Home / Fréttir / Grimmdin miskunnarlaus í Sýrlandi – rússneskir málaliðar ráðast á Bandaríkjamenn

Grimmdin miskunnarlaus í Sýrlandi – rússneskir málaliðar ráðast á Bandaríkjamenn

Frá blóðbaðinu í Ghouta
Frá blóðbaðinu í Ghouta

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari sendu Vladimír Pútín Rússlandsforseta bréf föstudaginn 23. febrúar og hvöttu hann til að styðja ályktun um 30 daga vopnahlé í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um að binda enda á eina mannskæðustu árásarlotu sprengjuvéla í Sýrlandsstríðinu.

Sprengjuárásirnar eru gerðar á austurhluta Goutha í Sýrlandi, nálægt höfuðborginni Damaskus. Stjórnarher landsins segir uppreisnarmenn hafa svæðið á valdi sínu og þeir noti almenna borgara sér til skjóls. Að minnsta kosti 436 almennir borgarar hafa fallið þarna undanfarna daga, þar af um 100 börn.

Föstudagurinn 23. febrúar var sjötti dagurinn í röð sem stjórnarherinn sendi flugvélar til árása á þéttbýla svæði fyrir austan höfuðborgina. Er þetta talið síðasta vígi uppreisnarmanna í grennd við Damaskus.

Mannfall almennra borgara og eyðileggingin minnir á hörmungarnar í Aleppo árið 2016 þegar stjórnarherinn lagði undir sig borgina af mikilli grimmd.

Í Ghouta hefur verið ráðist á 22 sjúkrahús og heilsustofnanir. Er stjórnarherinn sakaður um að vinna markvisst að því að gjöreyða allri heilbrigðisþjónustu

Samtökin Médecins Sans Frontières – Læknar án landamæra – sögðu að 13 sjúkrahús sem þau studdu hefðu verið eyðilagðir eða skaddaðir undanfarna þrjá daga.

Samhliða því sem leitast er við að binda enda á blóðbaðið í Goutha beinist athygli að nýlegri árás rússneskra málaliða á stjórnstöð bandarískra hermanna og bandamanna þeirra í austurhluta Sýrlands.

Rússneskur auðmaður er talinn stjórna rússneskum málaliðum sem réðust á bandarísku hermennina og bandamenn þeirra í Sýrlandi fyrr í mánuðinum. Í blaðinu The Washington Post (WP) segir föstudaginn 23. febrúar að auðmaðurinn, Jevgeníj Prigozhin, hafi verið í nánu sambandi við ráðamenn í Kreml og sýrlenska embættismenn fyrir árásina, ber blaðið fyrir sig heimildarmenn innan bandarísku leyniþjónustunnar.

Jevgeníj Prigozhin
Jevgeníj Prigozhin

Í frétt WP segir að í lok janúar hafi Prigozhin tilkynnt háttsettum sýrlenskum embættismanni að hann hefði „örugga heimild“ frá ótilgreindum rússneskum ráðherra til að láta til skarar skríða með „hraða og þunga“ við verkefni í byrjun febrúar. Þessi samskipti voru hleruð af erlendum leyniþjónustum.

Prigozhin komst í sviðsljósið í Bandaríkjunum föstudaginn 16. febrúar þegar bandaríska dómsmálaráðuneytið birti ákæru á hendur 13 Rússum og þremur netstofum vegna afskipta af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. Vitað er um náið samband hans við Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem myndaðist þegar Prigozhin starfaði sem veitingamaður í St. Pétursborg. Síðar auðgaðist hann mjög á matseld fyrir rússneska herinn en árið 2013 stofnaði hann netstofu í St. Pétursborg sem er aðsetur tölvuþrjóta og létu þeir að sér kveða á víðtækan hátt í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum.

Bandarískar leyniþjónustur telja „næstum fullvíst“ að fjölbreyttur atvinnurekstur Prigozhins nái til úthalds á málaliðum í Sýrlandi sem berjist fyrir Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Fyrirtækið að baki málaliðunum heitir Wagner og í þjónustu þess eru rússneskir öfga-þjóðernissinnar og uppgjafarhermenn sem hafa meðal annars tekið þátt í átökunum í Úkraínu að sögn rússneskra fjölmiðla.

Bandaríkjastjórn sendi sérsveitir til Sýrlands árið 2015 til að berjast við hlið bandamanna sinna gegn Daesh (Ríki íslams). Bandarískir hermenn eru nú í austurhluta Sýrlands og hafa ekki fyrr orðið fyrir sambærilegri árás og gerð var á þá aðfaranótt 8. febrúar sl. Milli 300 til 500 hermenn hliðhollir Sýrlandsstjórn réðust á höfuðstöðvar Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra skammt frá bænum Deir al-Zour.

Bandaríkjamenn svöruðu árásinni af miklum þunga meðal annars með AC-130 fallbyssuflugvélum, orrustuþotum og Apache-árásarþyrlum. Árásarherinn hörfaði eftir þrjár klukkustundir og þá lágu um 100 manns úr liði hans í valnum. Enginn féll í liði Bandaríkjamanna eða bandamanna þeirra.

Frá því að árásin var gerð hefur bandaríska varnarmálaráðuneytið varist allra frétta. Jim Mattis varnarmálaráðherra hefur sagt að málavextir séu „flóknir“ í tengslum við atvikið. Hann geti ekki skýrt hvers vegna árásin var gerð.

Rússnesk stjórnvöld hafa staðfastlega neitað allri aðild af sinni hálfu. Varnarmálaráðuneyti Rússa segir það eitt að varaliðssveit hlynnt Sýrlandsstjórn hafi verið við „eftirlit og rannsóknir“ á hópi vígamanna, líklega Daesh, sem hafi skotið sprengikúlum að varðstöðvum stjórnarhersins. Rússar segja að Bandaríkjaher hafi gerst sekur um tilefnislausa árás á varaliðssveitina.

Rússneska fréttastofan Tass segir að „rússneski aðgerðahópurinn“ í Sýrlandi hafi ekki vitað um  eftirlitsferðina. Í rússneska blaðinu Kommersant er vitnað í heimildarmann innan hersins sem segir að rússneska herstjórnin í Sýrlandi líti á atvikið sem „viðvaningslega hættuför“.

Í rússneskum og bandarískum fjölmiðlum tóku að birtast fréttir um að flestir hinna föllnu væru rússneskir málaliðar. Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins sagði loks í fyrri viku að ef til vill hefðu fimm rússneskir ríkisborgarar fallið.

Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu þriðjudaginn 20. febúar og viðurkenndi að „nokkrir tugir“ Rússa hefðu fallið eða særst í árásinni og þeim særðu hefði verið „veitt aðstoð til að komast aftur til Rússland“, þar væri þeim hjúkrað í nokkrum sjúkrahúsum. Engir rússneskir hermenn hefðu komið þarna við sögu heldur hefðu þetta verið Rússar sem haldið hefðu til Sýrlands „að fúsum og frjálsum vilja og af ýmsum ástæðum“. Sagðist ráðuneytið ekki hafa vald til að meta réttmæti ákvarðana þeirra. Rússar hafa viðurkennt að margir málaliðar hafi verið í árásarhópnum en þar hafi einnig verið sýrlenskir hermenn og varaliðsmenn.

Bandaríska fjármálaráðuneytið segir að Prigozhin eigi rússneska fyrirtækið Evro Polis sem rússneska fréttasíðan Fontanka segir að hafi árið 2016 samið við Sýrlandsstjórn um 25% hlut í olíu og gasi sem unnið sé landsvæði sem verði endurheimt af Daesh. Stærsti hluti þessara orkulinda er á svæðinu þar sem Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa sótt gegn hryðjuverkamönnunum.

Wagner-félagið sem heldur úti málaliðunum er tengt olíu- og gasvinnslu Prigozhins og á að tryggja aðgang að vinnslusvæðunum með samningi við Sýrlandsstjórn.

Sérfræðingar segja að árásin sem hér er lýst sýni að málaliðarnir séu notaðir til aðgerða gegn Bandaríkjaher sem yrðu aldrei í verkahring rússneska hersins af ótta við stigmögnun átaka.

Andrew S. Weiss, sérfræðingur hjá Carnegie Endowment for International Peace, segir við WP að þjónustan sem Prigozhin veitir Kremlverjum sé ómetanleg fyrir þá: annars vegar standi hann fyrir umtalsverðri upplýsingaaðgerð gegn Bandaríkjunum, hins vegar vinni hann náið með varnarmálaráðuneytinu og leggi til liðsafla og veiti aðra þjónustu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Hælisleitendur peð Rússa gagnvart Finnum

Fréttamenn finnska ríkisútvarpsins, Yle, ræddu við þrjá hælisleitendur sem komu til Finnlands frá Rússlandi um …