Home / Fréttir / Grunur um morðtilraun gegn helsta andstæðingi Pútins

Grunur um morðtilraun gegn helsta andstæðingi Pútins

Aleksei Navalníj
Aleksei Navalníj

Helsti andstæðingur Vladimir Pútins Rússlandsforseta og valdahóps hans í Kremlarkastala, Aleksei Navalníj (44 ára), lá meðvitundarlaus í öndunarvél á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Síberíu að morgni fimmtudags 20. ágúst en upplýsingafulltrúi hans segir að eitrað hafi verið fyrir honum.

Kira Jarmijsh upplýsingafulltrúi sagði að líðan Navalníjs væri „alvarleg“ eftir að hann veiktist í flugvél á leið frá bænum Tomsk í Síberíu til Moskvu. Greip flugstjórinn til þess að lenda vélinni í neyð á Omsk-flugvelli í Síberíu en þar var Navalníj fluttur á sjúkrahús.

Jarmíjsh telur að Navalníj hafi verið byrlað eitur í tebolla sem hann keypti á flugvellinum í Tomsk.

„Við álítum að eitrað hafi verið fyrir Aleksei með því að setja eitthvað út í teið. Hann drakk ekki annað um morguninn en það. Læknar segja að eitrið virki hraðar sé því blandað í heitan vökva,“ sagði hún.

Birt hefur verið á netinu upptaka sem sögð er lýsa sársaukahljóðum frá Navalníj um borð í flugvélinni.

Anatolíj Kalinistjenko, læknir við Neyðarskjúkrahús 1 í Omsk, þar sem Navalníj liggur stðfesti að ástand sjúklingsins væri alvarlegt og hann væri í öndunarvél.

Hann tók hins vegar fram að ekki væri unnt að „slá neinu föstu“ um að hann hefði orðið fyrir eitrun það væri „ein hugsanleg ástæða“ en greiningu á veikindum væri ekki lokið og ekki heldur sýnatöku.

Jarmijsh sagði að læknarnir segðu „greinilega ekki frá öllu“ sem þeir vissu enda væri sjúkrahúsið ofsetið af lögreglumönnum. „Það eru fleiri lögreglumenn í sjúkrahúsinu en læknar. Rannsóknanefnd var að koma þangað,“ sagði hún.

Pavel Lebedev var meðal flugfarþeganna þegar Navalníj veiktist. Hann sagði Navalníj hafa farið á salernið við upphaf flugferðarinnar og ekki snúið þaðan aftur.

„Hann var verulega illa haldinn og æpti af sársauka. Þeir sögðu ekki nákvæmlega hvað hefði komið fyrir hann. Við lentum í Omsk. Sjúkrabíll kom,“ sagði hann á samfélagsmiðli.

Navalníj hefur hiklaust gagnrýnt Vladimir Pútin og spillingu í Rússlandi. Hann hefur verið hantekinn nokkrum sinnum og setið í fangelsi. Hann fékk hvorki að bjóða sig fram til forseta né borgarstjóra í Moskvu.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …