
Gríska þingið samþykkti föstudaginn 25. janúar með samninginn við nágrannaríkið Makedóníu sem bindur enda á deilur um nafn ríkisins, það heitir framvegis Lýðveldið Norður-Makedónía og opnar leið þess inn í Evrópusambandið og NATO. Atkvæði féllu 153:146 til stuðnings samningnum sem þing Makedóníu hefur þegar samþykkt.
Gríski forsætisráðherrann Alexis Tsipras og forsætisráðherra Makedóníu, Zoran Zaev, rituðu undir samninginn í fyrra.
Ríkisstjórnir Vesturlanda studdu samninginn. Þær vilja sporna gegn áhrifum og ítökum Rússa innan Balkan-ríkjanna. Þjóðernissinnar í Makedóníu og Grikklandi hvöttu til andstöðu við samninginn. Töldu þeir ríkisstjórnir landa sinna hafa slegið um of af kröfum sínum til að ná samkomulagi.
Forystumenn ESB í Brussel fögnuðu niðurstöðunni á gríska þinginu og áréttuðu að þeir hefðu frá fyrsta degi stutt samninginn sem forsætisráðherrarnir gerðu. Með því að sýna hugrekki, forystu og ábyrgð hefðu stjórnmálamenn í báðum löndunum tekist á við þetta erfiða og langvinna verkefni og leyst það á þann veg að um gott fordæmi fyrir allar Evrópuþjóðir væri að ræða.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, fagnaði niðurstöðunni í gríska þinginu, hún væri mikilvægt framlag til stöðugleika og farsældar á öllu svæðinu. Hann sagðist fagna væntanlegri aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu að NATO.
Báðir forsætisráðherrarnir urðu að beita sér af þunga til að fá samninginn samþykktan á þingum landa sinna. Hann bindur enda á nærri þriggja áratuga langar deilur.
Boðað var til mótmæla gegn samningnum í Aþenu daginn sem þingið greiddi atkvæði um hann. Stórfelld úrkoma dró úr áhuga fólks á að koma saman á torginu fyrir framan þinghúsið. Daginn fyrir atkvæðagreiðsluna, fimmtudaginn 24. janúar, greip lögregla til táragass til að dreifa mannfjölda við þinghúsið.