Home / Fréttir / Hælisleitendum fækkar í Danmörku – Norðmenn reisa tjaldbúðir

Hælisleitendum fækkar í Danmörku – Norðmenn reisa tjaldbúðir

Flóttamenn í Danmörku.
Flóttamenn í Danmörku.

 

Fjöldi hælisleitenda í Danmörku hefur ekki verið minni í fimm ár en hann var í apríl og mars í ár. Danska útlendingastofnunin segir að 349 hafi sótt um hæli í apríl 2016 en þeir hafi verið 564 í apríl 2015. Hið sama á við sé farið lengra aftur og þarf að leita allt til ársins 2011 til að finna færri hælisleitendur í apríl og mars.

Í frétt danska ríkisútvarpsins DR segir að þessi þróun veki gleði innan mið-hægri flokksins Venstre, stjórnarflokksins. Marcus Knuth, talsmaður flokksins í útlendingamálum, fagnar að frá því að flokkurinn komst til valda hafi Danmörk fallið úr 5. sæti í 10. sæti sé litið til þeirra landa sem taka á móti flestum hælisumsóknum. Þetta sýni að harðari stefna ríkisstjórnarinnar skili árangri.

Hann viðurkennir að vissulega hafi hert landamæravarsla ESB heft straum farand- og flóttafólks en segir hins vegar að hertar reglur um fjölskyldusameiningu, skilaboðin um upptöku verðmæta í eigu aðkomufólks og hert stefna í útlendingamálum hafi dregið úr fjölda hælisumsókna.

Marcus Knuth telur þó ekki að vandinn vegna hælisleitenda sé úr sögunni. Hér sé um tímabundinn samdrátt að ræða, líklega fjölgi hælisumsóknum að nýju í sumar.

Í DR er einnig rætt við Martin Henriksen, talsmann Danska þjóðarflokksins, sem telur að landamæravarsla og hert útlendingalöggjöf hafi ráðið úrslitum um að fækka hælisumsóknum. Þess vegna skipti meginmáli að ríkisstjórnin haldi áfram á sömu braut. Enn verði að fækka hælisumsóknum, þær séu nú of margar. Framfylgja beri landamæravörslu og herða útlendingalögin enn frekar.

Noregur

Norska ríkisstjórnin leggur áherslu á að þeir hælisleitendur sem ekki þarfnist verndar í Noregi snúi til heimalands síns. Til að fylgja þessari stefnu eftir hefur stjórnin ákveðið að bjóða 500 hælisleitendum sem fyrstir ákveða að hverfa frá Noregi 10.000 n.kr. aukastyrk. Í gildi eru reglur um 20.000 n.kr. stuðning við þá hælisleitendur sem yfirgefa Noreg. Norska ríkisstjórnin rökstyður þennan fjárstuðning með því að mun ódýrara sé fyrir norska skattgreiðendur að fólkið fari úr landi en reyni að setjast að í Noregi.

Fyrir utan þessa aðgerð hafa norsk yfirvöld fylgst náið með aðgerðum Dana í útlendingamálum og til dæmis kynnt sér aðstæður í Næstved í Danmörku þar sem farand- og flóttafólki er komið fyrir í tjaldbúðum. Hefur verið gripið til sama ráðs í Noregi.

Norska útlendingastofnunin segir að nú sé 25.861 hælisleitandi í Noregi, flestir frá Sómalíu, þá Sýrlandi og Eritreu. Hælisumsóknum hefur heldur fækkað undanfarið en þær voru fleiri en nokkru sinni á árinu 2015.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …