Home / Fréttir / Hægrimenn undir forystu Netanyahus sigra í Ísrael

Hægrimenn undir forystu Netanyahus sigra í Ísrael

Nethanyahu-hjónin fagna kosningasigrinum.
Netanyahu-hjónin fagna kosningasigrinum.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, virðist á leið til að verða forsætisráðherra í fimmta sinn eftir þingkosningar þriðjudaginn 9. apríl. Úrslitunum er lýst sem mjög góðum fyrir forsætisráðherrann eftir harða baráttu flokks hans, Likud, við Bláa og hvíta miðjubandalagið undir forystu Bennys Gantz, fyrrverandi yfirmanns hers Ísraels.

Gantz bauð sig nú fram í fyrsta sinn og getur hann einnig vel við unað með því að fá jafnmarga þingmenn og Likud, 35 hvor flokkur. Smáflokkar til hægri segjast næstum allir ætla að styðja samsteypustjórn undir forsæti Netanyahus. Hægri flokkasamsteypan hefur 10 sæta meirihluta í Knesset, ísraelska þinginu, 65 þingmenn á móti 55. Gantz viðurkenndi ósigur sinn að kvöldi miðvikudags 10. apríl.

Athygli vekur hve kjörsókn araba var lítil. Meira en helmingur þeirra hélt sig heima. Um 20% íbúa Ísraels eru arabar. Þeir stóðu að sameiginlegum lista í þingkosningunum árið 2015 sem fékk 13 þingmenn og varð þriðji stærsti flokkurinn. Að þessu sinni var hópurinn sundraður sem dró úr tiltrú kjósenda. Jafnframt jókst spenna milli kynþátta í landinu.

Þá veikti araba að samþykkt voru lög í Knesset um að Ísrael væri þjóðríki gyðinga.

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …