
Talið er að um 140.000 Grikkja hafi komið saman á Syntagma-torgi fyrir framan þinghúsið í Aþenu sunnudaginn 4. febrúar til að mótmæla að nágrannaríki Grikklands beri heitið Makedónía. Margir Grikkir eru þeirrar skoðunar að með þessu vakni kröfur um að héraðið Makedónía í Grikklandi verði tekið undan grískum yfirráðum.
Lögfræðingurinn Zoe Konstantopolou, fyrrverandi forseti gríska þingsins, sagði á fundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 3. febrúar að líta bæri á mótmælin á Syntagma-torginu sem upphaf víðtækari mótmælaaðgerða gegn grísku ríkisstjórninni fyrir að fara að fyrirmælum frá ESB og beita þjóðina alræðisvaldi og arðráðni. Þá taldi hún að NATO þrýsti á að lausn fengist í deilunni um heitið á Makedóníu til að geta veitt ríkinu aðild að NATO.

Í frétt BBC af mótmælaaðgerðunum segir að tónskáldið Mikis Theodorakis (92 ára), sem aflaði sér heimsfrægðar með Zorba-laginu, hafi ávarpað mótmælendur. Hann talaði um lýðveldið Makedóníu sem Skopje.
Mótmælendur gengu undir gríska þjóðfánanum og hrópuðu: Látið Makedóníu í friði! og Makedónía er grísk! Sunnudaginn 21. janúar var efnt til mótmæla undir sömu slagorðum í Þessalóníki, höfuðborg Makedóníu-héraðs í Grikklandi. Skipuleggjendur mótmælanna í Aþenu segja að um ein milljón manna hafi tekið þátt í þeim. Lögregla nefnir töluna um 140.000, hún er hærri en fjöldi mótmælenda á Syntagma-torgi eftir að þrengingarnar hófust í Grikklandi vegna fjármálakreppunnar fyrir fáeinum árum.
Deilan vegna heitis Makedóníu hefur verið óleyst síðan landið fékk sjálfstæði við upplausn Júgóslavíu árið 1991 og hefur hún spillt tilraunum stjórnenda landsins til að komast inn í NATO og ESB. Opinbera heiti ríkisis er nú Fyrrverandi júgóslavneska lýðveldið Makedónía (FYROM) innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Gerðist ríkið aðili á SÞ árið 1993 undir þessu heiti.
Vinstri stjórn Grikklands undir forsæti Alexis Tsipras úr Syriza-hreyfingunni segir að óleysta deilan vegna Makedóníu skapi vandræði og hana verði að leysa. Tillaga stjórnarinnar er samsett heiti með orðinu Makedónía og þess verði gætt að greina heitið frá gríska héraðinu.
BBC segir að mörgum Grikkjum þyki of langt gengið með málamiðlun í þessa veru.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er unnið að lausn á deilunni. Meðal Grikkja eru tilfinningar svo heitar í málinu að Nikos Kotzias utanríkisráðherra hefur fengið morðhótanir eftir að hann sagðist vænta þess að deilan yrði leyst innan nokkurra mánaða.
Gríska rétttrúnaðarkirkjan styður þá sem berjast gegn því að ríkið Makedónía fá að nota nokkurt heiti með orðinu Makedónía.
Matthew Nimetz, sáttamiðlari Sameinuðu þjóðanna, hefur nefnt þann kost að ríkið verði kallað: Lýðveldið Nýja-Makedónía. Sagt er að Grikkir hafi samþykkt heitið Lýðveldið Makedónía-Skopje en stjórn Makedóníu hafnaði tillögunni.