Home / Fréttir / Grunsemdir um íhlutun Rússa í Brexit-atkvæðagreiðsluna

Grunsemdir um íhlutun Rússa í Brexit-atkvæðagreiðsluna

George Papadopoulos.
George Papadopoulos.

Ákæran á hendur George Papadopoulos, kosningaráðgjafa Donalds Trumps um utanríkismál, sem sagt var frá mánudaginn 30. október hefur beint athygli rannsakenda til London. Talið er að þar geti verið miðstöð útsendara Kremlverja sem gerðir eru út af örkinni til að hafa áhrif á þróun stjórnmála á Vesturlöndum. Jamie Dettmer hjá fréttastofunni Voice of America  (VOA) hefur þetta eftir vestrænum greiningaraðilum og embættismönnum í fréttaskýringu sem birtist sunnudaginn 5. nóvember.

Papadopoulos var að sögn starfsmanna Trumps lágt settur og lítils metinn ráðgjafi um utanríkismál í forsetakosningabaráttunni 2016. Hann játaði við rannsókn sérstaks saksóknara á íhlutun Rússa í kosningabaráttuna að hann hefði sagt ósatt um hvernig tengslum sínum við Rússa var háttað og bauðst til að vinna með rannsakendum málsins. Fyrstu laumulegu tengsl hans við Rússa komu til sögunnar fyrir tilstuðlan víðföruls háskólamanns frá Möltu sem hafði aðsetur í London ef marka má ákæruna frá 30. október 2017.

Beggja vegna Atlantshafs hafa þeir sem rannsaka hugsanlega íhlutun Rússa í forsetakosningarnar árið 2016 og í Brexit-atkvæðagreiðsluna í Bretlandi í júní 2016 talið nauðsynlegt að skoða betur hvort í London sé að finna miðstöð njósnanets Rússa sem sem tengir einstaklinga og hópa bæði við rannsakendur í Washington og í Bretlandi.

Sífellt eykst þrýstingur í Bretlandi á ríkisstjórn Theresu May með kröfu um að stofnað verði til formlegrar rannsóknar á hvort stjórnvöld í Moskvu hafi reynt að hafa áhrif á Brexit-atkvæðagreiðsluna.

Kröfurnar um Brexit-rannsókn fengu aukið vægi eftir að bandaríska alríkislögreglan sem vinnur að sérstöku rannsókninni í Washington komst að því í fyrri viku að einstaklingar undir smásjá FBI-rannsakendanna beindu athygli sinni að þremur núverandi og fyrrverandi utanríkisráðherrum Breta, þar á meðal núverandi ráðherra, Boris Johnson.

Robert Mueller, sérstaki saksóknarinn í Washington, samdi í október við Papadopoulos um að þessi fyrrv. aðstoðarmaður í kosningabaráttu Trumps játaði sig sekan um að hafa logið að rannsakendum FBI um tengsl sín við milligöngumenn Rússa í kosningabaráttunni.

Í ákærunni kemur fram að Papadopoulos hafi verið boðin „þúsundir tölvubréfa“ með „óhróðri“ um Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata. Tilboðin voru kynnt Papadopoulos nokkrum mánuðum áður en Wikileaks birti tölvubréf sem stolið hafði verið af netþjónum Demókrataflokksins. Bandarískar njósnastofnanir segja að stuldinn af netþjónunum megi rekja til „virkra aðgerða“ á vegum stjórnvalda í Moskvu. Julian Assange stjórnar Wikileaks úr sendiráði Ekvador í London þar sem hann dvelst í sjálfvöldu stofufangelsi.

Joseph Misfud
Joseph Misfud

Í ákæru Muellers var prófessorinn frá Möltu ekki nafngreindur. Það var hins vegar gert í breska blaðinu Observer sunnudaginn 5. nóvember en þar er um að ræða Joseph Mifsud. Í blaðinu segir að Papadopoulos og Mifsud hafi nokkrum sinnum hitt eða haft samband við breska ráðherra. Ekki eru nema tvær vikur frá því að Mifsud sat kvöldverð þar sem Boris Johnson utanríkisráðherra flutti ræðu. Starfsmenn bresku utanríkisþjónustunnar segja við breska blaðamenn að „sér vitanlega“ hafi Johnson ekki talað við Mifsud.

Tölvubréf sem Byline, sjálfstæð vefsíða, hefur í fórum sínum sýnir að fyrir kvöldverðinn hafi Mafsud, sem stærir sig af því að hafa hitt Vladimír Pútín, sagt vinum sínum að hann ætlaði að vekja máls á Brexit-viðræðunum við Johnson.

Uppljóstranir um þessa fundi hafa orðið til þess að breski Verkamannaflokkurinn krefst þess að breska ríkisstjórnin stofni til alhliða rannsóknar á njósnastarfsemi Rússa. Vekur þetta enn grunsemdir um að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á Brexit-atkvæðagreiðsluna í júní 2016.

Tom Watson, vara-leiðtogi Verkamannaflokksins, segir að þessir fundir hafi verið „sérkennilegir“ og það sé brýnt að fá úr því skorið hvort Kremlverjar hafi reynt að hafa áhrif á gang breskra stjórnmála. Fréttin um að Mifsud hafi verið í kvöldverði íhaldsmanna með Johnson sem ræðumann birtist aðeins fáeinum dögum eftir að breski utanríkisráðherrann blés á allar áhyggjur manna af því að Rússar hefðu blandað sér í bresk stjórnmál.

Fyrr á þessu ári sagði breska kjörstjórnin að hún ætlaði að kanna hvort Leave-baráttan, ESB-úrsagnar baráttan, undir stjórn Nigels Farage, höfuðandstæðings ESB-aðilar og stuðningsmanns Trumps, hefði fengið „óleyfilegar“ gjafir. Kjörstjórnin sagði að ákvörðunin um rannsókn á þessu ætti rætur að rekja til mats sem sýndi „rökstuddar ástæður til að gruna að hugsanlega hefði verið brotið gegn lögum“.

Í fyrri viku hóf kjörstjórnin síðan aðra, þrengri rannsókn sem beindist að því hverjir stóðu að baki fjárstuðningi og lánum sem Farage fékk vegna baráttunnar. Ben Bradshaw, þingmaður Verkamannaflokksins og fyrrv. ráðherra, hafði gefið til kynna að ef til vill væri um „svartar greiðslur“ að ræða til að fela uppruna þeirra.

Arron Banks sem veitti Brexit-sinnum fjárstuðning segir að Rússar hafi ekki komið neitt nálægt fjárstuðningi við Farage. Hann  sjálfur hefði lagt fram fé af bankareikningi sínum.

Jamie Dettmer, fréttaskýrandi VOA, segir þetta ekki duga til að slá á kröfur um víðtæka rannsókn í Bretlandi. Tom Brake, þingmaður Frjálslynda flokksins, er einn þeirra sem krefst formlegrar rannsóknar. Það bendi ýmislegt til að Rússar hafi blandað sér í Brexit-atkvæðagreiðsluna.

Starfsmenn bresku kosningastjórnarinnar segja að þeir hafi einnig rætt við félög sem haldi úti samfélagsmiðlum til að kanna hvort útsendarar Rússa kunni að hafa notað Facebook og Twitter í því skyni að hafa áhrif á Breta fyrir atkvæðagreiðsluna á sama hátt og fullyrt er að þeir hafi reynt að gera í bandarísku kosningunum í fyrra.

Heimild: VOA

 

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …