
Fyrir þingkosningarnar í Bretlandi í desember 2019 var viðkvæmum skjölum um viðskiptamál lekið í því skyni að hafa áhrif á kjósendur. Nú kemur í ljós að tölvuþrjótar stálu skjölunum úr tölvu fyrrverandi viðskiptaráðherra Breta, Liam Fox. Komust þeir nokkrum sinnum inn í tölvu hans frá um miðjum júlí til loka október 2019.
Fox fór með alþjóðleg viðskiptamál í ríkisstjórn Theresu May en hætti sem ráðherra þegar Boris Johnson myndaði nýja ríkisstjórn 24. júlí 2019 sem nýr leiðtogi Íhaldsflokksins.
Í fyrstu fréttum af málinu var ekki sagt hvort brotist hefði verið inn í netfang Fox sem ráðherra eða sem þingmanns.
Skjöl sem snertu viðskiptaviðræður Breta við Bandaríkjamenn voru meðal þess sem tölvuþrjótarnir stálu.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, sakaði fyrir skömmu „rússneska aðila“ um afskipti af þingkosningunum í desember 2019, þeir hefðu á sviksamlegan hátt komist yfir og dreift „viðkvæmum“ skjölum á samfélagsmiðlum.
Jeremy Corbyn, þáv. leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði fyrir kosningarnar að af trúnaðarskjölum mætti ráða að stjórn Íhaldsflokksins ætlaði að leggja breska heilbrigðiskerfið, National Health Service (NHS), undir í væntanlegum viðskiptasamningi við Bandaríkjamenn. Túlkaði Corbyn stolnu skjölin á þennan veg eftir að þeim var lekið.
Af hálfu breskra stjórnvalda er nú unnið að sakamálarannsókn á því hvernig náð var í skjölin og vill talsmaður ríkisstjórnarinnar ekkert segja um rannsóknina á þessu stigi en áréttaði að í breska stjórnarráðinu væru tölvuvarnir mjög öflugar.
Breska netvarnastofnunin, National Cyber Crime Agency (NSCS), rannsakar málið. Af hennar hálfu er náið samstarf við stjórnmálaflokka, sveitarstjórnir og þingmenn til að tryggja þeim sem best tölvuöryggi.
Breska ríkisstjórnin býður Liam Fox nú fram í sæti forstjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO.