Home / Fréttir / Gríska þingið samþykkir nýtt nafn Makedóníu

Gríska þingið samþykkir nýtt nafn Makedóníu

Það var bláisð til mótmæla við gríska þinghúsið þegar samningurinn við stjórn Makedóníu var ræddur.
Það var bláisð til mótmæla við gríska þinghúsið þegar samningurinn við stjórn Makedóníu var ræddur.

Gríska þingið samþykkti föstudaginn 25. janúar með samninginn við nágrannaríkið Makedóníu sem bindur enda á deilur um nafn ríkisins, það heitir framvegis Lýðveldið Norður-Makedónía og opnar leið þess inn í Evrópusambandið og NATO. Atkvæði féllu 153:146 til stuðnings samningnum sem þing Makedóníu hefur þegar samþykkt.

Gríski forsætisráðherrann Alexis Tsipras og forsætisráðherra Makedóníu, Zoran Zaev, rituðu undir samninginn í fyrra.

Ríkisstjórnir Vesturlanda studdu samninginn. Þær vilja sporna gegn áhrifum og ítökum Rússa innan Balkan-ríkjanna. Þjóðernissinnar í Makedóníu og Grikklandi hvöttu til andstöðu við samninginn. Töldu þeir ríkisstjórnir landa sinna hafa slegið um of af kröfum sínum til að ná samkomulagi.

Forystumenn ESB í Brussel fögnuðu niðurstöðunni á gríska þinginu og áréttuðu að þeir hefðu frá fyrsta degi stutt samninginn sem forsætisráðherrarnir gerðu. Með því að sýna hugrekki, forystu og ábyrgð hefðu stjórnmálamenn í báðum löndunum tekist á við þetta erfiða og langvinna verkefni og leyst það á þann veg að um gott fordæmi fyrir allar Evrópuþjóðir væri að ræða.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, fagnaði niðurstöðunni í gríska þinginu, hún væri mikilvægt framlag til stöðugleika og farsældar á öllu svæðinu. Hann sagðist fagna væntanlegri aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu að NATO.

Báðir forsætisráðherrarnir urðu að beita sér af þunga til að fá samninginn samþykktan á þingum landa sinna. Hann bindur enda á nærri þriggja áratuga langar deilur.

Boðað var til mótmæla gegn samningnum í Aþenu daginn sem þingið greiddi atkvæði um hann. Stórfelld úrkoma dró úr áhuga fólks á að koma saman á torginu fyrir framan þinghúsið. Daginn fyrir atkvæðagreiðsluna, fimmtudaginn 24. janúar, greip lögregla til táragass til að dreifa mannfjölda við þinghúsið.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …