Home / Fréttir / Guyanabúar vænta gullaldar af olíulindum

Guyanabúar vænta gullaldar af olíulindum

ol-index

Þegar tölfræði tungumála í heiminum er skoðuð kemur í ljós að kínverska (mandarín) er sú tunga sem flestir eiga að móðurmáli.  Hana tala rúmlega milljarður jarðarbúa.  Heldur færri alast upp í enskumælandi málsvæði.  Enska slær kínversku hins vegar við hvað varðar útbreiðslu en segja má að tungumálið sé talað í öllum heimshornum.  Á þessu er þó ein undantekning og það er Suður – Ameríka.  Þar ráða spænska og portúgalska ríkjum.  Ástæður þess má rekja til Tordesillas samningsins sem Spánverjar og Portúgalir gerðu sín á milli árið 1494 en með honum skiptu ríkin hinni nýuppgötvuðu Suður – Ameríku á milli sín.  Með nokkurri einföldun má segja að Portúgal hafi fengið Brasilíu þar sem portúgalska er töluð í dag en Spánverjar önnur ríki álfunnar.

Ensk tunga á sér reyndar eitt vígi á meginlandi Suður – Ameríku.  Um er að ræða landið Guyana.  Ríkið sem er rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland liggur í norðaustanverðri álfunni.  Landsmenn eru um 750 þúsund.  Hollendingar stjórnuðu landinu frá upphafi 17. aldar og fram til ársins 1796 þegar Bretar náðu yfirráðum þar.  Landið hlaut sjálfstæði árið 1966.

Íbúar Guyana eru efnalitlir en landið er þriðja fátækasta ríki Suður – Ameríku.  Nú kann hins vegar að vera að birta til fyrir landsmenn því nýlega fundust miklar olíulindir undan ströndum landsins.  Fyrir stuttu var fjallað um stöðu mála í Guyana í The Intelligence sem er eitt af hlaðvörpun (e. podcast) breska tímaritsins The Economist.  Fram kemur í hlaðvarpinu að bandaríska olíufyrirtækið ExxonMobil hafi fundið olíuna árið 2015.  Nokkur ár hefur tekið að hefja vinnslu en nú gætu íbúar landsins farið að hafa hagnað af henni.

Það flækir málið að stjórnmálaástandið í landinu er viðkvæmt.  Þann 2. mars síðastliðinn voru þingkosningar og bar núverandi stjórnarbandalag sigur úr býtum.  Stjórnarandstaðan telur að brögð hafi verið í tafli og kærði kosningarnar til hæstaréttar landsins.   Í frétt BBC þann 12. mars kemur fram að hæstiréttur hafi ákveðið að endurtelja skuli hluta atkvæðanna í kosningunum.

Samkvæmt The Intelligence skiptast landsmenn í grófum dráttum í stjórnmálafylkingar eftir því hvort þeir eru afkomendur þræla eða hvort að forfeður þeirra voru indverskir verkamenn.  Viðhorf til olíugróðans skiptir landsmönnum einnig í hópa.

Ætla mætti að þjóð sem eignast skyndilega mikla olíu ætti gullöld í vændum en ýmsar hættur eru til staðar.  Olíuauð getur t.d. fylgt mikil spilling og hætta er á verðbólgu.  Einnig má nefna hollensku veikina svokölluðu en þá er átt við að á sama tíma og olíuiðnaður styrkist gleymast aðrar stoðir hagkerfisins.  Því verði það einhæfara og þar með veikara.  Stjórnarflokkarnir í Guyana segjast átta sig á þessum hættum.  Þeir hafa lofað að ef þeir haldi völdum þá verði olíuverðmætunum komið fyrir í olíusjóði og skammtað verði úr honum af skynsemi.

Stjórnarandstaðan er í grófum dráttum sammála stjórnvöldum um kosti olíusjóðs.  Hún heldur því hins vegar fram að fái núverandi stjórn að halda um taumana muni skynsemi ekki ráða för.  Stjórnarandstaðan nefnir máli sínu til stuðnings að samkvæmt úttekt samtakanna Global Witness hefðu stjórnvöld átt að geta gert mun betri samning við ExxonMobil.  Ekki eru hins vegar allir sammála greiningu samtakanna.  Stuðningsmenn stjórnvalda benda líka á að olíuhagsmunir hafi ekki einir ráðið för þegar stjórnvöld gerðu samninginn.  Þannig er að Guyana á í landamæradeilu við Venesúela sem gerir tilkall til um 2/3 hluta Guyana.  Þar á meðal er stór hluti olíulindanna.  Með því að semja við öflugt bandaríst olíufyrirtæki sem hefur góð tengsl við stjórnvöld í Washington sé Guyana í mun betri stöðu í deilunni við Venesúela.

Í lok hlaðvarpsins kemur fram að olíuauðurinn sem Guyana mun uppskera á næstu árum sé það mikill að óhjákvæmilegt sé að hagur landsins gjörbreytist.  Þannig er reiknað með að verg landsframleiðsla (e. Gross Domestic Product) aukist um 88 % á þessu ári að raungildi.  Vegna óvissunnar sem er í landsmálum er hins vegar ómögulegt að segja til um hver framtíð íbúa ríkisins verður.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …