Home / Fréttir / Grundvallarbreyting varna á norðurvæng NATO með Svíum og Finnum

Grundvallarbreyting varna á norðurvæng NATO með Svíum og Finnum

Yfirmenn herja Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, hershöfðingjarnir Eirik Kristoffersen, Micael Bydèn og Vesa Virtanen, í norska landamærabænum Kirkenes, 1. mars 2023.

Yfirmenn herja Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, hershöfðingjarnir Eirik Kristoffersen, Micael Bydèn og Vesa Virtanen, heimsóttu norska landamærabæinn Kirkenes, skammt vestan landamæra Rússlands, í liðinni viku og tóku þátt í ráðstefnu um öryggismál.

„Aðild Svía og Finna breytir í grundvallaratriðum hvernig við, frá herfræðilegum sjónarhóli, lítum á varnir Noregs og NATO í norðri,“ sagði norski hershöfðinginn Kristoffersen á ráðstefnunni.

„Sameiginlega verðum við að huga á nýjan hátt að nýtingu innviða, allsherjarvörnum og hvernig við skipum herafla okkar. Skandinavíuskagi tengist landfræðilega Evrópu aðeins í gegnum Rússland. Önnur strategíska áttin er í  hánorður og hin að Eystrasalti. Við verðum að líta til beggja átta og meta hvernig gera má trúverðugar áætlanir til að halda þeim í skefjum sem kann að valda okkur tjóni – og til að svara á virkan hátt, sé þess þörf,“ sagði hann.

Svíar beina athygli sinni einnig meira að norðurslóðum en áður þótt meginþungi varna landsins snúi að Eystrasalti.

Micael Bydèn hershöfðingi sagði að norðurslóðir skiptu miklu, ekki aðeins fyrir norrænu ríkin heldur ríki utan NATO, eins og til dæmis Kína.

Þegar hann var spurður um framlag Svía til NATO benti Bydèn á að Svíar réðu yfir öflugum hergagnaiðnaði auk vel þjálfaðs og vopnaðs liðs sem þekkti til aðstæðna á svæðinu.

„Við vitum hvernig á að komast af við þessar aðstæður. Við aukum fælingarmátt NATO,“ sagði hann.

Finnski hershöfðinginn Vesa Virtanen sagði að Finnar hefðu viðhaldið trúverðugum varnarstyrk og gert víðtækar varnaráætlanir auk þess að ráða yfir fjölmennu varaliði.

„Finnar geta sent 280.000 hermenn til aðgerða. Sé litið til varaliða verða næstum 900.000 manns undir vopnum. Við eigum 1340 km löng sameiginleg landamæri með Rússum og við höfum orðið að verja okkur áður,“ sagði hann.

Unnið hefur verið að því að samræma varnaráætlanir norrænu ríkjanna fjögurra, Noregs, Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar. Hafa yfirmenn herja landanna afhent ríkisstjórnum sínum sameiginlega varnaráætlun þar sem aðgerðaáætlanir herja landanna eru samræmdar.

Eirik Kristofferesen segir að í nýju áætluninni felist meðal annars að æfing sem Norðmenn hafa stjórnað í Norður-Noregi undir heitinu Cold Response verði framvegis kölluð Nordic Response. Stefnt er að fyrstu æfingunni undir því heiti árið 2024. Þá vilja yfirmenn norrænu herjanna að innan NATO verði herafli þeirra skilgreindur á sama herstjórnarsvæði. Þar með verði stuðlað að sameiginlegri stjórn og ábyrgð á vörnum svæðisins.

Micael Bydén sagði að með aðild að NATO tækju Svíar á sig ábyrgð gistiríkis gagnvart bandamönnum sínum. Gera yrði ráðstafanir til að geta tekið á móti liðsauka í höfnum og á flugvöllum. Sjá yrði til þess að frá öllu yrði gengið á þann veg að senda mætti liðsaukann strax til aðgerða.

 

Heimild: High North News

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …