Home / Fréttir / Hætta á árekstrum Rússa og Vesturlanda eykst um heim allan

Hætta á árekstrum Rússa og Vesturlanda eykst um heim allan

RUSSIA-UKRAINE-BRITAIN-NETHERLANDS-ENERGY-OIL-CRISIS-SANCTIONS-E

Hafið er nýtt kalt stríð milli Rússa og Vesturlanda sem kann að leiða til vaxandi árekstra um heim allan þegar Vladimír Pútin Rússlandsforseti vegur að alþjóðlegum yfirburðum Bandaríkjamanna. Þetta er samdóma álit sérfróðra manna um hermál og utanríkismál í Moskvu. Þeir vara við því að ástandið í samskiptum Rússa og Vesturlanda kunni að versna svo mjög að það líkist Kúbu-eldflaugadeilunni á sínum tíma þegar heimsfriður hékk á bláþræði.

Þannig hefst frásögn sem Roland Oliphant, fréttaritari bresku Telegraph-vefsíðunnar í Moskvu, skrifar og birtist á síðunni sunnudaginn 23. október.

„Ef við berum okkur saman við kalda stríðið erum við nú einhvers staðar á milli þess að Berlínarmúrinn var reistur og Kúbudeilunnar,“ sagði Evgeníj Buzhinskíj, fyrrverandi yfirmaður í rússneska varnarmálaráðuneytinu en nú forstjóri PIR, hugveitu í Moskvu.

„Með öðrum orðum við römbum á barmi styrjaldar en án nauðsynlegra úrræða til að hafa stjórn á ferlinu.“

Laugardaginn 22. október sakaði rússneska utanríkisráðuneytið ríkisstjórn Bandaríkjanna um að reyna að „eyðileggja samskiptin við Rússa endanlega“.

Sergei Rjabkov vara-utanríkisráðherra sagði að rússnesk stjórnvöld mundu svara í sömu mynt grípi Bandaríkjamenn til nýrra refsiaðgerða gegn Rússum vegna loftárása þeirra í Aleppó.

Oliphant segist hafa heimildir fyrir því að innan Kremlar hafi menn þegar ákveðið að hætta öllum stjórnmálasamskiptum við Bandaríkjastjórn þar til að minnsta kosti eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 8. nóvember í þeirri von að þeim takist að skapa „einlægara“ samband við eftirmann Baracks Obama.

Ákvörðun í þessa veru er sögð hafa verið tekin eftir að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hætti öllu samráði vegna Sýrlands með þeim orðum að Rússar hefðu rústað margra mánaða viðleitni til samkomulags. Embættismenn í Moskvu segja að Bandaríkjamenn hafi oft rofið umsamdar skuldbindingar.

Oliphant segir að Pútín hafi i fyrri viku sýnt hve víðtækur ágreiningurinn við Bandaríkjamenn er þegar hann setti ofan í við rússneskan blaðamann sem spurði hvers vegna ágreiningurinn um Sýrland hefði orðið til að eyðileggja sambandið við Bandaríkjastjórn.

„Þetta er ekki vegna Sýrlands. Þetta snýst um að ein þjóð reynir að neyða ákvarðanir sínar upp á allan heiminn,“ sagði Pútín.

Þá segir breski blaðamaðurinn að Pútín hafi næstum gefið út yfirlýsingu um „kalt stríð“ 3. október 2016 þegar hann rifti samningnum um endurvinnslu á plútóníum vegna „óvinsamlegrar“ stefnu Bandaríkjastjórnar.

Sérfræðingar í málefnum Rússlands óttast að þetta uppbrot í stjórnmálasamskiptum auki hættuna á „heitu staðgengla-stríði“. Þá orða sumir jafnvel bein hernaðarátök milli Rússa og Vesturlanda.

Hugsanlegt er að upp úr sjóði á Eystrasaltssvæðinu þar sem spenna hefur magnast milli Rússa og NATO vegna gagnkvæmra áskana um ögranir. Þá er austurhluti Úkraínu nefndur til sögunnar en Rússar aðstoða og stjórna aðskilnaðarsinnum sem stofnað hafa lýðveldi í Donetsk og Luhansk.

Hættulegasti átakastaðurinn er þó Sýrland. Bashar al-Assad, Sýrlandsforseti í skjóli Rússa, sagði í fyrri viku að átökin þar hefðu nú þegar breyst í árekstur milli Bandaríkjamanna og Rússa.

Rússneska stjórnin leggur sig fram um að auka ítök sín i Mið-Austurlöndum til dæmis með því að bæta samskiptin við Egypta og Abdel Fattah el-Sisi, forseta Egyptalands. Nú í vikunni taka 500 rússneskir hermenn þátt í æfingu með her Egyptalands.

Vangaveltur eru um hvort Rússar ætli að opna herstöðvar að nýju á Kúbu og í Víetnam. Þeir sem þekkja til mála í Moskvu telja þó að núverandi ráðamenn þar vilji forðast jafndýrar skuldbindingar og hvíldu á Sovétstjórninni gagnvart vinastjórnum hennar víða um heim.

„Í staðgengla-ástandi leggja menn mikið með sér til skjólstæðinga sinna. Þeir vita hins vegar að mikið er lagt undir. Heimamenn skilja markmið komumanna betur en komumenn hvað fyrir heimamönnum vakir,“ sagði fræðimaður með þekkingu á stefnu Rússa í Mið-Austurlöndum. „Þetta gefur heimamönnum færi á að spila með komumenn.“

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …