
Breska flugmálastjórnin Civil Aviation Authority (CAA) hefur gefið út „dróna-reglur“ eftir að hættuleg atvik hafa orðið við breska flugvelli. Í reglunum kemur fram að það getur kostað dróna-stjórnendur fangelsisrefsingu skapi þeir hættu með ábyrgðarleysi við stjórn dróna á flugi.
Reglurnar eru birtar vegna þess að sífellt fleiri fyrirtæki og einstaklingar nýta sér fremur ódýra dróna í Bretlandi. CAA hefur skráð sex „alvarleg atvik“ á liðnu ári, þau snúast um að drónum var flogið í innan við sex metra fjarlægð frá farþegavél – þar á meðal við Heathrow-flugvöll.
Í mars 2015 sá flugstjóri 150 sæta Airbus-vélar á leið niður að Heathrow-flugvelli sérkennilegan svartan hlut í 550 m hæð, talið er að það hafi verið dróni. Vélin flaug 15 m fyrir neðan hlutinn.
Tim Johnson, sem fer með dróna-mál á vettvangi CAA segir að við breska flugvelli sé loftumferðin ein sú þéttasta í heimi og þetta verði dróna-eigendur að hafa í huga. Það verði að setja lög og reglur svo að öryggi allra sem nota loftrýmið sé tryggt.
Nú hafa rúmlega 800 fyrirtæki verið skráð í Bretlandi á lista yfir þá sem heimilt er að nota dróna. Sum bjóða frumlega þjónustu eins og Angels Away sem tekur að sér að dreifa ösku látinna úr dróna.
Fyrir tveimur vikum sagði fréttastofa ríkisútvarpsins frá því að innanríkisráðuneytið mundi á næstum kynna til umsagnar drög að reglugerð um notkun dróna. Þar er mælt fyrir um að drónar séu rekjanlegir en ekki þurfi sérstakt leyfi nema að þeir séu þyngri en 30 kíló. Engin hefur yfirlit um fjölda dróna á Íslandi fréttastofan sagði á hinn bóginn ljóst að þeim fjölgaði ört.
Samgöngustofa hefur lokið við að semja drög að reglugerð um ómönnuð loftför eða svokallaða dróna. Drögin hafa verið send til innanríkisráðuneytisins sem mun kynna þau til umsagnar á næstunni. Í fréttinni kom fram að ekki stæði til að setja „mjög íþyngjandi reglur“ hér á landi en gætt yrði þess að farið yrði eftir landslögum og reglum sem giltu um friðhelgi einkalífs. Horft sé til sérstöðu Íslands hvað varði mikla fjarlægð frá loftrými annara landa. Einkum hefði verið stuðst við danskar og sænskar reglur um dróna. Í dönsku reglunum væri kveðið á um að flughæð mætti ekki fari yfir 100 metra. Fjarlægð frá herflugvöllum yrði að vera að lágmarki 8 kílómetrar, 5 kílómetrar frá flugvöllum, 150 metrar frá þéttri byggð, 200 metrar frá slysstað, 150 metrar frá þjóðvegum og loks 150 metrar frá húsakynnum konungsfjölskyldunnar.