Home / Fréttir / Hælisleitendur peð Rússa gagnvart Finnum

Hælisleitendur peð Rússa gagnvart Finnum

Fréttamenn finnska ríkisútvarpsins, Yle, ræddu við þrjá hælisleitendur sem komu til Finnlands frá Rússlandi um ferð þeirra að finnsku landamærunum. Þeir sögðu að rússnesk yfirvöld hefðu auðveldað þeim ferðalagið meðal annars með upplýsingum á Telegram– samfélagssíðunni, leigubílum og reiðhjólum.

Moayad Salami yfirgaf heimili sitt í Homs í Sýrlandi 5. nóvember. Hann flaug fyrst til Moskvu og hélt þaðan til bæjarins Kazan í Suðvestur-Rússlandi þar sem hann dvaldist í 10 daga með ættingjum sínum. Moayad Salami sagði Yle að hann hefði verið í laganámi áður en hann yfirgaf Sýrland. Hann starfaði sem sölustjóri hjá símafyrirtæki.

Hann hóf síðan ferð sína til Finnlands frá Kazan og flaug til St. Pétursborgar eins og smyglari hafði sagt honum að gera. Var honum sagt að við komuna þangað myndu smyglarar sjá um allt sem að ferð hans sneri.

Salami sagði Yle að hann hefði fundið smyglara á samfélagsmiðlinum Telegram þar sem auglýsingum um ferðir til finnsku landamæranna hefði fjölgað mikið undanfarið.

„Smyglarar bjóða alla velkomna. Það er látið berast að leiðin sé nú opin,“ segir Salami.

Í St. Pétursborg sagði smyglarinn Salami að framhald ferðar hans til finnsku landamæranna yrði í höndum hersins.

Yle segir að fréttamönnum hafi ekki tekist að sannreyna einstök atriði í ferðafrásögn Salamis. Það sé til dæmis ekki ljóst hvort það sé herinn, lögreglan eða landamæraverðir sem aðstoði fólk við að komast að finnsku landamærunum.

Salami segir að hann hafi ásamt fimm öðrum verið settur í farfuglaheimili í St. Pétursborg og þar hafi hann dvalist eina nótt.

Daginn eftir hefðu tveir leigubílar komið að farfuglaheimilinu og farið með mennina sex í átt að finnsku landamærunum. Leigubíllinn kostaði 100 dollara.

Þar sem rússneskir landamæraverðir tóku við þeim í stöð sinni keyptu mennirnir reiðhjól fyrir 300 dollara. Leitað var í farangri þeirra og þeir fengu um tíma hvorki að hafa vegabréf sín né síma. Þeir máttu ekki taka neinar myndir. Þarna biðu þeir í sjö til átta klukkustundir.

Þá voru þeir settir í bíl, Volvo, og þeim ekið að annarri rússneskri landamærastöð – nær finnsku landamærunum. Reiðhjólin voru á kerru.

Í síðari landamærastöðinni voru fingraför tekin af hópnum og afturkölluð áritun í vegabréfi þeirra um heimild til dvalar í Rússlandi. Þá fengu þeir vegabréf sín og síma.

Þeim var tilkynnt að þeir fengju ekki að snúa aftur til Rússlands og skipað að hjóla að finnsku landamærunum.

Rússneskur lögreglubíll fylgdi þeim þar til þeir áttu eftir innan við einn kílómetra að Finnlandi.

Salami fór yfir landamærin inn í Finnland í Vaalimaa-landamærastöðinni í suðausturhluta landsins miðvikudaginn 15. nóvember en stöðinni var lokað föstudaginn 17. nóvember. Hann er nú móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur þar til umsókn hans um alþjóðlega vernd verður afgreidd.

Salami segir að eftir lestur á samfélagsmiðlum viti hann að nú sé margt aðkomufólk í Rússlandi sem hafi árangurslaust reynt að komast frá Belarús til Lettlands, Litháens eða Póllands. Þar sé nú mikið rætt um hvort landamærahlið Finnlands séu opin eða lokuð.

Rayan Alhariri sagði einnig við Yle að ef til vill myndu margir hælisleitendur fara frá Belarús til Finnlands. Hann var í fyrstu í Belarús og reyndi árangurslaust að komast til Póllands og Lettlands. Síðan sá hann á Telegram að finnsku landamærin væru opin fyrir þá sem kæmu frá Belarús.

Hann sagði svipaða sögu og Salami um ferð sína til Finnlands. Hún hefði hafist í St. Pétursborg með leigubíl að rússneskri landamærastöð þar sem vegabréfið var tekið af honum.

Næst hafi „rússneskur herbíll“ tekið hóp hans „til lögreglustöðvar einhvers staðar inni í miðjum skógi“.

Þar hefðu Rússarnir slegið eign sinni á það sem þeir fundu á hverjum og einum. Alhariri sagði að 300 dollarar hefðu verið teknir af sér en 400-800 dollarar af öðrum, eftir því hvað þeir höfðu mikið af peningum á sér.

Í staðinn fengu þau reiðhjól sem Alhariri sagði einskis virði.

„Þeir sögðu okkur að segja Finnum að hjólin kæmu ekki frá rússneskum yfirvöldum heldur pólskum,“ sagði hann.

Alhariri fór yfir landamærin í Vaalimaa-stöðinni föstudaginn 17. nóvember, nokkrum klukkustundum áður en henni var lokað.

Á meðan fréttamaður Yle ræddi við Alhariri fékk hann upplýsingar um að Finnar hefðu lokað sjö af átta landamærastöðvum sínum við Rússland vegna þess að talið væri að Rússar sæktu nú að Finnum með fjölþátta aðgerðum.

„Ég tók eftir að þeir voru mjög samvinnufúsir,“ sagði hann um rússnesku embættismennina.

Þriðji viðmælandi Yle var Kamal Tawil og hafði hann sömu sögu að segja og Salami og Alhariri.

„Í rússneskri landamærastöð tóku embættismenn skilríki okkar jafnvel þótt þau væru í lagi. Okkur var haldið mjög lengi,“ sagði hann. Engin skýring var gefin á meðferðinni.

Tawil sagði að Rússar hefðu ekki leyft honum að fara að finnsku landamærunum án reiðhjóls. Strax eftir að hann keypti hefði hann verið sendur „með hraði“ að landamærunum. Sér og öllum öðrum hefði verið sagt að þeir fengju ekki að snúa aftur til Rússlands.

„Þetta var eins og skilyrði fyrir því að komast þaðan,“ sagði hann.

Moayad Salami sagðist vita að Finnar hefðu lokað hluta landamæra sinna vegna fjölþátta þrýstings Rússa. Hann sagði að svo virtist sem Rússar reyndu að fylla Finnland af hælisleitendum.

„Aðalástæðan er líklega Finnland gekk í NATO,“ sagði Salami fyrir utan að Finnar og aðrar ESB-þjóðir styddu Úkraínu.

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …