Home / Fréttir / Gyðningaghatur magnast í Evrópu

Gyðningaghatur magnast í Evrópu

Sótt að flugvél frá Tel Aviv á flugvelli í Dagestan í S-Rússlandi 29. október 2023.

Gyðingahatur „á sér djúpar rætur sem rasismi í evrópskum samfélögum“ og ógnar tilvist gyðinga í álfunni og grundvallarmarkmiðum Evrópusambandsins sagði Michael O’Flaherty, forstjóri ESB-stofnunar um grundvallarréttindi, mánudaginn 30. október við breska blaðið The Guardian.

Hann sagði áhyggjuefni að aðeins þriðjungur almennra borgara teldi gyðingahatur mikið vandamál þegar enginn vafi væri á því að „dramatískir atburðir í samfélögum okkar verða kveikjan að viðbrögðum í anda gyðingahaturs“.

Hann sagði:

„Þetta gerðist á COVID-tímanum, þetta gerist núna vegna árásar Rússa [á Úkraínu] – og nú gerist það enn á ný. Fjölmiðlar og almannasamtök vara við hættunni á auknu gyðingahatri eftir því sem neyðarástandið magnast í Mið-Austurlöndum.

Ég er hreinskilnislega þeirrar skoðunar að við hvern neikvæðan stórviðburð í samfélögum okkar megi greina spor gyðingahaturs í honum. Það gefur til kynna að gyðingahatur eigi sér djúpar rætur sem rasismi í evrópskum samfélögum.“

O’Flaherty bætti við að það væri einnig „mikilvægt á þessum tímum að hafa vakandi auga með og fordæma hvers kyns hatur sem birtist í Evrópu, þar með hatur gegn múslímum“.

Þarna er meðal annars vísað til þeirra hatursaðgerða gegn gyðingum sem birst hafa í ýmsum löndum eftir hryðjuverkaárás Hamas gegn Ísrael 7. október og gagnhernað Ísraela á Gaza.

Í Frakklandi hafa 719 hatursrárásir á gyðinga verið tilkynntar til lögreglu frá 7. október en allt árið 2022 voru slíkar tilkynningar 436. Í fyrri hluta október voru tilkynningar í þessa veru í Bretlandi 13 sinnum fleiri en á sama tíma í fyrra.

Námsmenn úr hópi gyðinga í evrópskum háskólum segjast búa við stöðugan ótta um að eitthvað verði gert á hlut þeirra.

Að kvöldi sunnudagsins 29. október þusti múgur manns út á flugvöll við borgina Makhastjkala í héraðinu Dagestan í suðurhluta Rússlands þegar fréttir bárust um að flugvél frá Tel Aviv í Ísrael væri að lenda þar. Lýðurinn hrópaði: Frjálsa Palestínu.

Lögregla átti fullt í fangi með að halda aftur af þeim sem undir fánum Palestínu og með mótmælaspjöld gegn Ísrael vildu ráðast á flugfarþega og krefja þá um skilríki til að sjá þjóðerni þeirra. Þeir voru að leita uppi gyðinga. Þetta voru skipulagðar ofsóknir til að sýna samstöðu með Palestínu. Frá flugvellinum fór lýðurinn að hóteli í borginni og heimtaði að fá gyðinga afhenta. Rasisminn og ofsóknirnar tóku á sig gamalkunnan blæ úr síðari heimsstyrjöldinni.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …