Home / Fréttir / Hætta á farandbylgju í Evrópu vegna valdaráns í Níger

Hætta á farandbylgju í Evrópu vegna valdaráns í Níger

Forystumenn valdaránsins í Níger.

 

Í grein á vefsíðu The Spectator föstudaginn 11. ágúst segir dálkahöfundurinn Gavin Mortimer að Mohamed Bazoum, sem bolað var frá völdum sem forseti Afríkuríkisins Níger, hafi fyrst vakið athygli evrópskra fjölmiðla eftir miklu bylgju farandfólks til Evrópu árið 2015. Hann hafi borið ábyrgð á samningi milli Níger og ESB til að hemja straum fólks um Níger á leið til Miðjarðarhafsstrandar.

Meginhluti karla, kvenna og barna sem vildi komast til Evrópu varð að fara um borgina Agadez í Níger. Hún hefur um aldir verið viðkomustaður farandfólks í Afríku. Flestir fóru nú af fúsum og frjálsum vilja um borgina en sumir voru fluttir nauðugir eins og til dæmis konur frá Nígeríu sem sendar voru til kynlífsstarfa í Evrópu.

Borgin var kölluð „hlið Vestur-Afríku til Líbíu“. Þar voru bækistöðvar þeirra sem stunduðu mansal eða tóku að sér að smygla fólki norður yfir Sahara, tæplega 1000 km til Líbíu.

Þar til Muammar Gaddafi var hrakinn frá völdum og drepinn fyrir tilstilli Vesturlanda árið 2011 kom farandfólkið að lokuðum landamærum Líbíu. Eftir fall einræðisherrans hefur ríkt stjórnleysi í landinu. Árið 2010 fóru aðeins 4.450 ólöglega yfir miðhluta Miðjarðarhafs til Ítalíu, árið 2014 var fjöldinn orðinn 170.665 og náði hámarki tveimur árum síðar 181.459. Talið er að um 75% þessa fólks hafi farið um Níger á leið sinni til strandar.

Fjöldinn snarminnkaði síðan og var 14.874 árið 2019. Þetta mátti að mestu rekja til aðgerða stjórnvalda í Níger sem samþykktu árið 2015 lög 36, þar sem öll fyrirgreiðsla við farandfólk var gerð refsiverð, mansal og smygl.

Bazoum gekk hart fram við framkvæmd laganna og ávann sér virðingu og traust meðal forystumanna innan ESB. Þess vegna er nú sagt að Bazoum sé „bandamaður“ Vesturlanda.

Níger aflaði sér tekna frá ESB með lögunum og markvissri framkvæmd þeirra. Voru ýmsir ráðamenn í Níger sakaðir um að hafa dregið hluta þessa fjár til sjálfra sín.

Á Agadez voru síður en svo allir sáttir við að borgin hætti að verða „hlið“ til norðurs. Íbúar borgarinnar eru um 140.000 og þegar viðskiptin vegna farandfólksins voru sem mest 2015/16 er talið að rúmlega helmingur heimila í borginni hafi hagnast á einn hátt eða annan á straumi fólks um borgina og átt aðild að farandþjónustunni.

Almennt var lögum 36 því illa tekið í Níger. Bazoum tókst þó að ná kjöri sem forseti Níger í kosningum 2021. Varð hann fyrstur manna til að hljóta lýðræðislega kosningu í forsetaembættið frá því að Níger hlaut sjálfstæði frá Frökkum árið 1960. Við kjörið efndu andstæðingar hans til mótmæla og sökuðu hann um kosningasvindl.

Sem forseti hélt Bazoum fast í lög 36 með stuðningi ESB. Engu að síður hafa næstum 90.000 komist ólöglega yfir Miðjarðarhaf í ár, aðeins 15.000 færri en komust þangað allt árið 2022. Taka smyglarar rúmlega 3.000 evrur (500.000 ISK) í fargjald yfir hafið á vanbúnum og yfirhlöðnum manndrápsfleytum.

Áhyggjur stjórnvalda í Evrópuríkjum vaxa dag frá degi vegna þessarar þróunar og er miklum hörmungum spáð verði stríð í Níger.

Vesturlönd styðja svonefndan Ecowas-hóp 15 Afríkuríkja. Sögu Ecowas, Economic Community of West African States, Efnahagssamtaka Vestur-Afríkuríkja, má rekja aftur til 1975. Níger er í hópi þessara ríkja.

Að kvöldi fimmtudagsins 10. ágúst tilkynnti Ecowas að ríkin væru til þess búin að hlutast til um málefni Níger „til að endurreisa stjórnskipun landsins“.  Herforingjarnir sem hrifsuðu völdin í Níger segjast grípa til vopna gegn hverjum sem reyni að steypa þeim af stóri. Þeir eru með Mohamed Bazoum og fjölskyldu hans í haldi og hóta að lífláta þau verði gerð tilraun til að hrófla við byltingarstjórninni með valdi. Þá segjast þeir njóta stuðnings herforingjastjórna í Malí og Burkina Faso, í báðum löndum hafa orðið stjórnarbyltingar á undanförnum tveimur árum. Stjórnir landanna tveggja hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að innrás í Níger yrði „gróft brot á alþjóðalögum“ sem mundi hafa „hroðalegar afleiðingar fyrir allt svæðið“.

Volker Turk, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti föstudaginn 11. ágúst yfir áhyggjum vegna Mohameds Bazoums og fjölskyldu, þau byggju við „hríðversnandi“ aðstæður

„Trúverðugar frásagnir sem mér hafa borist benda til þess að lýsa megi aðbúnaði þeirra sem eru í haldi sem ómannúðlegum og þau sæti niðurlægjandi meðferð sem brjóti í bága við alþjóðlegar mannréttindasamþykktir,“ sagði Turk í frétt frönsku France24 fréttastofunnar.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …