Home / Fréttir / Guðlaugur Þór: Mikilvægt að ræða við Rússa þrátt fyrir ágreining um Úkraínu og Sýrland

Guðlaugur Þór: Mikilvægt að ræða við Rússa þrátt fyrir ágreining um Úkraínu og Sýrland

Frá Arkhangelsk
Frá Arkhangelsk

Við höfum ekki orðið vitni að öðru eins síðan Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014: Utanríkisráðherrar Noregs, Danmerkur og Íslands ræða um frið og samvinnu í heimsókn til Rússlands – veikindi urðu til þess að sænski ráðherrann er ekki einnig með í för, á þessum orðum hefst frásögn eftir Martin Breum á vefsíðunni EUobserver fimmtudaginn 30. mars þegar hann lýsir ráðstefnunni um norðurslóðamál sem hófst formlega þennan sama dag í Arkhangelsk í norðurhluta Rússlands.

Minnt er á að frá því að Rússar hófu afskipti af deilunum í Úkraínu hafi Norðurlöndin einarðlega stutt refsiaðgerðir gegn Rússum. Nú hafi utanríkisráðherrarnir ákveðið að nýta norðurslóðaráðstefnuna til að sýna áhuga sinn á að halda opnum stjórnmálatengslum við Rússa.

Martin Breum ræddi við Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, þegar þeir sátu saman í flugvél frá Kaupmannahöfn. Ráðherrann sagði að danska stjórnin stæði fast og ákveðið gegn Rússum á Krímskaga þar sem þeir brytu augljóslega lög en hún útilokaði á hinn bóginn ekki viðræður við þá.

„Norðurslóðir eru Rússum mjög mikilvægar og við erum mjög sammála um að halda beri norðurskautssvæðinu sem lágspennu- og samvinnusvæði,“ sagði ráðherrann.

Norrænu utanríkisráðherrarnir hittu Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, á fundi miðvikudaginn 29. mars og í tilkynningu íslenska utanríkisráðuneytisins um fundinn segir fimmtudaginn 30. mars:

„Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í gærkvöldi fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Danmerkur. Á fundi ráðherranna voru samskiptin við Rússland, samvinna á norðurslóðum, öryggismál og helstu álitamál á alþjóðavettvangi til umfjöllunar.

Ráðherrarnir ræddu samstarf ríkjanna innan Norðurskautsráðsins, sem Ísland tekur við formennsku í árið 2019 og Eystrasaltsráðsins, sem Ísland leiðir nú, en stefnt er að ráðherrafundi þess í Reykjavík í sumar. Gott samstarf er á mörgum málefnasviðum er varðar norðurslóðir og lögðu ráðherrarnir áherslu á að svo yrði áfram.

Ýmis alþjóðamál voru til umræðu á fundinum, meðal annars ástandið í Sýrlandi og Mið-Austurlöndum, svo og í Úkraínu og Tyrklandi. Hvöttu norrænu ráðherrarnir rússnesk stjórnvöld til þess að beita áhrifum sínum til að koma á varanlegu vopnahléi í austurhluta Úkraínu. Þá ræddu ráðherrarnir öryggismál og mannréttindi.

„Okkur greinir viða á, meðal annars í málefnum Úkraínu og Sýrlands, og í mannréttindamálum. Engu að síður er mikilvægt að viðhalda samtali og freista þess að miðla málum og leysa úr ágreiningsefnum. Á ýmsum öðrum sviðum, líkt og í málefnum norðurslóða, er samstarf hins vegar með ágætum og mikilvægt að hlúa áfram að því,“ segir Guðlaugur Þór.“

Opinber gestgjafi Rússlandsstjórnar á ráðstefnunni sem um 1.500 manns sækja er Dmitríj Rogozin varaforsætisráðherra. Hann er formaður norðurslóðaráðs Rússlands sem fer með yfirstjórn mála á norðurslóða fyrir hönd stjórnvalda í Moskvu.

Rogozin var settur á ferðabannlista ESB og Bandaríkjanna árið 2014 auk þess sem honum er bannað að eiga bankaviðskipti á Vesturlöndum.

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …