Home / Fréttir / Grunur um að fyrsta hryðjuverk í sögu Finnlands hafi verið framið

Grunur um að fyrsta hryðjuverk í sögu Finnlands hafi verið framið

Paula Riskko innanríkisráðherra og Juha Sipilä forsætisráðherra Finnlands á blaðamannafundi.
Paula Riskko innanríkisráðherra og Juha Sipilä forsætisráðherra Finnlands á blaðamannafundi.

Ráðist var á átta konur og tvo karlmenn á markaðstorgi í finnsku borginni Turku föstudaginn 18. ágúst. Árásarmaðurinn var vopnaður hnífi og virtist hending ráða vali hans á fórnarlömbum. Tvær konur týndu lífi vegna árásarinnar. Sár nokkurra voru alvarleg. Sunnudaginn 20. ágúst voru fjórir enn á háskólasjúkrahúsinu í Turku, þrír þeirra í gjörgæslu, þar á meðal sá sem grunaður er um ódæðið.

Lögregla skaut þann sem hún telur ódæðismanninn í mjöðmina. Hann er 18 ára frá Marokkó. Látnu konurnar tvær voru Finnskar. Í hópi þeirra sem urðu fyrir árásinni eru Svíi, Breti og Ítali. Finnska rannsóknarlögreglan rannsakar atvikið eins og um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, sagði á blaðamannafundi laugardaginn 19. ágúst að sýndi lögreglurannsókn að þetta hefði verið hryðjuverk væri um þáttaskil að ræða í Finnlandi. Hann sagði finnsk stjórnvöld þó hafa óttast að slíkt gæti gerst. „Við erum ekki lengur eyja,“ sagði forsætisráðherrann í upphafi blaðamannafundarins sem hann hélt með Paulu Risikko innanríkisráðherra.

Sipilä bar lof að skjót viðbrögð lögreglunnar. Ekki liðu nema þrjár mínútur frá því að hún fékk vitneskju um voðaverkið þar til árásarmaðurinn hafði verið skotinn í mjöðmina, samt hafði honum tekist að stinga 10 manns.

„Við höfum gert allt í okkar valdi til að koma í veg fyrir þetta [hryðjuverk] en ekki er alltaf unnt að gera það. Nú berum við sameiginlegan harm í brjósti og leyfum yfirvöldunum að sinna skyldum sínum í friði,“ sagði Sipilä.

Forsætisráðherrann áréttaði að Finnland væri enn eitt öruggasta land í heimi og sagði: „Við leggjum allt í sölurnar til að tryggja að Finnland verði það áfram.“

Heimild: Yle

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …