Home / Fréttir / Hælisleitendum stórfækkar á milli ára í Þýskalandi

Hælisleitendum stórfækkar á milli ára í Þýskalandi

A151

Thomas de Maiziére, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði í Berlín föstudaginn 30. september að fjöldi hælisleitenda í Þýskalandi hefði verið 890.000 árið 2015 það er að þeir hefðu verið töluvert færri en áður var talið, það er 1,1 milljón.

Ráðherrann sagði hærri töluna mega rekja til þess að hælisleitendur væru oft skráðir á fleiri en einum stað. Margir hefðu einnig farið til annarra landa í Evrópu eða að nýju á heimaslóðir. Hann sagði einnig:

„Engu að síður en fjöldinn mjög hár. …Við erum öll sammála um að atburðir haustsins í fyrra megi ekki endurtaka sig.“

Þýsk yfirvöld höfðu alls skráð 210.000 hælisleitendur á árinu 2016 miðvikudaginn 21. september. Maiziére sagði að þessi mikla fækkun frá árinu 2015 sýndi að aðgerðir til að stöðva fólksstrauminn til Evrópu hefðu skilað árangri, þar á meðal samningurinn við Tyrki.

Í samningnum er gert ráð fyrir að ESB leggi stjórnvöldum í Ankara til allt að 6 milljörðum evra enda stöðvi þeir ólöglegar ferðir fólks frá Tyrklandi til Grikkland og taki við því fólki sem ekki fær hæli innan ESB. Enn er rætt um hvernig staðið skuli að framkvæmd áforma um að afnema vegabréfsáritanir fyrir Tyrki sem ferðast til ESB-landa.

Í byrjun september 2015 ákváðu Austurríkismenn og Þjóðverjar að opna landamæri sín fyrir þúsundum hælisleitenda sem voru strandaglópar í Ungverjalandi.

Næstu mánuði sætti Angela Merkel Þýskalandskanslari gagnrýni fyrir að opna Þýskaland á þennan hátt fyrir flóttafólki. Ólík viðhorf til þessarar stefnu leiddu til ágreinings milli kristilegra demókrata (CDU), flokks Merkel, annars vegar og kristilegra sósíalista (CSU) í Bæjaralandi hins vegar. Fulltrúar fylkinganna hittust fimmtudaginn 29. september til að reyna að sætta sjónarmiðin.

Innan þeirra beggja er vilji til að stemma stigu við komu farand- og flóttafólks en ekki hefur náðst samkomulag um að heildarfjöldinn verði ekki meiri en 200.000 eins og Horst Seehofer, leiðtogi CSU, vill.

Merkel hélt fast í skoðunina sem hún kynnti í fyrra undir slagorðinu „okkur tekst það“ þar til að því kom nú í september 2016 að CDU fór halloka í kosningum til þings nokkurra sambandslanda. Þá sagðist kanslarinn vilja að hún gæti fært klukkuna til baka og búið Þjóðverja betur undir móttöku útlendinganna.

Í fyrra var ákveðið á vettvangi ESB að aðildarríkin ættu að skipta á milli sín hælisleitendum. Þá ætti að flytja frá landamæraríkjunum til annarra ESB-landa. Þessi stefna hefur sætt mikilli gagnrýni innan ESB, einkum í Póllandi og Ungverjalandi sem áður lutu stjórn kommúnista.

Í Visegrad-hópnum sem Ungverjar, Pólverjar, Tékkar og Slóvakar mynda hafna stjórnvöld að taka á móti hælisleitendum þrátt fyrir ákvörðunina innan ESB. Hefur þetta leitt til pólitísks vanda í sambandinu. Efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu í Ungverjalandi í október um hvort samþykkja eigi kvótastefnu ESB í útlendingamálum.

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …