannski að hætta einhverri framleiðslu. Það hafi neikvæð efnahagsleg áhrif og leiði til verðbólgu en drepi engan.

„Geti Kínverjar hins vegar lokað 5G farkerfinu kann það að hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Það getur til dæmis komið í veg fyrir að heilbrigðisstarfsmenn komist í sjúkraskrár og upplýsingar um sjúklinga. Það kann að hafa áhrif á orkuflutninga og samgöngur, bankar geta orðið gjaldþrota á nokkrum klukkustundum,“ segir John Strand.

Með 5G farkerfinu verða öll samskipti á netinu og gagnaflutningar hraðari en með 4G kerfinu. Hættan er sú að mati öryggisfræðinga að í gegnum netið geti Kínverjar stundað njósnir eða gert netárásir á Vesturlönd til dæmis með því að loka netkerfum sem skipta öllu fyrir heilbrigðiskerfið, orkukerfið og önnur grunnkerfi samfélagsins.

John Strand segir að í gegnum þessi kaup á hátækni frá Kína kunni kaupendurnir að lenda í þröngri stöðu gagnvart kínversku seljendunum sem eigi allt sitt undir kínverskum stjórnvöldum.

„Þjóðverjar hafa sem stórþjóð gífurleg áhrif á stefnu ESB. Þess vegna geta þeir haft áhrif á hvaða stefnu ESB fylgir gagnvart Kína, til dæmis ráðist Kínverjar á Tævan,“ segir Strand. Hann minnir á að Ungverjar sem séu mjög háðir gasi og olíu frá Rússlandi hafi oft lagst gegn refsiaðgerðum gegn Rússum.

Í frétt Jyllands Posten er bent á að þessi nýja skýrsla birtist skömmu eftir að Margrethe Vestager, fulltrúi Dana í framkvæmdastjórn ESB, vakti athygli á að ýmis ESB-ríki hefðu samþykkt nýja löggjöf um að útiloka megi birgja, sem kunni að valda mikilli hættu, frá því að koma að mikilvægum þáttum stafrænna grunnvirkja. Í löndunum hefði löggjöfin þó ekki komið til framkvæmda.

„Þetta á ekki aðeins við um Þýskaland en Þýskaland kemur þarna einnig við sögu,“ sagði Vestager í nóvember.

Talsmenn Kínastjórnar og Huawei hafa hvað eftir annað hafnað þessari vestrænu gagnrýni. Sendiráð Kína í Kaupmannahöfn segir að Huawei sé einkafyrirtæki og krefst þess að það sæti ekki mismunun í Danmörku.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …