Home / Fréttir / Guðlaugur Þór í Pentagon

Guðlaugur Þór í Pentagon

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Pentagon, Washington, 15. maí 2018.
Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Pentagon, Washington, 15. maí 2018.

Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum og innan Atlantshafsbandalagsins voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í Washington þriðjudaginn 15. maí.

„Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum á sér langa sögu og hefur þróast í áranna rás. Undanfarin ár hefur samstarf ríkjanna farið mjög vaxandi samhliða breyttu öryggisumhverfi í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi. Atlantshafstengslin eru mikilvægari nú sem aldrei fyrr og gagnkvæmar skuldbindingar Íslands og Bandaríkjanna standa óhaggaðar. Við fórum yfir mikilvægi samstöðu vestrænna ríkja sem deila sömu gildum í því breytilega öryggisumhverfi sem við búum við,“ segir Guðlaugur Þór á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslumál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins í sumar, þ.m.t. auknar áherslur á mikilvægi Norður-Atlantshafsins. Einnig var loftrýmisgæsla og kafbátarleit og varnaræfingin Trident Juncture 2018 til umfjöllunar. Þá voru helstu viðfangsefni á alþjóðavettvangi til umræðu, þ.m.t. málefni Miðausturlanda og staða mála á Gaza. Einnig voru málefni norðurslóða á meðal fundarefna.

„Ísland er meðal stofnríkja Atlantshafsbandalagsins og borgaralegt framlag Íslands í þágu eigin og sameiginlegra varna bandalagsríkja, sem hefur farið vaxandi á umliðnum árum, er vel metið hér vestan hafs og Ísland álitið áreiðanlegt og trúverðugt bandalagsríki,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Í frétt Morgunblaðsins 16. maí af fundinum segir meðal annars:

„Í fyrra var greint frá því í fjölmiðlum að Bandaríkin hygðust koma með her sinn tímabundið aftur til Íslands, til þess að fylgjast með rússneskum kafbátum í Norður-Atlantshafi, spurður segir Guðlaugur slíkt ekki hafa verið rætt. Aukin áhersla Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshaf kom hins vegar upp í tengslum við lofthelgisgæslu og kafbátaleit. Þá ræddu ráðherrarnir einnig hernaðaræfinguna Trident Juncture sem mun fara fram á Íslandi og í Noregi í haust. Spurður hvort Bandaríkin vilji auka hlutverk Íslands í varnarmálum vegna landfræðilegrar stöðu sinnar segir Guðlaugur engan hafa farið fram á slíkt. „Það þekkja allir sérstöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins sem herlausrar þjóðar en borgaralegt framlag okkar til bandalagsins hefur farið vaxandi á undanförnum árum allt frá innlimun Krímskagans. Frá þeim tíma hafa aðildarríkin lagt meiri áherslu á svið varnarmála, m.a. í Norður-Atlantshafi. Framlag okkar hefur verið mjög vel metið beggja vegna Atlantshafsins.“

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …